23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að af 7. gr. hafa í brtt. fallið niður 2 línur, sem áttu að standa þar. Þetta verður leiðrétt fyrir 3. umr., og eins prentvillan í sömu brtt.

Viðvíkjandi brtt. hv. 5. landsk. er það að segja, að ef þetta skipulag sparar peninga, er full ástæða til að láta það einnig ná til unglingaskólanna. Munu nú vera ca. 1000 unglingar í unglinga- og gagnfræðaskólum hér á landi. Í menntaskólunum eru um 400. Er því þarna mikill fjöldi unglinga, sem hagsmuna hefir að gæta.

Um 1. brtt. hv. 5. landsk. á þskj. 201 verð ég að segja, að ég er þar á gagnstæðri skoðun. Ég sé ekki ástæðu til, að prestastefnan sé látin kjósa mann í ritstjórnina. Eins og hv. þm. veit, hefir verið gerð glögg verkaskipting milli skóla og kirkju. Þetta er í samræmi við alheimshreyfingu, sem fer einmitt í þessa átt. Í þessu liggur engin niðurlæging, hvorki fyrir kirkjuna né skólana. Er með því aðeins viðurkennt, að hvorum aðiljanum beri að hafa með höndum sína fræðslu. Sú trúarlega fræðsla, er prestarnir veita, er oftast gefin utan skóla. Ég fer ekki út í það hér hvort þetta er betra eða verra, en svona er það. Hitt er annað mál, hvort prestar ættu að kenna fleira, eins og sumir álíta. Það getur vel verið rétt. En svona er þessu nú háttað hjá okkur. Það eru ekki margir prestar hér, sem gefa sér verulegan tíma til að fást við unglingafræðslu. Ég veit t. d. aðeins um einn. Getur verið, að prestum og löggjafarvaldinu finnist það sama í þessu efni af sömu ástæðum. En mér finnst ekki geta komið til mála, að prestar séu að blanda sér í þetta. Það væri að sínu leyti eins og ef barnakennarar færu að skipta sér af því, hvaða bækur prestar notuðu til að búa börn undir fermingu.