29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

130. mál, símaleynd

*Ólafur Thors:

Ég þarf ekki að þessu sinni að flytja langt mál, og það er vegna þess, að hæstv. forsrh. hefir lítið reynt til að hrekja rök þau, sem ég hefi flutt fram í þessu máli. Og mér þykir það leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki telja sig hafa tök á að svara því, sem fram hefir komið, því sannast að segja vildi maður helzt, að hann hefði getað borið fram einhver tyllirök, en hans málstaður er svo haldlaus, að ég get ekki fundið ástæðu til að eyða tíma í það, því vegna áheyrenda er engin þörf á að svara því, sem þeir finna sjálfir, að eru haldlaus rök. Ég ætla þess vegna að þessu sinni aðeins að víkja að ræðu hæstv. atvmrh.

Skal ég þá víkja fyrst örfáum orðum að þeim ummælum hans, sem hann vildi víkja að mér, er hann ásakaði mig um að haf, minnzt á eða sveigt að starfsmönnum við símann. Ég hallmælti þeim í engu, þó ég segði, að grunur léki á um, að þeir njósnuðu í símann eftir skipun. — Í sambandi við þetta vék hann að því, hæstv. ráðh., að mér mundi sárt um þetta mál vegna þeirra njósna, er hefðu verið framkvæmdar um togaraskeytin. Ég er ekki meira riðinn við það mál en hæstv. ráðh. sjálfur, og þess vegna alls ekki sárt um það mál að neinu leyti.

Nú gengur orðrómur um það — og hvað er hæft í honum? — að viss maður sé hafður til að rannsaka skeyti milli togara og útvegsmanna.

Hæstv. ráðh. taldi þessa þáltill. algerlega óþarfa, vegna þess að hún væri í rauninni krafa um rannsókn á 3 atriðum, sem nú þegar væri öllum svarað. Hann segir, að það sé upplýst, að hve miklu leyti símaleyndin hafi verið rofin, í hvaða augnamiði og að hverra tilhlutun, og af því að þessu sé öllu svarað, — en þetta sé það, sem spurt hafi verið um —, þá sé till. óþörf. En svona létt er nú ekki hægt að komast í kringum þessa hluti, að minni hyggju.

Það er upplýst, að lögreglustjórinn í Rvík hefir sagt — ekki ómerkari manni en borgarstjóranum í Rvík — að það væri alls ekki hægt að hlusta í símann. Það er ennfremur vitað, að ráðh. hefir flutt skriflega yfirlýsingu frá æðsta manni símamálann., að hlustun hafi aldrei komið fyrir áður, þ. e. í aprílmánuði, — þetta sé algert nýmæli. (Atvmrh.: Þetta er ekki satt). Ég hefi nú ekki þetta bréf, en landssímastjórinn segir, þegar lögreglustjórinn fer fram á það 8. apríl þ. á. að mega úrskurða njósnir, að nauðsynlegt sé að fara varlega með þennan hlut og hann segist gera þetta vegna þess, að hér sé um algert nýmæli að ræða. Og hann gerir betur, því hann telur upp þær ástæður, er hann telur, að verði að vera fyrir hendi. Og í hvaða tilgangi er þetta gert? — Það lítur svo út, sem það sé gert til þess að telja mönnum trú um, að friðhelgi símans sé órofin.

Er nú ekki ástæða til að afla sér meiri upplýsinga um, að hve miklu leyti símaleyndin hafi verið rofin, þegar maður rekur sig á þvílík ósannindi? Og þegar nú ofan á þetta bætist, að menn, sem hlustuðu, eru sóttir út fyrir stofnunina, að því ógleymdu, að sá maður, sem tekinn er frá landssímanum til að hlusta í bæjarsímann, hefir á sér mjög illan grun, þá er ekki hægt að segja, að nú liggi fyrir fullkomnar upplýsingar. Enda liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar en þær, sem við sjálfstæðismenn höfum neytt ráðherrana til að gefa, eða réttara sagt játa, og það er ekki ástæða til að ætla, að við vitum um allt, — miklu fremur, að við vitum aðeins um minnsta hlutann Ég held, þess vegna, að ég geti með fullum rétti fullyrt það, að þetta mál liggur alls ekki upplýst fyrir, og það getur vel verið, að miklu fleira eigi eftir að koma upp í þessu máli, sem er til enn meiri skammar fyrir stjórn landsins og æðsta mann símans. En þó er sú skömmin mest fyrir hæstv. dómsmrh. að hafa ekki manndóm í sér til að játa á sig sína sök, en skjóta sér á bak við lögreglustjórann, þó að allir viti, að hann hefir ekki gert annað í þessum málum en það, sem dómsmrh. hefir knúð hann til að gera.

