29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

130. mál, símaleynd

*Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. ráðh. sagði í seinustu ræðu sinni, að við, sem flyttum þessa till., færum ekki fram á neitt annað en það, að dómsvaldið í landinu yrði sett undir framkvæmdarvaldið. Það, sem við viljum gera með þessari till., er ekki annað en það, sem stjórnarlög landsins heimila, því að það stendur ótvírætt í þessari tilvitnuðu gr. stjskr., að hvor þd. geti skipað nefnd deildarmanna til þess að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða, og þá verður hæstv. ráðh. að viðurkenna, að það sé tilgangur stjskr. að setja dómsvaldið undir framkvæmdarvaldið að þessu leyti, en ég held, án þess að ég ætli að fara út í hina lögfræðilegu hlið þessa máls, að hæstv. ráðh. sé algerlega ruglaður í hinu lögfræðilega rími, og má vel vera, að þetta mál sé búið að hafa þannig áhrif á taugakerfi hans, að þetta sé afsakanlegt frá læknisfræðilegu sjónarmiði, því að Alþingi er ekki framkvæmdarvald; það hefir hingað til verið kallað löggjafarvald þjóðarinnar, og ég held, að hér sé ekki annað verið að gera en það, að löggjafarsamkunda þjóðarinnar sé látin beita þessum rétti, sem henni er áskilinn í stjórnlögum landsins. Hæstv. ráðh. átti ekki að taka sérstaklega að sér hina lögfræðilegu hlið málsins; ég skildi það svo, þegar hv. 1. landsk. kom fram á sjónarsviðið, að stjórnarfl. hefðu vantreyst ráðh. sínum að verja lögfræðilegu hliðina. Ég skal ekkert vera að víta það, en mér hefði fundizt mega sjá betur fyrir hjálparkokknum en gert er með því að setja hv. 1. landsk. í embættið, því að hans frammistaða í þessu máli var lítið annað en það, að hann þuldi upp svo að segja orðrétt úr grein í Alþýðubl., sem ég hefi fyrir satt, að ólöglærður maður hafi skrifað, enda ber hún þess merki, þó að í henni sé töluvert meira vit en í ræðu hv. 1. landsk. Hv. þm. sagði, að samkv. íslenzkum lögum gæti lögreglustjóri úrskurðað, að hlustað skuli á símtöl manna; þetta endurtekur hann, en fæst ekki til að benda á einn einasta lagastaf, sem mælir svo fyrir eða nokkuð í þá átt, og ég get sagt það, að mjög vel lærður lögfræðingur og háskólakennari hefir sagt mér, að hann hafi mikið lagt sig í líma um að rannsaka þetta mál, og sérstaklega að því er snertir önnur lönd, og ég held, að hann hafi hvergi fundið nokkra heimild til slíkra hluta, til hlustunar í síma eða neitt, sem gefur til kynna, að það sé undir nokkrum kringumstæðum leyfilegt hjá nokkurri af Norðurlandaþjóðunum, og sízt af öllu samkv. íslenzkum lögum.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að rannsókn á afbrotum ætti að koma mönnum á óvart, og með þessum orðum vildi hann verja það, að þessar hleranir voru látnar fara fram, og var það byggt á því, að hér væri um svo alvarlegan glæp að ræða, en það skortir bara þá undirstöðu undir þessa röksemdafærslu, að hæstv. ráðh. gæti sýnt fram á, að þeir, sem hlustað var hjá, hefðu yfirleitt verið grunaðir um glæp eða svo alvarlegt afbrot, að það gæti talizt háskalegt fyrir þjóðfélagið, Hæstv. ráðh. ályktar þarna forsendulaust; slíkt er kallað „hundalógík“.

