19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Gísli Guðmundsson:

Það má segja, að þáltill., sem hér liggur fyrir, sé ekki neitt stórmál í sjálfu sér, en ég vildi fá tækifæri til að hafa um hana nokkur orð áður en umr. er lokið. Ég varð þess var fyrir nokkru síðan, að það höfðu átt sér stað nokkrir samningar milli útvarpsstjóra og forseta Alþ. um flutning þingfrétta í útvarpið. Og það hafði verið nokkur ágreiningur um þetta milli útvarpsstjóra og forsetanna hinsvegar um það, hver ætti að annast flutning fréttanna, þ. e. a. s., hver ætti að bera ábyrgð á flutningi þeirra, hvort það ætti að vera útvarpið eða Alþ., eða forsetar þess, sem ættu að bera ábyrgðina, og þá fyrst og fremst á fréttavalinu. Það hefir verið svo undanfarið, eins og kunnugt er, þangað til í vetur, og er reyndar ennþá, að útvarpið hefir að nokkru leyti annazt flutning þessara frétta og aflað sér efnis í þær eins og annara frétta, sem það flytur. En hinsvegar vildi útvarpsstjórinn koma þessu af sér yfir á Alþingi. Nú er mér ekki verulega kunnugt um, að það hafi verið fundið að fréttaflutningi útvarpsins svo að neinu nemi. Ég man ekki til þess, að það hafi komið fram veruleg óánægja með það, hvernig þeir starfsmenn, sem útvarpið hefir haft, hafi valið þetta efni. Það hefir komið fram, og síðast á þessum fundi hefir því verið lýst yfir af ýmsum hv. þm., sem talað hafa, að þeir væru óánægðir með fréttaflutninginn eins og hann sé nú. Það er rétt, að fréttaflutningurinn er öðruvísi heldur en hann hefir verið undanfarið að því leyti, að fréttirnar eru miklu styttri. Þetta skilst mér stafa af ákvörðun útvarpsráðs, eftir að ekki náðist samkomulag við forseta Alþ. um, að fréttirnar skyldu vera styttri en áður. Þingfréttir voru áður fluttar þannig, að það var greint frá efni frv., lesinn útdráttur úr greinargerðum og jafnvel lesnar heilar greinargerðir. Ennfremur voru svo lesin nál. eða útdráttur úr þeim. Sú breyt., sem nú er á þessu orðin, er sú, að nú er aðeins greint frá efni frv. og úrslitum mála, en ekki lesnar grg. eða nál. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að að því leyti, sem ég hlustaði á þingfréttir, þá virtust mér þessir útdrættir vera vel fram fluttir og takast yfirleitt vel. Það var dregið fram, sem er aðalatriði frv., og það er aðalatriðið, að það sé gert.

Ég skal játa það hreinlega, að ég, er í talsverðum vafa um það, hvort réttara sé, að útvarpið og stjórn þess beri ábyrgð á fréttunum eða forsetar Alþ. Ég er í efa um, hvernig það mundi ganga að fá samkomulag á Alþ. um, hvernig vali fréttanna skuli hagað. Það getur verið, að það verði líka erfitt að fá samkomulag um þetta innan útvarpsstjórnarinuar, en eigi er hún þó jafnsundurleit í skoðunum og sjálft Alþ. með sínum pólitísku flokkum. En mér finnst það hinsvegar skiljanlegt frá sjónarmiði útvarpsstjórnar, að hún vilji gjarnan losna við þetta og koma ábyrgðinni yfir á Alþ. En mér virðist þáltill. hv. þm. V.-Sk. ekkert taka fram um það, sem er aðalatriði þessa máls. Það er ekkert aðalatriði, hver flytur fréttirnar á þessum og þessum tíma, heldur að það séu til einhverjar reglur um, hvernig fréttirnar eru valdar. Um þetta er ekkert í þáltill. hv. þm. V.-Sk. Fari nú svo, að Alþ. vilji fallast á og ákveða, að Alþingi taki í sínar hendur flutning fréttanna, þá finnst mér sjálfsagt, að forsetunum verði um leið falið að setja reglur um val fréttanna. Það er aldrei hægt að tryggja það, að þingfréttir verði óhlutdrægt valdar, nema einhverjar reglur séu um það settar áður en hvert tilfelli kemur fyrir, sem ágreiningi getur valdið. Ég mun þess vegna leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, og mun ég koma að því lítilsháttar síðar.

