19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3087)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Gísli Sveinsson:

Ég tel, að hæstv. forseti hafi ekki fært fram næg rök til þess að réttlæta þá afstöðu, sem hann og hinir hæstv. forsetarnir hafa tekið í þessu máli. Það er sem sé allt öðru máli að gegna um flutning frétta frá hæstv. Alþ. en frá hverjum óvöldum fundi, sem haldinn er hér eða þar úti í héruðum landsins, og þó að þar sé um landsmálafundi að ræða. Útvarpið hefir ekki heldur neinn mann eða menn til þess að safna fréttum um slíka fundi úti um land, heldur flytur það fréttir af þeim eftir skýrslum, sem gefnar eru út og staðfestar af fundunum sjálfum. Þannig væri og hugsanlegt, að enda þótt útvarpið léti einn af sínum mönnum flytja fréttirnar frá Alþ., þá byggi skrifstofa Alþ. þær í bendurnar á honum.

Þó að hæstv. forsetum finnist það friðsamlegast bæði fyrir sig og starfsmenn í skrifstofu hæstv. Alþ. að láta ekki neina starfsmenn við Alþ. skipta sér af þessum fréttaflutningi í útvarpinu, þá er þetta hinsvegar mál, sem almenningur í landinu hefir áhuga fyrir, að flutningur frétta þessara í útvarpinu sé þannig, að fréttirnar séu ýtarlegar og greinilega fluttar af þekkingu og fullu hlutleysi.

Það er ekki heldur rétt hjá hæstv. forseta, að þótt þröngt sé hér í húsinu, þá sé þó ekki rúm fyrir einn mann til þess að taka saman útvarpsfréttir af störfum Alþ. Hann gæti meira að segja verið þingskrifari og fengið þingskrifarakaup. Gæti hann verið í deildunum á meðan á fundum stæði og skrifað upp. Þeir menn, sem hafa flutt fregnir af Alþ. í útvarpinu, hafa reyndar setið inni á hinni þröngu skrifstofu Alþ. og verið við þetta starf sitt, að safna fréttunum, hér og þar annarsstaðar í þessu (að dómi forseta) þrönga húsi. Hér eftir ætti slíkur fréttamaður ekki að þurfa að taka tiltakanlega meira rúm í húsinu heldur en hingað til, enda þótt hann ekki starfaði sem eingöngu ráðinn til þess starfa af stjórn útvarpsins.

Ósk mín er, að bót verði ráðin á þessu máli á sem heppilegastan hátt, og þá þannig, að Alþ. hafi með samningu þessara frétta frá því að gera gegnum skrifstofu þess eða skrifara og ráði þar með um flutning frétta frá því í útvarpi.