09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3024)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Héðinn Valdimarsson:

Ég sé enga ástæðu til að deila við hv. 6. þm. Reykv. um það, hvað sé starfssvið fiskimálan. Þar um kveða lögin skýrt á, m. a. að umsjón og yfirstjórn fiskimálasjóðs skuli n. hafa ásamt atvmrh., og þess vegna eðlilegt, að það sé tekið fram í þáltill.

Hv. 6. þm. Reykv. leggur áherzlu á, að um það sé meiningamunur, hvort leita skuli aðstoðar fiskifræðinga eða ekki, milli hans og meiri hl. fjvn. Um þetta atriði hefir verið skýrt tekið fram af frsm. meiri hl., og hefi ég þar engu við að bæta, að þeir fiskifræðingar, sem við eigum, eru starfsmenn ríkisins, og má geta þess, að einn sá yngsti og efnilegasti er nú launaður að mestu leyti af fiskimálanefnd, þó að hann starfi hjá Fiskifélaginu. En til þess að taka allan vafa af um, að við viljum ekki og ætlum ekki að ganga framhjá fiskifræðingunum, ætla ég að bera fram skrifl. brtt. um, að hvorirtveggja aðiljar, fiskifræðingur og fiskimálanefnd, verði hafðir með í ráðum. Má það vera meiri vonzkan í hv. sjálfstfl.mönnum, ef þeir nú hætta á að draga málið á langinn og með því fá það sama sem fellt, heldur en fá till. samþ. í samræmi við það, sem lögin heimta. Það er eins og hv. 6. þm. Reykv. úthverfist í hvert skipti er hann heyrir nefnda fiskimálan. — alveg eins og naut, sem sér rauða dulu. Ég geri ráð fyrir, að hann vildi, að í staðinn fyrir fiskimálan. kæmi, að forstjórar S. Í. F. ættu að sjá um framkvæmdina, því að hann mundi jafnvel vilja fela þeim þingstörfin. En hvað sem um það er, þá býst ég við, að allir geti fellt sig við þessa brtt., ef þeir á annað borð vilja vinna að þessum framkvæmdum.