22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

130. mál, símaleynd

*Jakob Möller:

Ég fyrir mitt leyti kannast ekki við, að ég hafi gefið neina yfirlýsingu um það, að það sé heimilt undir nokkrum kringumstæðum að rjúfa leynd talsímans. Og ég undirstrika, að til þess að ég gæti fallizt á, að slíkt ætti að vera heimilt, yrði að liggja fyrir miklu alvarlegra mál en hér er um að ræða. Og þar sem hæstv. ráðherrar hafa hvað eftir annað verið að skjóta sér — ég vil ekki segja í sambandi við þetta áfengisnjósnamál, en í sambandi við bílaverkfallið — á bak við lögreglustjóra og reyna að koma á hann allri ábyrgð á því frumhlaupi, sem þeir hafa framið, þá skoða ég þá sem minni menn, að vilja ekki taka á sig þá ábyrð, sem allur almenningur veit nú, að hvílir á þeim og engum öðrum. Því að það er alveg vitanlegt, að sú ákvörðun að framkvæma njósnir á síma í sambandi við bifreiðaverkfallið getur ekki verið komin annarsstaðar að en frá ríkisstj. Ég vildi aðeins undirstrika þetta, svo að ekki væri um það að villast, hver skoðun manna er um það mál og hversu þýðingarlaust er fyrir ráðherrana að bera á móti þessu — til þess eins að gera sig að minni mönnum.