Hæstv. ráðh. sagði, að það ætti æðri dómstóll að skera úr þessu máli, og þess vegna fannst honum óþarft, að rannsókn yrði hafin af þinginu í málinu, en nú hefir ekkert mál verið höfðað út af þessu bílstjóraverkfalli hér í Reykjavík. Hvaða dómstóll er það, sem hæstv. ráðh. á við með orðum sínum, að eigi að skera úr um þetta mál? (Forsrh.: Það er hægt að áfrýja úrskurðinum). Ég hefi heyrt, að landssímastjóri hafi farið fram á, að þeim úrskurði verði áfrýjað. Það er náttúrlega nokkuð seint, þegar þetta mál er fyrir nokkrum mánuðum alveg til lykta leitt. — Hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi, að skeytin hefðu þráfaldlega verið rannsökuð undanfarin ár; ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi meint loftskeytin, en þó að hann hafi aðeins átt við það, þá eru þetta nýjar upplýsingar, því að mér er ekki kunnugt um, að það hafi þótt tilefni til þess fyrr en nú. Ég verð að taka undir það með hv. 3. þm. Reykv., að hæstv. ráðh. hafi annaðhvort viljandi eða óviljandi misskilið, hvað meint er með þessari till., sem hér liggur fyrir. Það er sem sé langt frá því, að með henni sé ætlazt til þess að kveða upp nokkurn dóm. Tilgangurinn er að komast að raun um, hve miklar þessar hleranir hafa verið, að hverra tilhlutun og hjá hverjum, og það er bersýnilegt, að það er þetta, sem hæstv. ráðh. og hans nánustu eru ákaflega hræddir við, og þess vegna hleypur hæstv. ráðh. í krók og kring til þess að ekki sé hægt að festa á honum hendur. Mönnum er það ljóst, að eitt af því andstyggilegasta, sem menn geta hugsað sér, er, að menn hafi legið og snuðrað og hlustað á það í símanum, sem fram hefir farið milli vina og vandamanna og viðskiptamanna og þeir hafa verið öruggir um, að enginn annar en þeir hlustuðu á. Það er þetta, sem Reykvíkingar eru sammála um, að megi ekki koma fyrir oftar, og að þeir, sem frömdu verkið, fái sín maklegu málagjöld. Af þessum ástæðum eiga símanotendur heimtingu á nákvæmum upplýsingum um málið, og þær fást bezt í gegnum þessa nefnd. Það er áreiðanlegt, að það er alls ekki sérstök pólitísk þörf, sem verið er að fullnægja af okkur flm., því að ég ætla, að hæstv. ráðh. muni þó hafa skilið það af þeim umr., sem fram hafa farið utan þings um þetta mál, að Reykvíkingar standa nokkuð óskiptir í þessu máli. Þeir taka þetta málefnislega og krefjast þess, hvaða stjórnmálaskoðun sem þeir hafa, að fullt öryggi fáist í þessu efni, og ef hæstv. stj. skilur ekki, að hún er algerlega heillum horfin í þessu máli, því verð ég að segja, að hún er að mun skilningssljórri en ég hefi haldið hingað til. Ég vil benda hæstv. stjórn á það, að hún hefir margsinnis sagt bæði beint og óbeint, að hún væri fyrir röngum sökum höfð, þegar hér er fluttur sá grunur, að síminn hafi verið miklu oftar notaður til njósna heldur en hún vill vera láta, og að hér hafi farið fram víðtækar og algerlega ólöglegar njósnir í síma, sem beint hafi verið gegn hagsmunum ef til vill margra manna. Hæstv. ráðh. taldi, að þetta væri í alla staði óréttmætt, en ég get fullvissað þá um það, hæstv. ráðh., að ef þeir væru sannfærðir um, að þeir væru hafðir fyrir röngum sökum, þá væri það þeim fyrir beztu, að rannsókn færi fram. Og hverjir ættu að vera þess fúsari, að slík rannsókn færi fram, en einmitt þeir, sem telja sig beitta röngum grun, en vita sig hreina og saklausa. En það er bezt fyrir hæstv. ráðh. að hugsa sig vel um, því að það mega þeir vita, að símanotendur láta ekki við það sitja, að hér sé borin fram till. og drepin. Þeir taka þá málið í sínar hendur, og ég hygg, að það verði ekkert þægilegt fyrir hæstv. ráðh. að mæta málinu þegar það er komið í bendur þeirra manna, sem vita sig hafa verið rangsleitni beitta. En ég skal ekki mæla ríkisstj. undan neinum óþægindum eða refsingu í þessu máli, ef hún kann ekki að sjá sóma sinn í að láta þessa till. ná samþykki.