29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

130. mál, símaleynd

*Ólafur Thors:

Ég hefi ekki ástæðu til að vera margorður, þar sem búið er að ræða málið allmikið og því ekki að vænta nýrra upplýsinga.

Ræða sú, sem hæstv. forsrh. flutti, átti að því leyti sammerkt við aðrar ræður hans, að hún var að langmestu leyti fyrir utan efnið, sbr. Tímagrein eftir hann, sem ég las fyrir nokkrum dögum. Ég kallaði fram í ræðu hæstv. ráðh. og spurði, hvernig á því stæði, að ekki væri hægt að birta úrskurðinn, sem felldur var í bílstjóraverkfallinu. Hæstv. ráðh. var áður búinn að segja, að slíka úrskurði mætti ekki birta fyrr en víst þætti, að það truflaði ekki málið, en að þá mætti birta. þegar öruggt þætti, að það ylli engri truflun á málinu.

Hæstv. ráðh. þóttist ætla að svara, en féll svo út úr rullunni og skaut sér undan því og sagðist skyldi svara mér síðar. En ég óska að ræða málið hér. Og hvers vegna skýtur hæstv. ráðh. sér undan því að gefa skýr svör, úr því að hann hefir játað, að úrskurðinn megi birta, þegar mál sé útkljáð. Annars var allt tal hæstv. ráðh. um nauðsyn þess að hlera í síma og rétt lögreglunnar hinsvegar til þess að skoða bréf og gera húsrannsóknir alveg út í hött. Það væri nákvæmlega sama nauðsyn eftir þessum krókótta hugsanaferli hæstv. ráðh. að skoða öll bréf, því í einhverju þeirra gæti þó verið ábending um glæpsamlegt athæfi. Svona rökstuðningur hæfir dálkum Tímans og getur dugað fyrir þá, sem þangað sækja andlega næringu, en að bera hann fram hér á Alþingi er ekki til annars en athlægis. En það alógeðslegasta í málinu — og sýnir um leið þá sektartilfinningu, sem skín út úr hverju orði hæstv. ráðh., — er það, hvernig hann notar lögreglustjórann sem skjöld fyrir sig, en þó veit hver maður, að allt, sem hann hefir gert, hefir hann framkvæmt eftir beinni skipun hæstv. ráðh. Þess vegna er það lítilmennska fram úr hófi, sem lýsir sér í því, að hann skuli alltaf þurfa að bregða fyrir sig lögreglustjóranum og skríða á bak við hann, en þora ekki að gangast við sínum eigin verkum. (Forsrh.: Vill hv. þm. endurtaka þessi ummæli utan þings?). Já, fyrst hæstv. ráðh. sýnir d. þann heiður að sýna sig hér innan dyra, þá skal ég lofa honum því að endurtaka þau utan þings. Og ég skora á hæstv. ráðh. að stefna mér fyrir þau og vita, hvort hann getur fengið mig rangleg, dæmdan. Annars er gaman að bera saman þann skilning, sem hæstv. ráðh. hefir nú á almætti lögreglustjórans, við framkomu lögreglustjórans, sem skildi við lögregluna alblóðuga á vígvellinum 9. nóv.

Þáltill. sú, sem liggur hér fyrir, er borin fram af okkur sjálfstæðismönnum vegna þess, að okkur var synjað alls réttlætis, þó við hvað eftir annað höfum borið fram um það rökstudda ósk, bæði við hæstv. dómsmrh. og hæstv. atvmrh. og einnig við póst- og símamálastjóra, að fá fullkomnar upplýsingar í málinu. Við höfum því með þáltill. leitað til Alþingis sem síðasta athvarfs til þess að fá okkar skýlausa rétt.

Ég vil svo með örfáum orðum rifja upp gang málsins hér á Alþingi.

Fyrir tíu dögum var flutt hér inn á Alþingi fyrirspurn um símanjósnir, og var strax fyrsta daginn viðurkennt af málsvörum þessa hneykslis, að aldrei megi hlusta nema fyrir liggi rökstuddur grunur um, að afbrot hafi verið framið eða eigi að fremja, og aldrei nema í viss númer samkv. úrskurði lögreglustjóra í hvert sinn. Ég vil endurtaka það, að þetta afbrot, að selja áfengi eftir kl. 12 á laugardögum, þegar hæstv. ráðh. er hættur sölunni, er ekki svo stórt hneykslismál í meðvitund þjóðarinnar, að það réttlæti óvenjulegar ráðstafanir. Í öðru lagi slæ ég því föstu, að þetta hefði verið hægt að upplýsa án þess að brjóta helgi símans, þ. e. a. s. að stóru vínsalarnir hafi þrifizt undir hendi lögreglunnar, sem til þess að upplýsa það hefði ekki þurft annað en biðja einhvern af vikapiltum sínum að fylgja leynisölunum heim til sín, þegar þeir kl. 12 á laugardögum koma í áfengisverzlunina til þess að sækja birgðir, sem þeir svo selja fyrir hæstv. ráðh. og ríkissjóð fram til mánudags, að aftur er opnað. Og þetta hefði verið gert, ef ekki hefði átt að koma fram hefnd á einni stétt þjóðfélagsins. — Í þriðja lagi skal ég benda á, að hv. 8. landsk. hefir sannað undir umr. í d., að það er útilokað, að nokkur dómari þori að dæma mann fyrir áfengissölu, þó áfengi hafi verið pantað í síma. Þá er samt eftir að sanna, að maðurinn hafi verið sá sami og hann sagðist vera, og að áfenginu hafi verið komið til hans. Ég get t. d. vel búizt við, að hæstv. ráðh. panti nokkrar flöskur undir mínu nafni, og það er þess vegna engin sönnun til önnur en eigin játning.

