19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Ég skal ekki að þessu sinni, þar sem mjög er áliðið, fara frekar út í orðræður utan við efni málsins, þó það hafi verið gert á lítt viðeigandi hátt af hv. þm. S.-Þ., enda hefir hv. 1. þm. Reykv. svarað bæði honum og hv. þm. N.-Þ. Ég gaf ekki tilefni til þeirra umr., sem hér hafa orðið, en hv. þm. S.-Þ. hefir komið undir það búinn að ausa úr sér þessari vellu, sem hann er oft vanur að gera bæði á fundum og hér á Alþ., án þess tilefni sé gefið til.

Það hefir komið fram hjá hv. þm. N.-Þ., að hann er ekki ósamþykkur efni till., en vill þó ekki fallast á hana eins og hún er borin fram, vegna þess að hann vill ekki leyfa sjálfum forsetum Framsfl. að fara einum með málið, e. t. v. af þeim ástæðum, að hv. þm. er hræddur um, að þeir geri breyt. á mannvali til fréttaflutnings. Ég hefi fyrir satt, — og bið hæstv. forseta að upplýsa, ef svo er ekki —, að forsetar hafi verið búnir að ráða nýjan mann til þess að flytja fréttirnar, en svo hafi strandað á sama fugli og Framsfl. er vanur að stranda á, fugli, sem þarf að verja eggin sín, hv. þm. S.-Þ. Og svo á að bjarga gamla manninum frá algerðu þroti með brtt. hv. þm. N.-Þ., sem ekki er borin fram til neins annars en komast hjá að greiða atkv. um mína till., og skjóta sér undan, að þingið taki fréttaflutninginn í sínar hendur.

Það er sjálfsagt svo, að hv. þm. S.- Þ. er eitthvað hræddur um eggin sín. Hann veit, að það er rétt, sem ég sagði áðan, að sem fréttaþulur hefir verið settur inn harðpólitískur maður, sjálfsagt til þess að gefa honum launauppbót, og ekki ólíklega tilgetið, að honum hafi einnig verið ætlað að þjóna á þá lund, sem hv. þm. S.-Þ. væri að skapi. Þó Framsfl. hafi e. t. v. ekki ætlazt til, að þar væri sýnd hlutdrægni, trúi ég, af gamalli reynslu, hv. þm. S.-Þ. til að nota þá aðstöðu á þann veg. Það verður að teljast fyllsta ósvífni að ráða harðpólitískan mann til þess að flytja fréttir frá Alþ., þar sem 4 flokkar eiga fulltrúa. — Þá er hitt kunnugt, að öllum almenningi hefir ekki fallið framburður mannsins, sem er annað aðalatriði í allri framsögn, jafnhliða því að flytja vel og skipulega og fara með rétt mál, sem vitanlega er aðalatriði. En framsóknarmenn telja þess e. t. v. ekki þörf, að menn kynnist málunum á þann veg, en þykir nóg, að þeir lesi Tímann. Ég veit ekki betur en þessi sami þulur hafi lesið um það tilkynningu í útvarpi, að hann þætti til þess ófær. Var rödd sú frá kjósanda úti á landi, og rennur sem rök undir þá staðreynd, að menn eru mjög misjafnlega til þess hæfir að vera þulir, hvað sem öðrum hæfileikum liður. Um hitt gera menn ekki aths. nema sín á milli, þó einstaka manni, sem flytur erindi, fatist stöku sinnum tungutak. En þingfréttirnar koma öllum almenningi við og eiga því að vera fluttar á ábyrgð þingsins. Og til þess að ná því takmarki er þáltill. borin fram. Þetta féllust forsetar á, en hafi þeir hörfað frá því aftur, er það af reipdrætti innan flokkanna. En sá kritur virðist algerlega að ófyrirsynju, þar sem forsetum er í sjálfsvald sett að ráða mann til fréttaflutningsins. Till. hv. þm. N.-Þ. gengur í þá átt, að þingið taki enga ákveðna afstöðu til málsins, en aðeins geri ályktun um, að settar verði reglur um flutning þingfrétta í útvarpi. En slíkt er vitanlega algerlega óþarft. Eins og ekki sé sjálfsagt að fara eftir reglum, sem forsetar setja eftir að þeir hafa tekið málið í sínar hendur samkv. minni till.

Í öðru lagi mun till. hv. þm. N.-Þ. vera til þess fram borin að slá málinu svo á dreif, að afgreiðsla þess dragist fram undir þinglokin, og er þá náð tilgangi Framsfl. um, að ekki verði ráðinn annar maður til fréttaflutnings á þessu þingi. Fyrir þessa sök mun ég greiða atkv. móti þeirri till., þar sem hún er aðeins fram borin til þess að eyða málinu.