Það hefir verið blandað inn í þessar umr. ýmsum málum, sem ekki snerta beint þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, og er bæði viðkomandi útvarpinu og ýmsu við það og eins viðvíkjandi öðrum málum. Það var sérstaklega hv. 1. þm. Reykv., sem var að hafa hér í frammi árás á ríkisútvarpið og sömuleiðis einstaka menn, sem við það hafa starfað. Ég sé nú ekki, að það séu nein sérstök meðmæli út af fyrir sig með þessari till. sem hér liggur fyrir. Það var ýmislegt í þessum 2 ræðum hv. l. þm. Reykv., sem ég varð satt að segja talsvert undrandi yfir og vildi fyrir mitt leyti mótmæla til viðbótar við það, sem áður hefir verið rækilega gert hér af hv. þm. S.-Þ. Það vakti undrun mína, að hv. 1. þm. Reykv. virtist álíta, að launagreiðslur við ríkisútvarpið væru óvenjulega háar samanborið við aðrar ríkisstofnanir, einkanlega laun útvarpsstjórans, að þau væru hærri en annara sambærilegra manna í þjónustu ríkisins. Ég þóttist strax fullviss um, að þetta væri rangt, en til frekari fullvissu fletti ég upp í launaskrá fjvn. síðan í fyrra, þar sem er skrá yfir laun allra starfsmanna við opinberar stofnanir. Og ég sé við athugun, að því fer svo fjarri, að það sé hinn minnsti fótur fyrir því, að útvarpsstjórinn sé hærra launaður en aðrir starfsmenn, heldur er hann þvert á móti lægst launaði forstjórinn við ríkisstofnanirnar, eftir þessari skrá. Þegar svona staðhæfingar koma fram á Alþ., má þeim ekki vera ómótmælt.

Þá kom hv. þm. að gömlu máli, sem hér var rætt fyrir nokkrum árum, um reikninga ríkisútvarpsins. Það voru í blöðum hv. 1. þm. Reykv. allmiklar ádeilur á útvarpsstjóra fyrir reikninga, sem hann hafði sent fyrir eitt ár. Og það, sem hv. þm. vildi sérstaklega minna menn á, var það, að þeir reikningar, sem útvarpsstjórinn hefði gert fyrir bílakostnaði, hefðu verið óeðlilega háir, og að það hefði verið úrskurðað í stjórnarráðinu, að þeir skyldu ekki greiddir að fullu. Það hefir af vissum mönnum verið gert mikið veður út af þessu máli, og það raunverulega ranglega. Úr því að það hefir verið rifjað hér upp, þá vil ég nota tækifærið til að benda á þá staðreynd í þessu reikningsmáli, að útvarpsstjórinn, sem þarna átti hlut að máli, reyndi ekki að fela neitt í sinni starfrækslu. Það eina, sem gerðist, var það, að hann sendi reikninga stofnunarinnar uppi stjórnarráð eins og siður er, til endurskoðunar. En staðreyndin er sem sagt þessi, að útvarpsstjórinn reyndi ekki mér vitanlega að fela neitt, en það er venja þeirra, sem ætla að stela einhverju. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að umr. eru farnar að dragast langt frá þeirri till., sem hér er til umr. Þær hafa að vísu gert það um hríð, en því hefir verið svarað á báðar hliðar, og sé ég ekki ástæðu til, að það fari lengra). Það er rétt hjá hæstv. forseta, að þetta er ekki beint um till. sjálfa, en forseti hefir verið ærið þolinmóður við aðra, og bjóst ég við, að hann mundi láta mig njóta sama réttar. Annars er ég nú alveg að vera búinn með þetta atriði og mun koma aftur að till. sjálfri. — Ég vil svo aðeins benda á það í sambandi við þetta atriði, um leið og ég vek athygli á þessum staðreyndum, sem ýmsir virðast ekki hafa gert sér ljósar í sambandi við þessa reikninga, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir gert að umtalsefni, að það er eitt alveg hliðstætt dæmi í ríkisstofnun í þessu efni, eins og t. d. það dæmi, sem hv. þm. S.-Þ. nefndi áðan, þar sem lögmaðurinn gerir reikning, sem lagt er á vald stjórnarráðsins, hvort skuli greiða eða ekki. Það er svo úrskurðað af stjórnarráðinu, að hann skuli ekki greiða af ríkisfé, heldur þeim, sem reikninginn gaf.