Þannig eru nógar sannanir til fyrir því, að málið ber þannig að að því er njósnirnar áhrærir, að í fyrsta lagi er afbrotið ekki þess eðlis, að það veiti rétt til að rjúfa friðhelgi símans, í öðru lagi var hægt að sanna brotið án þess, og í þriðja lagi er ekki hægt að sanna það með slíkum símanjósnum. Ég mæli því ekki um of, þó ég segi, að það liggi á því grunur, og það sterkur grunur, að njósnirnar hafi verið gerðar í öðrum tilgangi en upp er gefinn.

Ef spurt væri, hver önnur rök styðji þunn grun, vil ég leiða athygli að því, að fyrst þegar málið var hér rætt, vissi ríkisstj., að við ætluðum að krefja hana sagna, en hún vissi ekki um nema annað málið og bjó sig því undir að leiða að því líkur, að ekki hefði verið njósnað nema í það eina skipti. Og hvert sneri þá hæstv. ríkisstj. sér? Auðvitað til þess manns, sem að réttu lagi á að vera trúnaðarmaður símanotenda og hefir gert til þess kröfu, að þannig væri á hann litið. — Í bréfi landssímastjóra með upplýsingunum um símanjósnirnar 11.–21. apríl er talað um þær sem algert nýmæli, þ. e. a. s., að það hefði verið í fyrsta skipti sem þær hefðu farið fram. Þá spurði hv. 5. þm. Reykv. um, hvort það væri víst, að ekki hefði verið njósnað í sambandi við bílstjóraverkfallið. Hæstv. forsrh. færðist undan að svara, en hæstv. atvmrh. spratt upp og bjóst til, að svara, og vil ég fullyrða, að hæstv. atvmrh. lætur ekki vel að ljúga, a. m. k. ekki óviðbúnum, enda játaði hann, að svo hefði verið gert. Og það merkilega skeði þennan dag á Alþingi, að jafnframt því, að hæstv. ráðh. les upp bréf frá símamálastjóra, þar sem sagt er, að hlustun hafi aldrei farið fram fyrr en í apríl, þá viðurkennir hæstv. ráðh. í sömu ræðu, að njósnað hafi verið um áramót. Ég býst nú við, að allir sanngjarnir menn viðurkenni, að sjálfstæðismenn hafi á öllum sviðum fulla ástæðu til að gruna hæstv. ríkisstj. og að þeir muni óhikað samsinna, að þetta sé svo hneykslanlegt athæfi, að það gefi okkur ástæðu til að telja, að það sé farið að færast nokkuð nærri því, að grunurinn snúist upp í sterkar líkur. Ef' spurt væri, hvort nokkuð fleira styddi þennan grun, þá má benda á, að símanjósnirnar fóru ekki eingöngu fram innan lögreglunnar, heldur var fenginn til þess að hlusta einn af starfsmönnum símans, og ekki einu sinni bæjarsímans, heldur var hann sóttur til landssímans. Þessi maður heitir Guðmundur Pétursson og er á allra vitorði, að hann var settur að símanum samkv. fyrirmælum Jónasar Jónssonar, og hefir leikið grunur á, að hann ynni ýms óþrifaverk við símann. Og einmitt það, að slíkur maður er sóttur, herðir enn líkurnar, svo að þær fara að nálgast sannanir. Ég leyfi mér því, þegar öll rök koma saman, þegar það er sannað, að hlustanirnar, sem nú hafa farið fram, gátu ekki upplýst þau afbrot, sem þær áttu að upplýsa, en hægt var að upplýsa öðruvísi, þegar það er augljóst, að það átti að nota helzta trúnaðarmann símanotenda til þess að hilma yfir með fjölda afbrota, og þegar þar við bætist, að sá, sem notaður er til þess að hlusta, er einmitt sá maður, sem þyngstur grunur hvílir á um að sé njósnari, þá hika ég ekki við að fullyrða, að hér sé um alvarlega og ósvífna notkun símans að ræða, og nálgast jafnvel fulla vissu. Og þegar þess er gætt, að borgararnir kaupa afnot þessa tækis af sjálfu ríkisvaldinu í þeirri fullu vissu, að það, sem þeir mæla í símann, sé innan fjögra veggja, þá er hér um svo fullkomið hneyksli að ræða og svo óviðunandi í lýðfrjálsu landi, að Alþingi verður að kynna sér öll gögn málsins.

