29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

130. mál, símaleynd

*Garðar Þorsteinsson:

Það var fyrst út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði í sambandi við það, sem ég skaut hér fram í um það, hvað símamálastjóri hefði upplýst í blaðaviðtali. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vera trúaður á þennan fréttaflutning og vildi fyrst heyra símamálastjóra sjálfan skýra frá því. Er ráðh. með einhverjar dylgjur um það, að ég hafi borið eitthvað ósatt á milli í þeim samtölum, sem ég hefi átt við hann og landssímastjóra út af þessum málum sem einn af stjórnarmeðlimum Félags, talsímanotenda? Landssímastjóri hefir játað það á fundi hjá Fél. talsímanotenda, að hann hafi gripið til þess að segja ósatt, af því að hann hafi álitið þagnarskyldu sína við símann vera svo ríka. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort réttara hefir verið fyrir hann, en þetta ætti að vera nægjanlegt fyrir hæstv. ráðh. til þess að sannfæra hann um, að það þýðir ekki fyrir hann að neita þessu. Hæstv. ráðh. hefir á allan hátt reynt að tengja þessi tvö óskyldu mál saman, loftskeytaskoðunina í sambandi við landhelgisbrotin annarsvegar, og þessa hlerun í símann hinsvegar. Þessir hæstv. ráðh. hafa ekki linnt látum, hvorki í blöðum eða hér á Alþingi, að reyna að toga það fram og leggja áherzlu á það, að þetta mál sé komið hér inn í umr. vegna þess, að sjálfstæðismenn séu gramir yfir þeim upplýsingum, sem fengizt hafa við rannsókn á loftskeytum, og hæstv. dómsmrh. hefir sífellt verið að hæla sér að sínum dugnaði í þessu máli, og hann er margbúinn að sýna fram á, að þessi mál séu hvort öðru skyld. Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði ekki látið skoða loftskeytin og þýða þau fyrr en hann var búinn að fá rökstuddan grun um, að þau væru misnotuð. En svo segir hann: „Hvers vegna gerði ekki Magnús Guðmundsson þetta þegar hann var ráðherra?“ Ég býst við, að það sé af því, að hann hafi ekki haft neinn rökstuddan grun. En svo að maður fari lengra aftur í tímann, þá er bezt að rekja þetta mál til þess tíma, þegar hv. þm. S.-Þ. var dómsmrh. Hann er sá eini ráðh., sem hefir látið á prenti út ganga, að hann hafi ekki einungis haft rökstuddan grun, heldur sannanir fyrir því, að þessar njósnir færu fram um varðskipin. En hvers vegna tók hann þá ekki þessa sökudólga? Mér er spurn. Úr því að hann hafði ekki eingöngu rökstuddan grun um misnotkun loftskeyta, því upplýsti hv. þm. S.-Þ., sem þá var dómsmrh., ekki um afbrot þessara manna? Vitanlega af því, að allar þessar dylgjur hans og staðhæfingar um brot einstakra útgerðarmanna í Rvík voru allar uppspuni. Hann hafði engan rökstuddan grun og engar sannanir, því að það vita allir, sem þekkja hv. þm. S.-Þ., að hann hefði ekki hlífzt við því einn dag að draga þá íslenzku útgerðarmenn fyrir lög og dóm, sem hann hafði sannanir fyrir, að misnotuðu loftskeytin. Svo segir hæstv. dómsmrh: „Ég lét ekki hefja rannsóknirnar fyrr en ég hafði fengið rökstuddan grun.“ Ég fer inn á þetta til að sýna, að þessi málafærsla hæstv. ráðh., að blanda þannig tveimur málum saman, hefir ekki við neitt að styðjast. Það er þrautalending til að leiða athygli almennings frá þeirri svívirðingu, sem hér hefir átt sér stað.

