29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

130. mál, símaleynd

*Flm. (Jakob Möller):

Ég þarf ekki að segja mörg orð, því að hv. þm. G.-K. og hv. 5. þm. Rvík. hafa tekið af mér ómakið að mestu leyti að svara því, sem sagt hefir verið af hálfu formælenda þessa njósnarmáls.

Hæstv. forsrh. fór að sjálfsögðu, eins og hans er vandi, fyrir ofan garð og neðan og minntist í rauninni ekkert á það, sem hér er til umr. Það virðist eiginlega svo, að báðir þessir hv. ræðumenn, bæði hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk., hafi annaðhvort viljandi eða óviljandi misskilið tilgang þessarar till. Með till. er það í sjálfu sér ekki véfengt, að lögreglan hafi heimild til að kveða upp slíka úrskurði, að hlusta í síma. Það er annað, sem er tilgangur till. Tilgangurinn með till. er að komast fyrir það, hvað mikil brögð hafa verið að slíkum njósnum og í hvaða augnamiði þær hafa verið framkvæmdar og að hvers tilhlutun, eins og segir í tillgr. Jafnvel þó að það væri fullkomlega viðurkennt, að slíkar njósnir væru lögmætar, þá gæti orðið um það deilt, hvort almenningur í landinu vildi búa við þá rannsóknaraðferð í lítilsvarðandi og mikilsvarðandi málum. Mér þykir það koma undarlega við, ef stjórnarfl., sem svo mjög hafa slegið á þá strengi almenningsálitsins í landinu, að þjóðarviljinn ætti að ráða svo miklu, jafnvel þó að bein lagaákvæði kunni að vera andstæð þeim vilja, leggja svo á móti þessu, að allur almenningur fái nokkuð að vita um það, hvað hér hefir verið gert. Hinsvegar þykist ég í umr. um þetta mál — og sömuleiðis flokksmenn mínir, sem hafa tekið til máls, — hafa gert svo ýtarlega grein fyrir, hver nauðsyn er á því, að þetta mál sé rannsakað.

Hæstv. forsrh. var að reyna að gera lítið úr því, að símanotendur létu sig það miklu varða, hvort eftirlit væri haft með símaviðskiptum eða ekki, og sagði m. a., að mjög mikill hluti af verzlunarskeytum væri sendur sem loftskeyti, þó að það sé vitanlegt, að leynd loftskeyta er miklu ótryggari og jafnvel gerð ótryggari heldur en símskeyti, og það virtist svo, að þeir, sem slík skeyti sendu, létu sig það einu gilda. Þetta er á hinum mesta misskilningi byggt, og hæstv. ráðh. hefir í þessu, eins og svo mörgu öðru í sambandi við þetta mál, gert sig sekan um að fara nokkuð utan við raunveruleikann í þessu máli. — Það er fyrst að athuga, að jafnvel þó leynd loftskeyta væri minni heldur en annara skeyta, þá er óvíst, að allur almenningur geri sér þess grein. En hinsvegar er það svo, að þessi heimild stjórnarvaldanna til þess að hafa sérstakt eftirlit með loftskeytum er bundin við ákveðna tegund loftskeyta. Það eru eingöngu loftskeyti, sem fara á milli lands og skipa í hafi. Það á alls ekki við um venjuleg verzlunarskeyti. Það er eingöngu heimild til þess samkv. lögum að hafa sérstakt strangt eftirlit með skeytum til skipa. Af því má líka sjá, að það er ákveðinn tilgangur sem liggur á bak við þau lagafyrirmæli, sem m. a. alveg vafalaust eiga við ásókn skipa í landhelgina við strendur landsins. Þetta undirstrikar náttúrlega sérstaklega það, hver tilgangurinn er með þessu, og gerir vafalausara, að það er fullkomnari heimild til þessa eftirlits heldur en þess, sem hér hefir verið deilt um að undanförnu. Og sjálf lögin um rekstur loftskeytastöðva gera greinarmun á þessum tveimur tegundum skeyta og undirstrika enn meira þá skyldu, sem hvílir á starfsfólkinu til þess að halda verndarhendi yfir símaleyndinni; því viðurhlutameira ætti það að vera fyrir stjórnarvöldin að brjóta þessa leynd.

Það skiptir náttúrlega engu í þessu sambandi, hvort stjórn eða formanni símanotendafélagsins hafi verið boðið að sjá þennan úrskurð, sem lögreglustjóri hefir kveðið upp. Það leysir ekkert úr því, sem þessari n. er ætlað að framkvæma, sem till. gerir ráð fyrir. Það sjá allir, sem hafa fylgzt með rökum fyrir því, að skipun slíkrar n. væri nauðsynleg.

Það hefir nú svo rækilega verið sýnt fram á, hve fáránleg sú ræða var, sem hv. 1. landsk., sem því miður er ekki viðstaddur hér nú, flutti áðan, að í rauninni er það alveg óþarfi fyrir mig að endurtaka þau rök, sem að því hafa verið færð. Það varð ekki séð eða skilið af ræðu þessa hv. þm., að hann hefði einu sinni lesið till., sem hér liggur fyrir. Ef hann hefði gert það, hefði hann ekki getað verið í neinum vafa um, að í henni er ekki farið fram á að skipa neinn sérstakan dómstól, sem ætti að fá dóma hinna lögskipuðu dómenda til meðferðar. Hlutverk n. á ekki að vera annað en rannsókn á því, hvernig lögregluvaldið hefir beitt sínum rannsóknarrétti. Það getur verið í ýmsum tilfellum rétt af hæstv. Alþingi að hafa afskipti af því, hvernig lögregluvaldið beitir sínum rétti. Við skulum aðeins hugsa okkur dæmi um það, að það kvisaðist um dómara, að hann beitti gæzlufanga pyndingum, en hinsvegar gerðu stjórnarvöldin ekkert til þess að fá það upplýst. Mundi nokkur maður telja það illa til fallið, að Alþingi léti sig slíkt mál skipta og krefðist rannsóknar á því? Ég held, að enginn hv. þm. mundi leyfa sér að bera fram vefengingu um það, að þingið hefði ekki aðeins rétt, heldur skyldu til þess að láta sig slíkt mál skipta.

Rannsóknaraðferðir geta verið óviðurkvæmilegar með ýmiskonar hætti. Það er deilt um það hér, hvort þessi rannsóknaraðferð, sem hér er um að ræða, sé viðurkvæmileg eða óviðurkvæmileg, og það fer að sjálfsögðu mjög eftir því, hve víðtækt henni hefir verið beitt, hvaða tilefni var til þess, og að hvers tilhlutun þessari aðferð kann að hafa verið beitt. Eins og ég benti á áðan, er hægt að misbeita þessari rannsóknaraðferð herfilega einmitt í sambandi við stjórnmálabaráttuna. Það er því mjög fjarri því, að hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk. hafi á nokkurn hátt hnekkt réttmæti þessarar till. eða leitt rök að því, að ekki bæri að samþ. hana og framkvæma. Það eiga þeir góðu menn alveg eftir að sýna fram á og þar með að réttlæta þá afstöðu, sem þeir bersýnilega hafa tekið til málsins og meðferðar þess hér í hv. d. Annars er það furðulegt, að hæstv. stj. og stuðningsflokkar hennar skuli beita sér svo mjög gegn skipun þessarar n., því ætla mætti, ef allt væri með felldu — allt svo sjálfsagt og sanngjarnt, sem gert hefir verið í þessu máli –að þeim væri ekkert ljúfara en að fullar upplýsingar kæmu fram og þeir þannig hreinsaðir af öllum ljótum grun, sem á þeim kynni að hvíla.