09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3028)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Héðinn Valdimarsson:

Ég þarf ekki miklu að svara þessu eldgosi hv. þm. Vestm. Hann virðist haldinn sama tryllingi og hv. 6. þm. Reykv., þegar minnzt er á fiskimálanefnd, enda er þessi hv. þm. hvorki foringi margra útvegsmanna né almennings í þessu efni. Hann er einn þeirra manna, sem heldur, að hann einn viti allt, geti allt og vilji allt, sem þarf til þess að leiða þessi mál til lykta. En það eru nú samt margir, sem sjá það ásamt mér, að honum og þeim öðrum, er hann treystir bezt, er ekki treystandi til neins, og að hafa trúað honum fyrir þessum málum, er til tjóns.

Ég vil aðeins benda á það, að þessi framkoma hv. sjálfstæðismanna er ekkert einsdæmi. Yfirleitt haga þeir sér svona, þegar samþ. eru lög á annan hátt en þeir vilja. Þá reyna þeir að neita, að lögin séu til, eða þá brjóta þau eftir getu. Tökum t. d. mjólkurlögin; allir vita, hvernig framkoma þeirra var í því máli. Lögin voru öðruvísi en þeir vildu, og þá var gerð tilraun til að brjóta þau. Þeir haga sér eins og þeir séu blindir menn; þeir halda, að ennþá séu þeir í meiri hluta og geti allt, sem þeim þóknast; en það er bara ekki svo, og þeir verða að gera sér það að góðu að beygja sig undir lög þau, sem gilda. rétt eins og aðrir menn.

Hv. þm. veit vel, að með till. er ekki átt við, að fiskimálanefnd eigi að stýra Þór eða öðrum skipum, sem fara í þessar rannsóknir, og ekki muni hún heldur annast starf fiskifræðinganna. Ég efast heldur ekkert um, að þótt þeim mönnum, sem þessi hv. þm. hefir bezt álit á, sem er sjálfur hann og svo forstjórar S. Í. F., yrði falin framkvæmd þessa atriðis, þá mundu þeir ekki sjálfir stýra togurunum né stjórna fiskirannsóknunum.

Þá var hann eitthvað að minnast á mig sem olíukaupmann, — ég veit ekki, hvort það var af því, að hann er umboðsmaður minn í Vestmannaeyjum eða ekki, því ég sé ekki, hvað það kemur þessu máli við.