Ég skal svo koma að þeirri till. til þál., sem hér liggur fyrir og er um það, að skipa rannsóknarnefnd skv. 34. gr. stjskr., og þeim ummælum, sem hafa fallið hér hjá aðalverjanda hæstv. dómsmrh. í þessu máli. Það hefir verið hans sterkasta vörn að segja, að hér væri um árás á dómarann í Rvík að ræða og að þetta mál væri ríkisstj. óviðkomandi, það sé dómarinn í Rvík, sem hér eigi alla sök, sem þó sé engin sök, því að hann hafi ekki farið út fyrir sitt valdsvið. Það er ekkert aðalatriði í þessu máli, hvort hér á landi sé virkilega svo ófullkomin löggjöf, að slík misnotkun á símanum sé heimiluð. Aðalatriðið er það, að það hefir farið fram hlustun í símanum í málum, sem eru lítilfjörleg, og í öðru tilfellinu um ekkert afbrot eða glæp að ræða. Það er nánast hlægilegt, að það hafi þurft að hlusta í síma og kveða upp úrskurð um það, þó að hv. þm. V.-Sk. væri stöðvaður uppi við Kolviðarhól í bílstjóraverkfallinu í vetur og að það hafi þurft að rjúfa símaleyndina, þó að bíll væri stöðvaður með konsúl í. Þetta eru svo barnaleg og hlægileg rök hjá hæstv. ráðh., að það er raunalegt, að nokkur fullorðinn maður skuli láta slík ummæli frá sér fara úr ræðustól. Hæstv. dómsmrh. mun nú vera farinn að sjá, að þessi mál eru þannig vaxin, að hann getur ekki staðið hér og varið þau án þess að skjóta sér bak við einhvern, og hann skýtur sér líka dyggilega bak við lögreglustjórann, og þegar hv. þm. láta í ljós, að ríkisstj. hafi staðið á bak við þessa úrskurði, það sé hún, sem raunverulega hafi samið þá, verður hæstv. ráðh. mjög reiður og spyr, hvort hv. þm. þori að segja þetta utan þings. því að hann ætli að draga þá fyrir lög og dóm. Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði ekki vitað úrskurðina, sem upp voru kveðnir í apríl um hlerunina í vínsölumálunum, fyrr en eftir að þeir voru kveðnir upp. Ég skal fyrir mitt leyti trúa því, en hvernig stendur á því, að hann hefir hvað eftir annað tekið fram, að hann hafi ekki haft hugmynd um þennan úrskurð fyrr en eftir á, en hann hefir varazt að minnast á, hvort hann hafi vitað um hinn úrskurðinn, sem kveðinn var upp í bílstjóraverkfallinu, fyrr en eftir á, og mun hæstv. atvmrh. hafa haft svipuð ummæli, að hann vissi ekkert um þessa síðari úrskurði fyrr en á eftir, en hann minntist ekki á hina fyrri úrskurði. Ég get trúað því, að hann segi það satt, og að það sé rétt, að hann hafi ekki vitað um síðari úrskurðinn fyrr en á eftir, — en mun hann ekki sjálfur hafa vitað eitthvað um þann fyrri?

Ég hugsa, að ég geri lögreglustjóranum í Rvík ekkert til skammar — ég þekki hann svo vel, þann heiðursmann —, þó að ég segi, að hann muni aldrei hafa kveðið upp úrskurð um hlustun í bílstjóraverkfallinu, nema vera til þess knúður af ríkisstj. Og ég vil skora á báða þessa hæstv. ráðh., hæstv. atvmrh. og hæstv. dómsmrh., að lýsa því yfir, að þeir hafi engan þátt átt í því, að sá úrskurður var kveðinn upp, og ég hugsa, að þeir hiki.

Þessir hæstv. ráðh. hafa skýrt frá því, að áfrýja ætti úrskurðunum frá því í apríl, — en hvers vegna — ef búið er að ákveða þá áfrýjun — má almenningur þá ekki fá að sjá þetta plagg? Ég fæ ekki skilið þessa leynd. Hvers vegna má almenningur ekki sjá þetta plagg, þegar búið er að kveða upp áfrýjunarstefnu? Og svo eru þessi ummæli hæstv. ráðh. aðeins miðuð við síðari úrskurðinn; ég á eftir að heyra hann segja, að fyrri úrskurðinum verði áfrýjað, og trúa mín er sú, að hæstv. ráðh. forðist í lengstu lög, að almenningur fái að sjá þann úrskurð.