Nú heftir verið að frumkvæði Sjálfstfl. skorað á landssímastjóra að birta þau númer, sem hér um ræðir. Ég hefi leyft mér að beina sömu áskorunum til hæstv. dómsmrh. Hv. 6. þm. Reykv., sem er í yfirstjórn símamálanna, hefir beint sömu áskorun til landssímastjóra og hæstv. atvmrh., en öllum þessum tilmælum okkar hefir verið synjað. Grunur sá, sem hér er á ferðinni, studdur af jafnsterkum líkum og ég hefi leitt rök að, getur ekki aðeins orðið þessari stofnun að fjárhagslegu falli, heldur er það alveg óþolandi tilhugsun, að að ástæðulausu sé persónufrelsi borgaranna og sá réttur, sem hverjum þegni er dýrmætastur og helgastur, svo fótum troðinn sem hér er gert. Ef hér er ekki um hreint og beint skipulagsbundnar njósnir að ræða í pólitískum tilgangi eða til þess að geta kynnt sér einkalíf manna og allt, sem þeim er helgast, þá tel ég, að stj. geri það réttast að ganga inn á þá till., sem hér liggur fyrir. Hæstv. stj. verður aldrei felld undan sök í þessu máli, losnar aldrei undan þeim sterka grun, sem hvílir á henni um skipulagsbundna njósnarstarfsemi á hendur andstæðingunum, ef hún synjar Sjálfstfl. um að fá að kynna sér málið. Hæstv. forsrh. má ekki gera sig sekan í svo sljóum hugsunarhætti. — (Forsrh.: Ég held, að þetta beri nú vott um sljóan hugsunarhátt hjá hv. þm.). Það er nú svo um hvert skeyti, að það þarf bæði góðan sendara og góðan móttakara, og ef móttakarinn er ónýtur, þá er ekki víst, að það komist rétt til skila, þó að sendarinn sé góður. Hæstv. forsrh. má ekki gera sig sekan um svo sljóan hugsunarhátt, að halda, að hann geti daufheyrzt við þessum réttmætu kröfum, þó að málin eigi að fara til æðra dóms, eins og hann segir, og á þar sennilega við vínsölumálin. Við viljum fá að vita, hvað víðtækt þetta mál er allt frá rótum. Annars fáum við aldrei að vita annað en það, sem hæstv. forsrh. þóknast að gera heyrinkunnugt. Það getur vel verið, að hann geti svalað sér á einhverjum bílstjórum fyrir að hafa selt brennivínspela — honum eða einhverjum öðrum, en þjóðin heimtar að vita, hvaða rökstuddur grunur hefir verið á hendur þeim mönnum, sem hlustað hefir verið á, fyrst og fremst í bílstjóraverkfallinu. Hún vill líka fá að vita, hvort þessar njósnir hafa verið hversdagsiðja hjá hæstv. stj.

Ég hefi nú með fáum orðum frá mínu sjónarmiði gert, kannske ekki nægileg, en þó að því leyti fullnægjandi grein fyrir mínu máli, að það er ekki hægt að véfengja rétt okkar sjálfstæðismanna til að fá þessa rannsókn, sem hér er farið fram á. Hæstv. stj. verður að gera sér það ljóst, að það er ekki heppilegt, hvorki fyrir hana né stjórnmálalífið í landinu, að þegar stærsti flokkur þjóðarinnar ber fram till. í slíku máli sem þessu, þá leyfi stj. sér að virða þá till. alveg að vettugi. Hæstv. stj. ætti að láta það verða sér nokkurn leiðarvísi, að hvar sem hún skyggnist inn í sínar eigin herbúðir, þá skín þar í þennan sama vilja, að fá rannsókn á þessum njósnum eins og við sjálfstæðismenn krefjumst hér. Leyfi ég mér þar að minna á till., sem samþ. var á sunnudaginn, þar sem mættir voru 1500–2000 manns. Þessi till. var borin fram af stj. símanotendafélagsins, en í henni er m. a. þekkt framsóknarkona og þekktur jafnaðarmaður. Þessi till. fordæmdi gersamlega það athæfi, sem fram hefir farið, og mótmælti kröftuglega, að slíkt mætti eiga sér stað.

Ég hygg, að þessi staðreynd, að samherjar hæstv. stj. hafa flutt þessa till., megi benda hæstv. stj. á, að bak við kröfuna um, að skjölin verði lögð á borðið, stendur ekki eingöngu Sjálfstfl., heldur flestir heiðarlegir og viti bornir menn í stjórnarflokkunum. Ég skora því á hæstv. stj. að verða við þessari kröfu og vil minna á, að því eru nokkur takmörk sett, hvað lengi má þreyta þolinmæði borgara landsins.