03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvernig gengur undirbúningur að tilhögun á flutningi þingfrétta í útvarpið. Eins og hæstv. forseti veit, var þessu máli hreyft af mér með samþykki flokks míns á fundi í Sþ. fyrir nokkru, þar sem því var haldið fram, sem alkunnugt er, að fréttaflutningnum frá Alþingi væri svo ábótavant, að ekki væri viðunandi til lengdar, og yrði því að gera þar á nokkuð ákveðnar endurbætur, sem yrðu að vera á vegum forseta þingsins. Hæstv. forseti Sþ. tók þessu máli vel, og eftir að hann hafði heyrt framflutt rök lofaði hann, að málið yrði tekið upp til nýrrar athugunar. Það mun og hafa verið gert, en síðan hafa þm. ekki heyrt neitt sérlegt af þessum undirbúningi, en ég vænti, að hann sé í góðu gengi og senn lokið. Ég tel, að það sé nauðsyn að komast frá þessu máli á heppilegan hátt, svo þm. telji, að vel sé, og þess vegna er það, að ég leyfi mér að ánýja þessa málaleitun við hæstv. forseta Nd.