31.03.1936
Sameinað þing: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3043)

87. mál, landhelgisgæzla

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. hefir tekið að sér að flytja þessa þáltill. eftir tilmælum ríkisstj. Einn nm. (JJós) var fjarverandi, þegar sú ákvörðun var tekin í n.

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessari till. Þegar rætt er um aukningu landhelgisgæzlunnar, þá eru allir venjulega sammála. Það vill nú svo vel til, að verið er að breyta um stefnu í því efni og fækka stórum varðskipum, en fjölga smærri skipum, sem ætlazt er til, að verði meira staðbundin við gæzluna. Þessi stefna, sem stj. hefir tekið upp, virðist eiga óskiptu fylgi að fagna, ekki einungis á Alþingi, heldur á meðal sjómanna og útgerðarmanna um land allt.

Í þessari till. leitar ríkisstj. heimildar frá þinginu til þess að nota andvirði Óðins til að byggja nokkra hraðskreiða vélbáta til landhelgisgæzlu og björgunarstarfs. Nú vil ég taka það fram, að undir öðrum lið á dagskránni í dag, um björgunarskip, er átt við björgunarskútur, sem starfa eingöngu að björgun smábáta. En eins og kunnugt er, þá hefir Slysavarnafélag Íslands safnað miklu fé til björgunarmála í landinu, og sérstaklega til þess að koma upp fullkomnum björgunarskipum, sem það telur, að þurfi að vera 2–3 fyrir Faxaflóa, og auk þess eitt í hverjum landsfjórðungi. Tilgangurinn virðist vera sá, að þau eigi að líta eftir og veita aðstoð smábátum, sem sækja sjó við strendur landsins. Slík skip hafa gert mikið gagn við að bjarga mannslífum á smábátum, en þau hafa ekki nægilegt vélaafl til þess að bjarga skipum úr sjávarháska. Nú fer óðum fram breyting á fiskiflotanum; smábátum hefir fækkað, en í staðinn hafa komið stór og vel útbúin vélskip. Má því gera ráð fyrir því, vegna þessarar þróunar, að björgunarskúturnar verði fremur þýðingarlitlar fyrir sjómenn hér við strendur landsins. Ennfremur má gera ráð fyrir, að ef landhelgisgæzlunni verður komið í það horf, sem til er ætlazt í þessari till., þá muni varðbátarnir, sem gæta landhelginnar, geta annazt það eftirlit með bátum, sem björgunarskútunum hefir verið ætlað, og geta þeir þannig yfirtekið það hlutverk, sem Slysavarnafél. hefir ætlað björgunarskútunum. Hinsvegar hefir Slysavarnafél. nægilegt verkefni við að koma upp björgunartækjum og bjarga frá landi þeim, sem komast í sjávarháska við strandlengjuna; það starfsvið liggur opið fyrir félaginu, þó að þessi till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir frá ríkisstj.

Ég get vitanlega ekki sagt neitt með vissu um það, hvernig Slysavarnafél. tekur þessu, en þykir líklegt, að það geti fallizt á það. Þó að illa hafi verið tekið undir þetta af forráðamönnum þess hér við Faxaflóa, þá hefir því verið tekið mjög vel í öðrum landshlutum, ef hraðskreiðir vélbátar yrðu fengnir til þess að hafa þar eftirlit með fiskibátum og veiðarfærum þeirra.

Áðan var verið að afgr. til n. fyrsta málið á dagskránni, till. til þál. um að skora á stj. að láta smíða vélbát, sem aðeins yrði látinn gæta landhelginnar við Faxaflóa og Snæfellsnes. En þar sem Óðni var ætlað að verja allar strendur landsins, að svo miklu leyti sem til varð náð, þá er ekki sanngjarnt, að andvirði hans sé fyrst og fremst varið til þess að verja landhelgina fyrir einum landshluta; það verður því að koma landhelgisvörnunum í það horf, að þær séu ekki eingöngu fyrir Faxaflóa, heldur fyrir allt landið.

Meðan landið átti Óðin, Ægi og Þór til strandvarna, var rekstur þessara skipa svo dýr, að það var talið óhjákvæmilegt að láta tvö skipin liggja í einu í höfn, en halda aðeins einu þeirra úti. Og forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefir upplýst, að rekstur skipanna undanfarandi ár svari til þess, að einu þeirra hafi stöðugt verið haldið úti. Hann hefir ennfremur upplýst, að rekstur Óðins hafi kostað 320 þús. kr. yfir árið, en að rekstur vel útbúinna og vopnaðra vélbáta kosti aðeins 60–70 þús. kr. á ári fyrir hvern þeirra. Af þessu er það ljóst, að það er hægt að láta 4–5 vélbáta gæta landhelginnar allt árið fyrir sömu upphæð og það kostaði að gera Óðin út árlega. Og þó þeir standi verr að vígi með að ná skipum heldur en Óðinn, þá er aðstaða þeirra að öðru leyti miklu betri til að verja landbelgina, þar sem þeir geta farið yfir margfalt stærra svæði.

Það má gera ráð fyrir, að menn séu yfirleitt sammála um að breyta landhelgisgæzlunni í þetta horf, sem stj. leggur til. Og þar sem í þessari till. er leitað víðtækari helmildar, sem á að koma öllum landsbúum að notum, þá vænti ég, að hún fái samþykki þingsins. — Óska ég svo, að henni verði, að lokinni þessari umr., vísað til síðari umr. og fjvn. — Þar sem þessi till. er svo víðtæk,, að hún gildir fyrir alla landhelgina, að Faxaflóa meðtöldum, þá vona ég, að henni verði hraðað, þó að hin verði söltuð í nefnd, þar sem hún nær svo miklu skemmra. (PO: Ætli hv. þm. Ísaf. verði ekki bráðum lagður í salt?). Ég efast ekki um, að hv. þm. Borgf. verði fús að leggja til saltið. (PO: Ekki held ég, að ég fari að kosta til þess).