Það hefir sannazt í þessum umr., að ekki má njósna í síma, nema fyrir liggi rökstuddur grunur um afbrot, og það er jafnframt upplýst, að símanjósnir hafa farið fram án þess, að slíkur grunur lægi fyrir, nfl. í bílstjóraverkfallinu. Það hefir ennfremur verið upplýst, að símaleyndin hefir verið rofin, þó að svo lítil ástæða lægi til, að það náði engri átt, og það í máli, sem hægt var að upplýsa án þess að rjúfa símaleyndina, og ekki var hægt að upplýsa með því að rjúfa hana. Ennfremur er upplýst, að landssímastjóri hefir sagt vísvitandi ósatt, þar sem hann segir, að aprílnjósnirnar séu þær fyrstu, en upplýst er, að þá hafði áður verið hlerað a. m. k. einu sinni, og sterkur grunur leikur á um, að hlerun hafi oftar farið fram, eins og yfirlýsing liggur fyrir um, og er því full ástæða til að ætla, að sú tortryggni í garð ríkisstj. eða sá grunur, sem á hana hefir fallið um skipulagðar njósnir, sé á fullum rökum reistur.

Málið liggur því þannig fyrir, að ríkið selur almenningi afnot eins hins mesta menningartæki, nútímans, með þeirri forsendu, að ekki sé hægt að misbeita því, þar sem ómögulegt sé að hlusta og skjóli þessarar yfirlýsingar fara daglega fram viðtöl í bæjarsímanum, sem notendum hefði ekki dottið í hug að nota símann til, ef þeir hefðu ekki trúað yfirlýsingu valdhafanna. Það er náttúrlega ákaflega eftirtektarverð sönnun um áberandi sljóa réttartilfinningu, þegar forsrh. og dómsmrh. landsins þessu til varnar leyfir sér að viðhafa orð eins og þau, að það sé undarlegt, að menn séu nú að fjargviðrast yfir því, þó að ekki ríki fullkomið öryggi um símann, — sömu menn, sem um mörg ár hafa sætt sig með ánægju við það að eiga við að búa síma sem allir vissu, að hlustað var í. En skilur ekki þessi ráðherra þann geipilega mun, sem er á því, að menn ganga út frá því, að þeir séu að tala í tæki, sem allir geta hlustað í, og svo hinu, að sjálft ríkisvaldið selur borgurunum afnot þessa menningartækis með öruggri yfirlýsingu um það, að hann megi fullkomlega treysta því, að enginn óviðkomandi geti hlustað á, og sé því hverjum óhætt að tala hvað sem er þess vegna, eins og innan sinna eigin veggja. Annarsvegar veit símanotandinn, að hann á sér ills von, en hinsvegar lýsa íslenzk stjórnarvöld yfir því, að hann eigi sér einskis ills von. Annað er þess vegna ágalli á þessu menningartæki, sem símanotandinn veit um: hitt eru svik í trúnaði, framin af stjórnarvöldunum. Því að þegar svo ríkisvaldið er búið að selja þegnunum afnot þessa tækis með öruggri yfirlýsingu um, að hættulaust sé að nota það, — þegar símanotendur eru búnir í þessu trausti að tala í síma um þau málefni, sem þeir annars mundu ekki gera nema innan fjögurra veggja, þá sendir ríkisvaldið sjálft sporhunda sína á þegnana, til þess að þeir geti þar njósnað um, hvað fram fer. En þó að ekkert sé tekið til greina í þessu máli annað en það, sem ríkisstj. sjálf er búin að játa, þá er afbrot hennar í þessu efni svo augljóst, og svo stórvægilegt, að það er raunalegt, að það skuli hafa átt sér stað. En