Þá er annað atriði, sem kemur til greina, þegar verið er að ræða þetta mál, og margsinnis hefir verið bent á, og það er, hverjir störfuðu að þessari hlustun. Það hefir verið upplýst, að þeir væru fjórir, 2 lögregluþjónar og 2 aðrir menn. Annar þessara manna er frá símanum, Guðmundur Pétursson, — ég þekki þann mann ekkert. nema það sem blöðin hafa á hann minnzt. Nú er vitað, að þessi vitni eru sett af lögreglunni og eiga að vera sem sönnunargagn hennar í málinu, — en hvað lá nær en að vitnin væru lögregluþjónar? Hvers vegna var tekinn maður frá landssímanum? — Ég hefi spurt lögreglustjóra, hverjir hafi hlustað í des., hvort það hafi verið 4 lögregluþjónar, eða hvort þeir hafi verið 2 og 2 aðrir menn, eða hvort enginn lögregluþjónn hafi hlustað, — en það fæst ekkert svar. Af hverju? Voru þeir tilnefndir af ríkisstj. og hlustuðu fyrir hana, en ekki lögreglustjóra, af því það var ekkert glæpamál? — Ég veit, að það hefir verið sagt til að forsvara þetta, að þessi Guðmundur Pétursson hafi verið tekniskur ráðunautur við hlerunina. Ég veit nú ekki, hvort þess hefir verið þörf. En ég álít þá, að þetta „tekniska“ leigutól hefði átt að gera við, en ekki hlusta í símann. Það er allt annað að hafa sérfróðan mann — sem mér er sagt, að þessi maður sé, og getur vel verið, að sé satt, — til að setja í samband og þess háttar, en ég sé ekki, hvers vegna hann átti að vera við hlustunina. Ég hygg, að það sé hinn mikli kunnugleiki hans við stjórnarvöldin, sem veldur því. — að það sé sama ástæðan og liggur til þess og að stjórnin hefir þennan mann dag eftir dag niðri á lögreglustöð til að þýða símskeyti, eftir því sem mér er sagt.

Mér hefir verið sagt — en ég hefi ekki tryggingu fyrir því —, að í þessum úrskurði lögreglustjóra hafi verið tiltekin ákveðin símanúmer, sem hlusta bæri á. En hvaða trygging er fyrir því, að ekki hafi verið sett í samband við fleiri númer? Var þessi úrskurður ekki notaður sem skálkaskjól, til þess að hlusta á fleiri númer?

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri nauðsynlegt að geta hlustað í símann, því það væri vitað, að hann væri notaður til afbrota, og þess, vegna væru það afbrotamennirnir, sem við vildum verja. — Ég veit ekki, hvaða tækni það er, sem ekki er hægt að nota til afbrota. Ég hygg, að með sama rétti mætti þá opna bréf og böggla, sem sendir eru í bíl á milli bæja, því þar getur falizt eitthvað ólöglegt, eitthvað, sem mætti nota til afbrota. Hvað er það, sem ekki má nota til afbrot,? — Mér dettur í hug saga, sem ég heyrði fyrir nokkrum árum. Það var gift kona, sem fór á fund lögreglustjóra hér í bænum, — ég þori ekki að segja um, hvort núv. hæstv. dómsmrh. var þá í því embætti, — og þessi kona kvartaði yfir því, að maður hennar færi illa með hana, og bar sig mjög aumlega. Maður hennar ætlaði til útlanda og væri kominn um borð með allt sitt í ferðatöskum, en ætlaði að skilja hana allslausa eftir. Krafðist hún þess, að lögreglustjóri sækti manninn og léti setja hann í land. Og lögreglustjóri varð við bón konunnar. Hann safnaði öflugu lögregluliði og fór um borð. Maðurinn bar sig illa og kvaðst ekki una samvistum við konu sína. En ekkert tjóaði. Lögreglustjóri lét taka hann og flytja hann ásamt farangri frá borði og heim til konunnar á ný. Og það er sagt, að þau hafi bæði sætt sig vel við málalokin, því í farangri mannsins var ekkert annað en áfengi. — Á þennan hátt notuðu þau lögregluna til að flytja áfengið í land, og það mætti því með sama rétti segja, að lögregluna bæri að leggja niður, af því hún hefði verið notuð til afbrota. Þessi rök hæstv. dómsmrh. um hlerunina hafa því ekki við hið allra minnsta að styðjast.

