22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

130. mál, símaleynd

*Jakob Möller:

Það var ágætt, að hæstv. ráðh. endaði sína ræðu á því, sem hann tók fram í sinni fyrstu ræðu, vegna þess að það er sannanlegt, að sú höfuðregla, sem hann setti fram um, hvenær mætti rjúfa friðhelgi símans, hefir verið þverbrotin, og það af þessari ríkisstjórn. Þessir hæstv. tveir ráðh. hafa staðið hér sem meintir afbrotamenn fyrir rétti, og hafa sannað, að þeir séu ekki aðeins meintir, heldur upplýst til fulls, að þeir eru það. (Forsrh.: Var þá ekki heimilt að skoða skeytin? Er órétt það, sem hv. þm. hefir áður sagt?). Ég hefi alls ekki talað fyrr í þessu máli, og þess vegna ekki minnzt á nein skeyti. (Forsrh.: Hv. þm. hefir tekið fram í). Það er rétt, að ég tók fram í fyrir atvmrh., og ég ætla að koma að því síðar. Hann upplýsti, að þetta væri ekki í fyrsta skipti, sem njósnir væru látnar fram fara. Hann viðurkenndi, að það hefði verið hlustað í vetur í sambandi við bílstjóraverkfallið, og það hefir verið staðhæft, að það hafi verið gert eftir dómsútskurði. En nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh., sem var að staðhæfa, að ekki mætti og ekki væri kveðinn upp slíkur úrskurður, nema rökstuddur grunur lægi fyrir um glæpsamlegt athæfi. Ég vil spyrja hann: Hvaða grunur var það í vetur, sem gaf tilefni til hlustunar? Ég staðhæfi, að þá lá ekki fyrir grunur um neitt slíkt, og ef kveðinn hefir verið upp úrskurður, þá staðhæfi ég, að það hafi verið gert í fullu samráði við ríkisstj. og fyrir hennar forgöngu.

Hæstv. atvmrh. var að afsaka sig, en allir vita, að þetta heyrir undir hæstv. forsrh., og hann hefir engu svarað. Hæstv. forsrh. var spurður, hvort njósnirnar í vetur hefðu farið fram í bæjarsímanum. Hann kom sér undan að svara því. Enda er það augljóst, að þeir hafa ekki verið undir það búnir að svara nú. Bréf landssímastjóra er sýnilega samið í tilefni af áfengisnjósnunum, en þó er það skrifað eins og þetta hafi aldrei komið fyrir áður. Það er skrifað eins og til að skýra það, undir hvaða kringumstæðum og hvað þurfi að gera, þegar slíkar njósnir fara fram, alveg eins og hæstv. ráðh. sé það ókunnugt, en það segir sig sjálft, að úr því njósnir fóru fram í vetur, þá er honum þetta ekki ókunnugt, hæstv. atvmrh., sem er yfirmaður símamálanna. Ég vil spyrja: Hvernig stóð á því, að bréfið var ekki skrifað í vetur, í fyrsta skipti þegar njósnirnar fóru fram? Það er blátt áfram af því, að bréfið er skrifað til að villa sýn um, að slíkt hafi komið fyrir áður, en hæstv. ráðh. hefir ekki búizt við, að það bærist inn í umr. Það var spurt um, hvort síminn ætti að vera friðhelgur fyrir afbrotamenn. Nei, það á hann alls ekki að vera, heldur fyrir þá, sem saklausir hafa orðið fyrir afskiptum ríkisvaldsins, þ. e. fyrir almenning, sem keypt hefir afnotaréttinn. Símanotendur geta vænzt þess, að brotizt verði inn á þá, ráðizt inn á þá eins og innbrotsþjófa. Það er vitað, hvaðan ríkisstj. tekur fordæmið; hún tekur það frá harðstjórnar- og ofbeldislöndunum, þar sem grunur leikur á, að einhver sé á móti stjórninni, þó að ástæðulausu sé, sbr. bílstjóraverkfallið. Þær njósnir hafa ekki eingöngu verið fyrirskipaðar gegn bílstjórunum, heldur einnig gegn mörgum öðrum mönnum í bænum. Af því er ljóst, að enginn veit, hvenær kemur röðin að hans síma. Þetta er algerlega óþolandi fyrir almenning, ekki vegna þeirra, sem brjóta áfengislögin, heldur vegna þeirra, sem saklausir eru. Það er þess vegna, sem hæstv. ráðh. hafa staðið hér sem meintir afbrotamenn fyrir rétti, en eru nú orðnir uppvísir. Það þýðir ekki að reyna að afsaka sig með því, að til sé eldra fordæmi, því að það er ekki, eins og líka sést á bréfi landssímastjóra, sem segir í bréfi sínu, að þessi siður sé algert nýmæli, sem kemur fyrst upp í tíð núv. stj.; eins getur verið vafasamt, að það sé nýmæli í apríl, sem byrjað var í desember, en nýtt hefði það ekki kallazt, ef það hefði verið tekið upp í tíð Jóns heit. Magnússonar. (Forsrh.: Það var gert þá). Það er sannað, að hæstv. forsrh. hefir farið hér með órökstutt fleipur, og líklega vísvitandi ósannindi.