19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Forseti (JBald):

Út af því, sem hv. þm. V.Sk. hefir borið hér fram viðvíkjandi flutningi frétta frá Alþ., vil ég geta þess, sem reyndar margir hv. þm. vita nú, að það er með öllu ómögulegt, að skrifstofa Alþ. geti annazt það að taka saman þingfréttir til flutnings í útvarpinu. Það er mönnum vitanlegt, að starfsfólk er ekki margt í skrifstofunni, og er það því jafnan önnum kafið um þingtímann við að sinna þeim málum, sem fyrir Alþ. liggja. Er þess vegna ekki unnt að bæta við það störfum. Ég sé ekki heldur, að nein leið sé að koma fleiri starfsmönnum að í því húsrúmi, sem skrifstofan hefir yfir að ráða. Aftur á móti hefir útvarpið nægum starfskröftum yfir að ráða til þessara hluta, eins og sézt hefir á umliðnum tíma, þar sem það hefir yfirleitt annazt þennan fréttaflutning, þó að til þess hafi stundum verið fenginn maður af skrifstofunni. Skrifstofustjóri annaðist flutning þessara frétta í útvarpinu um skeið, en gafst alveg upp á því, af því að hann hafði engan tíma til þess. Og Lárus H. Blöndal, sem nú er skrifstofumaður hjá Alþ. og einnig hefir um skeið flutt fréttir frá Alþ. í útvarpinu og sömuleiðis leyst það vel af hendi, mun hafa í skrifstofunni ærið að starfa, svo að við það er ekki bætandi.

Þá var hv. þm. V.-Sk. að tala um þessa miklu ábyrgð, sem útvarpið kvartaði svo mjög undan að taka á sig viðvíkjandi þessum fréttaflutningi, þ. e. að segja nokkurnveginn hlutlaust frá. En hliðstæða ábyrgð tekur þó útvarpið á sig hvern einasta dag, t. d. um flutning útlendra frétta. Sömuleiðis þarf hlutlaust að skýra frá ýmsum stjórnmálafundum, svo sem þingmálafundum í héruðum, sem útvarpið flytur mjög oft fregnir af. Er þar því einnig um hliðstæða ábyrgð að ræða og við flutning þingfrétta. Útvarpið er því stöðugt að taka á sig þessa ábyrgð, sem það í þessu efni kvartar undan. Sé ég því ekki, hvers vegna flutningur frétta frá Alþ. þarf að valda stjórn útvarpsins áhyggju frekar en annar hliðstæður fréttaflutningur að því er ábyrgð útvarpsins við kemur. Það, sem komið hefir þessu máli inn á hæstv. Alþ. til umr., mun vera sú óánægja, sem átt hefir sér stað meðal útvarpshlustenda út af flutningi frétta frá Alþ. síðast. Sá maður, sem flutti þingfréttir í útvarpinu þá, þykir ógreiður í máli og sýnilega ekki inni í þingmálum. En áður hefir útvarpið ráðið menn til þessa starfa, sem sagt hafa vel frá.