Ég hefi þá vikið að þeim atriðum, sem ekki koma beint við sjálfri þáltill. Mér fannst það óhjákvæmilegt, þar sem það hafði komið inn í umr. Ég skal nú koma aftur að þáltill. sjálfri, sem hér liggur fyrir, og vil þá endurtaka það, sem ég upphaflega sagði, að mér finnst það nokkurt vafamál og erfitt að taka afstöðu til þess, hvort þingfréttir eigi að vera fluttar á ábyrgð útvarpsins eða Alþingis. En hvort sem gert verður, þá virðist hitt vera aðalatriðið, hvaða reglum sé fylgt, og fyrst og fremst, að það séu til einhverjar reglur um flutning frétta og fyrirkomulag allt því viðvíkjandi. Mér finnst, að Alþ. geti alls ekki samþ. slíka ályktun sem þessa án þess að taka það með. Það getur vel svo farið t. d., að forsetar eftir áskorun þingsins réðu einhvern sérstakan mann til þessa starfa til lengri tíma, og að það kæmi svo í ljós, að hann flytti fréttirnar ekki á þann hátt, sem þm. væru ánægðir með; þá gæti hann skotið sér undir það, að honum hafi ekki í upphafi verið settar neinar reglur um það. Það er því höfuðatriðið, að slíkar reglur séu til um flutninginn. Það er náttúrlega allmargt, sem til greina getur komið, þegar fréttir eru valdar. Ég hygg, að sú aðferð við fréttaflutninginn, sem ég nefndi áðan að fyrst hefði verið viðhöfð, hafi ekki verið að öllu leyti heppileg. Það mun hafa verið farið að tíðkast, að þm. semdu nál. og greinargerðir með tilliti til þess, að þær ættu að lesast upp í útvarpið og birtast þannig kjósendunum, og var þá um að gera að hafa þau þannig úr garði gerð, að þau væru til sem mests ávinnings fyrir hlutaðeigandi þm. eða flokka. Ég býst við, að það séu ýmsir, sem muni þykja þær fréttir, sem nú eru fluttar, nokkuð stuttar, og þyki tæplega nægja, að greint sé frá efni frv. Mér finnst a. m. k., að það hefði átt að vera hættulaust fyrir útvarpið eða þann mann, sem flutti fréttirnar og bar ábyrgð á þeim, að skýra frá fundum Alþ., en það var ekki gert um tíma í vetur. Það er þó atriði, sem enginn ágreiningur er um.

Ég gat þess í upphafi ræðu minnar, að ég ætlaði að flytja skrifl. brtt. við þáltill. á þá leið, að í staðinn fyrir síðari hluta till., „og sé forsetum falið að ráða nú þegar mann til þess að gegna því starfi“, komi: sé forsetum falið að setja nú þegar reglur um val fréttanna. — Þetta finnst mér miklu stærra atriði. En það er ekki rétt að binda svo hendur forseta, að þeir verði að ráða ákveðinn mann til þess að flytja fréttirnar. Mér virðist vel geta komið til mála, að forsetar óskuðu eftir, að flokkarnir skipuðu n. til þess að velja manninn, eða að fela skrifstofu Alþ. að sjá um fréttaflutninginn, þar sem hún hefir ágætu starfsfólki á að skipa og beztu aðstöðu til þess að velja fréttirnar. Það getur þannig verið um margar leiðir að ræða, ef samþ. verður, að þingið taki að sér fréttaflutninginn. En mér finnst ekki rétt að hinda hendur forseta við einn ákveðinn mann.

Ég held, að ekki sé fleira, sem ég finn ástæðu til að segja um málið að þessu sinni, en vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. með tilmælum um, að hann beri hana undir atkv.