09.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3055)

131. mál, þjóðleikhúsið

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég er alveg hissa á því, að hv. 2. þm. Reykv., sem er fæddur hér í bænum og ætti því að þykja vænt um þróun bæjarins, skuli taka þessu máli með svo mikilli stífni. En ég geri ráð fyrir, að það lagist.

Það er rétt, að við flm. þáltill. höfum ekki haft neina aðstöðu til að athuga kostnaðarhlið þessa máls. Það á ríkisstj. að gera; hún getur haft sérstökum mönnum á að skipa til þess, en ekki einstakir þingmenn, og hún á fyrst og fremst að nota til þess þá sérfræðinga, sem eru í þjónustu ríkisins, og leggja niðurstöðuna af rannsóknum þeirra fyrir næsta þing. Þá verður vitanlega tekin fullnaðarákvörðun um málið. Ef niðurstaða slíkra rannsókna verður á þá leið, sem hv. 2. þm. Reykv. heldur, þá mun sennilega þykja ískyggilegt að ráðast í þetta. En ég er á annari skoðun. Húsin á þessum stað eru flest gamlir timburkofar og lóðirnar ekki verðmiklar. Það getur vel komið til mála, þegar þetta er athugað nánar, að það verði talið rétt að gera þetta, en þó ekki álitið hyggilegt að kaupa húsin strax, heldur sæta tilboðum jafnóðum og húsin fara að ganga úr sér, og sjá um, að þau verði ekki endurreist á þessum lóðum, — þannig má ná markinu á lengri tíma. Hin leiðin er sú, að taka þetta með krafti og hefja strax framkvæmdir. En þessi þjóðleikhúsbygging stendur væntanlega nokkur hundruð ár, svo að það, sem gert verður í þessu efni, gildir fyrir framtíðina. Ég hefi trú á þessu máli og álít sjálfsagt, að það sé athugað, en ef það þykir ekki fært sökum kostnaðar, þá er hægt að hverfa frá því um stundarsakir. Leikhúsið var byggt á þessum stað eftir tillögum forráðamanna Reykjavíkurbæjar og með samþykki bæjarstj., og ber hún því ábyrgð á því. Enda er því meiri ástæða til þess fyrir bæjarstj. að bæta úr þeim göllum, sem staðnum fylgja. — En leikhúsmálið liggur hér ekki fyrir til umr. Ég vænti þess, að þáltill. verði samþ. þrátt fyrir andmæli hv. 2. þm. Reykv.