Þá kem ég að því, sem báðir hæstv. ráðh. og hv. 1. landsk. þm., svo að þrenningin er fullkomnuð, vildu gefa í skyn og halda fram, að rannsóknarnefnd sú, sem farið er fram á í þessari þáltill. að verði skipuð, ætti að vera æðri dómstólum landsins, og hana ætti að skipa yfir dómsvaldið í landinu. Ég veit nú ekki, hvað hægt er að komast langt með vitleysuna, en þegar sameinuð er öll þessi þrenning, hlýtur hún að vera fullkomnuð. — Hér er ekki um neitt slíkt að ræða; þessi nefnd á ekkert dómsvald að hafa, hún er aðeins skipuð til rannsóknar, og valdsvið hennar er skýrt tekið fram í stjskr. landsins. Og það er dálítið undarlegt, að hæstv. dómsmrh. skuli ætla sér að setja dómsvald undir framkvæmdarvaldið, það er alls ekki um það að ræða. Nefndin á ekki að hnekkja úrskurðinum. Hann stendur þar til honum verður hnekkt í hæstarétti; nefndin getur ekki fellt hann úr gildi, — það dettur engum í hug. En rannsóknarnefnd er ætlað annað og meira vald en verjanda og sækjanda, og það er barnaskapur og blekkingar, og alveg ósæmandi af lögfræðingi eins og hæstv. dómsmrh. að koma fram með slíkt. Það stendur skýrt í till., að rannsóknarnefndin eigi að rannsaka, að hve miklu leyti símaleyndin hefir verið rofin. Ég geri ekki ráð fyrir, að sækjandi og verjandi, sem skipaðir eru út af úrskurðinum í apríl, geti krufið til mergjar, hvaða númer voru opnuð og hlustuð í desember síðastl. Vald n. gengur þess vegna lengra en sækjanda og verjanda í hæstarétti, sem geta ekki sett rétt yfir lögreglustjóra, og það er alveg ósamboðið lögfræðingi, og þá hvað helzt dómsmrh., að koma með slíkt, þó að þeir gætu fengið því í framgengt, að réttur yrði settur yfir lögreglustjóra. Og í hvaða augnamiði hefir símaleyndin verið rofin? Sækjandi og verjandi geta ekki fundið út, hvort hlerað hefir verið í pólitísku augnamiði. En nefndin, — hún gæti kallað fyrir sig alla embættismenn og alla þá, sem við þetta eru riðnir. Og mér er óhætt að fullyrða, að það skilur enginn þá röksemd, hvernig sækjandi og verjandi geta það, sem samkv. till. og stjskr. er valdsvið rannsóknarnefndar, því það eru óframbærileg tök. — En sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. þora ekki, að sett sé nefnd, sem hafi vald til þess að leiða fram allan sannleikann; þeir vilja framvegis eins og hingað til fela sig bak við leyndina, en þeir vita, að ekki verður komizt hjá því að upplýsa þetta mál, ef n. er skipuð, en það er einmitt það, sem þeir óttast.

Ég vil svo endurtaka það, að í mínum augum er það algert aukaatriði, hvort úrskurðurinn fæst staðfestur sem dómsathöfn í hæstarétti eða ekki; honum verður ekki rift hvort sem er, því gerður hlutur verður ekki afturkallaður. Það, sem fyrir mér er aðalatriðið og hefir vakað fyrir mér, er að fá það tryggt á einn eða annan hátt, að slík misnotkun eigi sér ekki stað framvegis, — að símaleyndin verði ekki rofin, hvorki af lögregluvaldinu né öðrum. Og ég get ekki fellt mig við annað en að fá þetta tryggt, því það er komið inn í mína meðvitund, að símaleyndin hafi ekki aðeins verið rofin til að ljósta upp meintum afbrotum eða glæpum, heldur líka í pólitískum tilgangi. Ef borgararnir mega ekki vera óhultir um friðun þessa tækis og hlustun getur farið fram, án þess að fyrir liggi nokkur úrskurður, þá er símaleyndin rofin, og friðhelgi manna er rofin, og það verður að koma í ljós, hver sannleikurinn er í þessu máli. En bezta leiðin til þess er sú, að skipa rannsóknarnefnd samkv. þeirri þáltill., sem við berum fram, og það er ekkert annað en óttinn við, að sannleikurinn komi í ljós, sem veldur því, ef stjórnarflokkarnir greiða atkv. móti þessari þáltill.