22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3129)

130. mál, símaleynd

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er eitt aukaatriði, sem ég þarf að gera aths. við; ég hefi gert það áður, en það hefir nú gengið aftur í ræðu, þ. e. að ég hafi gefið út fyrirskipun um, að hlustað skyldi í símann. Þetta hefir mér aldrei dottið í hug, og enda ekki heimilt, sízt þó um bæjarsímann. Ég hefi upplýst það áður, að þegar verið var að upplýsa um skeytasendingar til togaranna, þá sendi ég landssímastjóra bréf og óskaði eftir því, að hann gæfi leyfi til, að skoðuð yrðu þessi skeyti. (GÞ: Þetta er alveg hliðstætt). Ég bið hv. þdm. að leggja það vel á minni, hvernig þessi málflutningur hefir verið hjá hv. andstöðumönnum. Hér hefir verið lagt fram afrit af bréfi landssímastjóra, og hverjum sem er er heimilt að skoða afrit af bréfi mínu til hans þessu viðvíkjandi.

Ég vil halda því fram, að samkv. áliti fyrrv. landssímastj., þá hljóti mér að hafa verið heimilt skv. gildandi l. að láta framkv. þetta eftirlit. Og því hefir stöðugt verið haldið fram af hv. andstæðingum, bæði hér á Alþ. og í blöðum þeirra, að engar lagabreyt. þyrfti til að framkv. slíkt eftirlit, það væri heimilt, og hefir óspart verið vitnað í bréf fyrrv. landssímastjóra í þessu efni, en úrskurði hans vildi núv. landssímastjóri ekki hlíta. Skrifaði hann mér bréf þar að lútandi, og vildi jafnvel telja sér óheimilt að leyfa þetta, nema að undangengnum úrskurði. Ég sá enga ástæðu til að láta kveða upp úrskurð í þessu máli; það lágu fyrir fullkomnar sannanir um 2 togara, að þeir voru lögbrjótar. — Þessu tvennu má ekki undir neinum kringumstæðum blanda saman, en þetta sýnir, að núv. landssímastjóri heldur fastara á rétti símanotenda en fyrrv. landssímastjóri gerði. — Það er einkennilegt, þegar hv. 5. þm. Reykv. heldur því fram, að þetta sé algerlega hliðstætt, þegar athugað er, að um mörg ár hefir hans flokkur haldið því fram hér á Alþingi, að lög um skeytaskoðun væru algerlega óþörf, því að ríkisstj. gæti hvenær sem væri vaðið í skeytum togaranna, ef henni byði svo við að horfa.

Við förum ekki fram á annað en það, að þegar rökstuddur grunur liggi fyrir, þá megi með úrskurði skoða þessi skeyti, en þetta er gengið skemmra en andstæðingar halda fram, að sé leyfilegt eftir núgildandi lögum. Sú regla gildir vitanlega eins og um helgi heimilisins, að heimild til að rjúfa friðhelgina er ekki notuð, nema þegar liggur fyrir sterkur grunur um, að brotin séu landslög. Og það er dómsvaldið eitt, sem hefir slíka heimild til að kveða upp úrskurði, en ríkisstj. alls enga.