09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Þessi þáltill. hefir verið hjá fjvn. til umsagnar, og n. hefir athugað hana og ekki getað orðið sammála um, hvernig þetta skyldi afgr. Að vísu er það, sem á greinir, ekki annað en það, hvort sú rannsókn, sem hér um ræðir, á að vera framkvæmd af fiskimálanefnd eða án íhlutunar hennar. Að öðru leyti eru till. meiri og minni hl. svo að kalla nákvæmlega eins. Eins og þingheimi mun kunnugt, er ekkert fé sérstaklega til þessa í ríkissjóði, en n. hefir gert ráð fyrir því, að þar sem varðskipið Þór kostar vitanlega ríkissjóð allmikið fé, þá sé það sanngjarnt, að því fé verði varið í þessu skyni. Hinsvegar er í fiskimálasjóði nokkurt fé, og samkv. l., sem afgr. voru í fyrra, er fyrsta hlutverk hans og einmitt aðalverkefni það, sem þessi till. fer fram á. Það er að styrkja leit að nýjum aflamiðum og yfirleitt að hlutast til um, að hægt sé að koma í framkvæmd þeim hugmyndum, sem hér er um að ræða. Við vorum sammála um það allir í n., að það væri rétt að breyta þáltill. frá því, sem hún er frá hendi flm., og taka upp í hana möguleika til þess, að fiskimálasjóður geti styrkt veiðiferðir einstakra botnvörpuskipa til þeirra miða, sem rannsóknarn. teldi líklegt, að hægt væri að hagnýta sér. Ég geri ekki ráð fyrir, að það orki tvímælis, að það sé rétt og einmitt í beinu áframhaldi af því, sem till. gerir ráð fyrir sem aðalatriði, en það er að leita að þessum fiskimiðum, og þegar þau hafa verið fundin, þá verða einstakir botnvörpungar, sem vildu leggja í það að kanna betur þessi fiskimið, styrktir til þess einmitt af fiskimálasjóði. Ennfremur er svo ákveðið í þessum l., að styrkveiting úr fiskimálasjóði fari fram gegnum fiskimálan., og því töldum við sjálfsagt, að hún fylgdist með þessu frá upphafi. Við í meiri hl. sáum ekki ástæðu til að breyta fyrirsögn till., en það hefir minni hl. talið rétt. Ég sé ekki, að það skipti neinu verulegu máli. Mér virðist fyrirsögn till. alveg taka til þess verkefnis, sem henni er ætlað, því að rannsókn fiskimiða getur vitanlega ekki talizt fullnægjandi fyrr en gerðar hafa verið tilraunir með veiðar á þessum stöðum af skipum, sem útbúin eru sérstaklega til þess. — Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þessa till.; meiri hl. n. er sem sagt samþ. þeim tilgangi, sem hún felur í sér.