09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (3030)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Viðvíkjandi brtt. þeirri, sem fram hefir verið borin, vil ég segja það, að ég fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, að hún verði samþ., og ég sé ekki, að meiri hl. n. geti haft það. Ég vil skjóta því til hv. þm. Borgf., sem hafði ásamt mér mest með að gera samningu þessarar till. í n. eða þeirra uppkasta, sem gerð voru, að svo var gengið út frá því sem gefnum hlut, að fiskifræðingarnir yrðu hafðir með, að í uppköstunum, sem við sömdum saman, datt okkur ekki í hug að nefna þá, og var það sízt af því, að við álitum þá ónauðsynlega. Ég vil ekki lengja þær heimskulegu umr., sem orðið hafa um fiskimálanefnd, því það eru allt endurtekningar á því, sem áður er búið að segja hér í þinginu; aðeins er sumt nú með stærri og hrottalegri orðum. Finnst mér ástæðulaust að eyða síðustu stundum þingsins í slíkt karp. Það eina rétta er, að fiskimálan. hafi íhlutun um þessi atriði, sem felast í þáltill., þar sem fé á að verja til þessara rannsókna úr þeim sjóði, er hún hefir til umráða. Þó að svo megi líta á, sem ríkisstj. hafi heimild til að láta Þór ganga og leita m. a. að fiskimiðum, þá er vitað, að sú leit kemur ekki að fullu gagni, heldur verður jafnframt að gera ráð fyrir, að öðrum togurum verði jafnvel veittur styrkur til slíkra rannsókna eða leitar að fiskimiðum, og það á samkv. l. að veita slíka styrki úr fiskimálasjóði, og það er óheimilt að veita hann, nema eftir till. fiskimálanefndar.

Öllum köpuryrðum í garð fiskimálan. og hv. 2. þm. Reykv. get ég leitt hjá mér að svara; það hefir þegar verið gert. Við vitum, hver er ástæðan fyrir því, að þessir hv. þm. vilja ekki, að fiskimálan. sé nefnd í þessari þáltill.; hún er það rótgróna hatur, sem Sjálfstfl. hefir á nefndinni. Enda gert ráð fyrir því í báðum till., bæði meiri hl. og minni hl., að nota fé fiskimálasjóðs, og hefi ég bent á, hvað af því hlýtur að leiða.