25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

130. mál, símaleynd

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 6. þm. Reykv. má ekki láta sér það svo til höfuðs stíga, þó að hann hafi verið skipaður í þetta símaráð, að hann haldi, að hann hafi verið gerður að einskonar eftirlitsmanni með þessari stofnun, en það virðist mér á ræðu hans, að hann álíti sig vera. Þau skjöl, sem hér er um að ræða, eru úrskurðir frá lögreglustjóranum í Rvík. Það eru skjöl lögreglunnar, og því ekkert viðkomandi símanum að öðru leyti en því, að í þeim felst fyrirskipun til símamálastjóra, sem honum ber að hlýða. Þessi skjöl eru ekkert viðkomandi rekstri stofnunarinnar, sem þessu ráði er ætlað að hafa eftirlit með. Og þó þetta mál kannske geti talizt mikilsvarðandi, þá er það þó ekki mál, sem bera á undir þetta ráð, því að það væri að áfrýja úrskurði dómara til símaráðsins, sem allir sjá, að vitanlega nær ekki nokkurri átt. Ég veit ekki heldur til, að til þess hafi verið ætlazt, að lögreglustjóri birti úrskurði sína um húsrannsóknir og annað slíkt, og enn síður, að það væri borið undir sérstaka menn, hvort ætti að beygja sig fyrir úrskurði lögreglustjóra. Þetta mál er sem sagt mál lögreglunnar, og símamálastjóri hefir ekki annað gert — eins og vera bar — en að hlýða þeim úrskurði, sem rétt og hlutaðeigandi yfirvald hafði fellt í ákveðnum tilgangi.