29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3165)

130. mál, símaleynd

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Ég geng út frá, að nú muni öllum ljóst, að þetta mál sé ekki til lykta leitt með því, sem hæstv. forsrh. hefir lýst yfir. Í sambandi við yfirlýsingar hæstv. forsrh. vil ég spyrja hann að því, hvort ég hafi ekki skilið rétt, að hann hafi gefið fyrirheit um að áfrýja til hæstaréttar úrskurðum lögreglustjóra um að rjúfa símaleyndina almennt, en ekki aðeins úrskurðunum, sem snerta hlustunina vegna áfengisbrotanna. Verði þetta gert, þá játa ég, að það er fullnægt þeim óskum, sem ég bar fram við fyrri umr. um þetta mál, að ekki væri aðeins áfrýjað úrskurðinum frá í apríl, heldur og úrskurðunum, sem kveðnir munu hafa verið upp vegna hlustunar í bílstjóraverkfallinu.

Þá vildi ég benda á, að mér þykir alllævíslega til orða tekið í þessari dagskrártill., og mér þykir leitt að heyra, hve lævíslega og óviðeigandi aðferð hæstv. atvmrh. notaði hér í kvöld við málflutning sinn, þar sem hann var að geta það í skyn, að þetta símahlerunarmál hefði verið flutt inn í þingið vegna uppljóstrunar þeirra, sem átt hefir sér stað hér í vetur um ólöglegar aðvaranir til veiðiskipa, til þess að þau gætu stundað veiðar í landhelgi. Þetta og því líkt er óhæfilegar og óviðeigandi dylgjur, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Þessar sömu dylgjur koma og fram í upphafi dagskrártill. og mun þeim vera ætlað að villa mönnum úti í frá sýn um hin réttu tildrög málsins í þinginu. Ég segi „mönnum úti í frá“, því að ég býst við, að hv. 1. landsk. viti það ofurvel, að honum tekst ekki að glepja mönnum hér í Reykjavíkurbæ sýn hvað þetta snertir, og því ætli hann að reyna, hvað honum tekst með fólk, sem ekki hefir haft eins gott tækifæri til þess að kynna sér og fylgjast með hinum rétta gangi málsins eins og þeir, sem nær búa.

Þá er annað atriði, sem ég vil drepa á. Það er eins og það felist einhver grunur í dagskrártill. um það, að betra sé að fara varlega í fullyrðingunum. Þó eru rökin flutt í mörgum liðum, og sum þeirra tóm reginósannindi, sem telja verður djarft að flytja í rökst. dagskrártill. Einn liður er þar, sem mun eiga að ná til framtíðarinnar, þar sem segir svo, að þáltill. verði að teljast óþörf, með því að símaleyndin hafi aldrei verið rofin síðan núv. stjórn tók við völdum, nema með dómsúrskurði. Í þáltill. okkar er ekki aðeins átt við það, að rannsaka þurfi, hvort símaleyndin hafi verið rofin vegna símtalanna, heldur að það þurfi að rannsaka, hvort símaleyndin hafi verið almennt rofin. Það liggur nfl. sterkur grunur á því, að það hafi ekki aðeins verið hlerað á símtöl manna, heldur og að símskeytaleyndin hafi verið rofin líka. Enda hefir hæstv. atvmrh. ekki neitað, að slíkt hafi átt sér stað. Hæstv. dómsmrh. segir bara það, að hann hafi ekki gefið fyrirskipanir um slíkt. En það þýðir bara ekkert fyrir hæstv. ráðh. að segja þetta, því að allur almenningur í bænum veit of mikið um þetta til þess að trúa þessum ummælum ráðherrans. Enda býst ég við, að það, sem hæstv. ráðh. hefir gert hvað þetta mál snertir, hafi þann gert með ráðnum hug, en ekki óviljandi.

Ég held, að það sé röng og óviturleg afstaða, sem hæstv. stjórn tekur í þessu máli, ef hún og fylgismenn hennar neita um þá rannsókn, sem farið er fram á í þáltill. Og ég trúi ekki fyrr en í síðustu lög, að hún geri slíkt. Þegar verið var að ræða um verksvið hinnar svonefndu skipulagsnefndar í atvinnumálum, Rauðku sem kölluð hefir verið, þá þótti ekki annað fært en gefa henni vald til þess að fara inn á einkarekstur manna og athuga hann eftir vild; en hér er aðeins um það að ræða, að gefa þingnefnd vald til þess að athuga, hvort framið hafi verið brot gegn almenningi Reykjavíkurbæjar, með því að hlera á einkasamtöl manna og skoða almenn skeyti. Verði þessu neitað af hinum sömu mönnum, sem gáfu skipulagsnefnd atvinnumála alræðisvald til þess að ganga inn á einkalíf manna, hlýtur að vakna grunur um það, að hér sé eitthvað bogið á bak við hjá hæstv. stjórn. Og grunurinn hlýtur að myndast við það, þegar hæstv. forsrh. heldur því fram, að það reki á engan hátt meiri nauður til þess að rannsaka, hvort símaleyndin hefði verið rofin, heldur en rannsaka það, hvort bréfaleyndin hafi verið rofin. En þetta er bara alveg út í loftið hjá hæstv. ráðh.: hér er alls ekki um neitt sambærilegt að ræða. Það hefir ekkert heyrzt um það, að stj. hafi látið brjóta upp bréf borgaranna, eins og hún hefir látið hlusta í síma þeirra. Ef nokkuð slíkt hefði heyrzt, myndi hafa verið farið fram á rannsókn á því líka. Það eina, sem ég hefi heyrt í þessa átt, er það, að hér í Reykjavík hafi verið reynt að gegnumlýsa bréf, og þá til þess að athuga, hvort sendir væru út úr landinu íslenzkir peningaseðlar, en mikil brögð munu þó ekki hafa verið að þessu. Það er því ekki viðeigandi af hæstv. ráðh. að bera þetta tvennt saman.

Að síðustu vil ég svo segja þetta, að mér finnst það furðulegt af hæstv. ráðh. og stuðningsmönnum stj. yfirleitt, að þeir skuli hugsa sér að afgr. þáltill. okkar með jafnrotinni og órökstuddri dagskrártill. eins og hér virðist eiga að gera.