09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3025)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það er í ákaflega miklu samræmi við það, sem við stjórnarandstæðingar höfum átt að búa við á þessu þingi, þegar hv. 2. þm. Reykv. kemur með sinn drottnunar-, kúgunar- og einræðisanda, sem hefir gengið í gegnum allt starf þingsins eins og rauður þráður hjá stjórnarflokkunum, og fer nú að ógna okkur með því, að þessi þáltill. skuli verða felld, ef við ekki sættum okkur við það orðulag, sem honum líkar. Hann er þá ekki að horfa í, þó að þetta góða mál verði fellt, og þar með verði komið í veg fyrir þessar rannsóknir, bara ef orðalagið er ekki eins og honum þóknast. Þetta er ákaflega góð lýsing á þeim drottnunar-, einræðis- og kúgunaranda, sem fram kemur hér á Alþingi og í meðferð allra mála í stjórn landsins.

Ég vil benda á, þegar verið er að tala um fiskimálanefnd og fiskimálasjóð í sambandi við þessa till., að það er hvergi sagt, að fé til þessara rannsókna skuli verja úr fiskimálasjóði, því að í báðum till. er það tekið fram, að fé hans skuli því aðeins notað, að ríkissjóði sé um megn að bera kostnaðinn. Þessi átylla, sem þarna er fundin til að þröngva fiskimálanefnd inn í þetta, er því ekki málefnisleg, heldur ræður þarna um ofmetnaður um að trana henni fram í tíma og ótíma. Nú er ekki heldur eins og fiskimálan. búi yfir neinni sérþekkingu; hvorki hefir hún fiskifræðingum né reyndum skipstjórum á að skipa, — ekki er því til að dreifa. Þetta er því algerlega ótímabært atriði og á ekkert erindi í þessa þáltill.

Ef ríkissjóður reyndist nú ómegnugur þess, að bera þennan kostnað, svo að verja yrði einhverju fé úr fiskimálasjóði, þá sé ég ekki, að nein stórhætta væri á ferðum um það atriði, því að atvmrh. ræður yfir fé sjóðsins og getur veitt úr honum, svo að þess vegna er óþarft að geta um fiskimálan. í till. Það má segja, að þessir menn líta ekki stórt á atvmrh., ef hann fær ekki fé úr þessum sjóði, sem hann ræður yfir samkv. l., nema hann knékrjúpi fiskimálanefnd. Þetta er því argasta vantraustsyfirlýsing á atvmrh., og er verið á þennan hátt að upphefja fiskimálan. á kostnað ráðherrans. Ég vík því ekki hársbreidd frá því, að það er hreinasta fjarstæða, og er undrunarvert — eins og hv. 6. þm. Reykv. tók réttilega fram —, að það skuli eiga að strika fiskifræðingana út, en setja fiskimálan. inn í staðinn. Það á því ekki einungis að lítilsvirða og smána hæstv. atvmrh., heldur á líka að ganga framhjá fiskifræðingunum, og er þetta algerlegu ósæmileg framkoma, þegar líka það er ekki stærri aðili né sterkara „autoritet“ en fiskimálanefnd, sem er hinsvegar.

Ég held, að það sé rétt að sigla framhjá þessu blindskeri — fiskimálanefndinni — og forðast þannig áföll af þeim sökum. Þetta mál er meira virði en svo, að því megi sigla í strand á því skeri, sem flest nauðsynjamál þessa atvinnuvegar hafa strandað á, því þar er að engu haft, hvort málin eru nauðsynleg og þjóðnytjamál eða ekki.