ofan á þetta hefir svo bætzt það, eins og ég sagði, að sjálfur trúnaðarmaður símanotenda hefir lagzt á sveif með ríkisstj., maðurinn, sem átti helzt að standa í ístaðinu fyrir þá. Hann á að verja þann rétt, sem okkur er seldur. Hann hefir ekki varið hann, þó að hann hefði getað það — því að ég held, að hann hefði getað það. En hinsvegar hefir hann gerzt svo talhlýðinn við ríkisvaldið, að hann hefir farið með vísvitandi ósannindi. En hann skýtur sér á bak við það, sem hv. 9. landsk. orðaði þannig, að hann teldi þagnarskylduna svo ríka, að hann vildi heldur segja vísvitandi ósatt en láta uppi hið sanna. Það er þá viðurkennt af landssímastjóra, að hann hafi ragt ósatt, og vísvitandi ósatt. Og það er þetta, sem ég kalla alveg óþolandi ástand í því þjóðfélagi, sem vill byggja á lýðræðislega viðurkenndum grundvallarhugsjónum. Við erum með þessu móti búnir að leiða inn í okkar þjóðfélag allt það viðbjóðslegasta, sem fylgir einræðinu, án þess þó að hafa fengið neitt af þeim kostum, sem óneitanlega líka fylgja því. Og það er þetta, sem við sjálfstæðismenn viljum mótmæla skýrt og alveg tvímælalaust. Við krefjumst þess, að leynihjúpnum verði svipt af þessu máli. Við krefjumst að fá að vita, hjá hverjum hefir verið hlustað, hverjir hafa hlustað og samkv. hvaða rétti hefir verið hlustað, — og hvað víðtækt yfirleitt þetta hneykslismál er. Og af þessum ástæðum heimtum við það, að þessi till. okkar verði samþ. Það er sá minnsti réttur, sem ríkisstj. getur afhent okkur, eftir að hún hefir gerzt ber að jafnstórvægilegum sökum í þessu máli eins og rann ber vitni um. — Ég skal ljúka þessum fáu orðum mínum með því að endurtaka það, sem ég áður sagði, og flokksbræður mínir hafa tekið undir: Ríkisstj. á valið í þessu efni. Ef það er í raun og veru svo, að afbrot ríkisstj. sé ekki meira en við nú höfum uppljóstrað, þá tel ég sjálfsagt, að ríkisstj., ekki aðeins annara vegna, heldur og sjálfrar sín vegna, heimili þessa rannsókn, sem hér er farið fram á. Ef hinsvegur ríkisstj. neitar þessu, þá mun hún liggja undir grun — og undir alveg réttlátum grun — um það, að langstærsti afbrotamaður í þessu máli sé ríkisstj. sjálf, því að þrátt fyrir það, þótt ríkisstj. kunni með þessum njósnum að lánast að grafast fyrir rætur einhvers þess verks, sem ekki er rétt að lögum, þá sé það afbrot, sem þannig er framið, svipur hjá sjón samanborið við það, sem ríkisstj. sjálf hefir brotið af sér í þessu máli. Þetta val á ríkisstj. Hún um það, hvernig hún heldur á því. En hitt verð ég að segja, að hvort sem hún velur betri kostinn eða verri, þá tel ég, að þessu máli megi ekki ljúka þannig, að ekki komi einhverjar málsbætur fyrir framin afbrot, einhverjar nýjar tryggingar símanotendum til handa, þannig að það öryggi símans, sú friðhelgi, sem átti að hvíla yfir símanum, það traust, sem sú friðhelgi átti að skapa, verði endurreist. En það öryggi og traust liggur nú fullkomlega í rústum og verður fyrr en varir til fjárhagslegs niðurdreps fyrir þetta stærsta og risavaxnasta menningarfyrirtæki.