30.03.1936
Sameinað þing: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3173)

62. mál, raforkuveita frá Soginu

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. flm. þessarar þáltill. kvað svo að orði, að rannsóknir þær, sem þegar hafa verið gerðar um möguleika fyrir því að leggja línur út frá Sogsvirkjuninni, væru lauslegar bráðabirgðarannsóknir, sem væri lítt á byggjandi, og bar hann þar fyrir sig umsögn fræðimannanna sjálfra, sem rannsóknina framkvæmdu. — Ég hefi nú kynnt mér þetta atriði sérstaklega af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst sökum þess, að þingmenn Árnesinga sneru sér til mín snemma á þinginu, einmitt með það sama atriði, sem þáltill. fjallar um. Í öðru lagi hafa komið fram tilmæli frá sýslunefndum Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um, að rannsókn yrði látin fara fram á virkjun Andakílsfossanna fyrir þessi héruð, og sömuleiðis athugaðir möguleikar fyrir því að leiða raforku til þessara byggðarlaga frá orkuveri Sogsins.

Nefnd þá, sem skipuð var á sínum tíma til þess að athuga raforkuveitur til almenningsþarfa, skipuðu þeir: Vegamálastjóri, Steingr. Jónsson rafmagnsstjóri, Sigurður Jónasson, Sigurður Kristinsson forstjóri og Jón sál. Þorláksson. Auk þeirra starfaði svo í n. Jakob Gíslason rafmagnsverkfræðingur. Skýrsla sú, sem n. þessi skilaði 1931, er að mörgu leyti ýtarleg, og hygg ég, að sá grundvöllur, sem þar er lagður, verði sá grundvöllur, sem byggja verður þessar rannsóknir á.

Það er rétt hjá hv. frsm., að þeim línum, sem til greina geta komið, er í áliti n. skipt í tvo flokka. Fyrst eru taldar þær línur, sem n. telur, að geti staðið undir sér sjálfar. Í 2. flokki eru aftur taldar þær línur, sem hún telur, að ekki geti staðið undir sér sjálfar, a. m. k. ekki til að byrja með. Þær línur, sem n. telur, að geti borið sig sjálfar, eru:

l. Línan frá Rvík til Hafnarfjarðar, sem áætlað er, að kosti 180 þús. kr.

2. Lína til Akraness, sem gert er ráð fyrir, að kosti að meðtalinni spennistöð í Mosfellssveit 290 þús. kr.

3. Lína fram á Reykjanes, sem á að kosta 520 þús. kr.

4. Lína til Eyrarbakka og Stokkseyrar, sem áætluð er 264 þús. kr., og loks

5. Lína til Vestmannaeyja, sem ætlað er, að kosti 1666 þús.

Alls eru þessar fimm línur áætlaðar á 2920 þús. króna.

Ég hefi nú rætt um þetta við vegamálastjórann, sem var formaður þessarar nefndar, og telur hann, að vegna verðbreytinga frá 1931 verði nokkrar breyt. frá þessari áætlun óumflýjanlegar, en gerir jafnframt ráð fyrir, að aðalgrundvöllurinn standi.

Nú ber svo til, að samkv. lögum frá 1932, sem sett voru eftir að n. skilaði áliti sínu, er vegamálastjóra beinlínis falið að rannsaka og gera heildartill. um raforkuveitu til almenningsþarfa, svo samkv. ákvæðum þessara laga er haldið áfram þessari fyrirhuguðu rannsókn, eins og ég drap á áðan.

Þá segir og í 3. gr. þessara laga, að jafnóðum og starfinu miði áfram skuli vegamálastjóri leggja skýrslur og áætlanir fyrir atvinnumálaráðuneytið, og að ráðh. sé heimilt að skipa fimm mann raforkunefnd, sem starfi kauplaust, ríkisstj. til aðstoðar í þessum efnum.

Eins er ætlazt til þess, að vegamálastjóri og fastlaunaðir starfsmenn hans vinni kauplaust að þessu, og er það að sumu leyti hentugt, því á vetrum er hægt fyrir hann að sjá af nokkru af mönnum sínum, og einn af verkfræðingunum hefir annazt um þetta.

Þetta er þá í stuttu máli það helzta, sem ég get upplýst og gert hefir verið.

Þá skal ég víkja að þáltill. sjálfri. Svo er til ætlazt samkv. l. lið hennar, að framkvæmdar séu rannsóknir og gerðar áætlanir og till. um hentugustu raforkuleiðir frá orkuveri Sogsins til byggðarlaga, þar sem rafveita þaðan helzt gæti komið til framkvæmda, svo sem nálægra þéttbýlla sveita, næstu kauptúna o. s. frv. Ég hygg, að það sé óhætt að segja, að þessum rannsóknum samkv. 1. lið till. sé að langmestu leyti lokið, eins og ég sagði áðan.

Viðvíkjandi Suðurlandsundirlendinu er talað um þrjá möguleika fyrir því, hvernig línan skuli liggja. Um hinar línurnar er ekki, að ég hygg, málum blandað, hvernig þær skuli liggja. Það skapast af sjálfu sér. Þó er rétt að geta þess um Akraneslínuna, þegar talað er um, hvort hún eigi að ná upp í Borgarfjörð og hve langt upp í héraðið, t. d. til Borgarness, þá fellur það undir þær línur, sem n. taldi, að ekki gætu orðið sjálfstæðar og mundu því koma í annari röð.

Þá er 2. liður till. að rannsaka og gera áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað raforkuveitu um þau svæði, er áætlanirnar ná til. Skal þar bæði veitt heildaryfirlit um kostnað raforkunnar í þessum byggðarlögum, og jafnframt, svo sem verða má, sýnt, hve raforkan mundi verða dýr hinum einstöku heimilum að stofnkostnaði og í notum. Skal það skýrt, hve mikil raforka er áætluð hverju heimili og til hverra nota. — Sú áætlun, sem hér er talað um, liggur fyrir, en eins og ég sagði áðan, þá þarf að endurskoða hana, en það er hægt að gera samkv. þeim lögum, sem til eru, og verður gert án þessarar þál.

En það er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem þörf er á að athuga, en á það er ekkert minnzt í till. sjálfri, og aðeins lauslega á það drepið í framsöguræðu, og það er fyrirkomulag starfrækslunnar á þeim svæðum, sem fengju rafmagn frá Sogsvirkjuninni. En þar getur verið um fleiri en eina leið að ræða, og það þarf að athuga vandlega, hver leiðin yrði heppilegust. Það mætti að mörgu leyti telja einföldustu og heppilegustu leiðina, að ríkissjóður seldi rafmagnið fyrir ákveðið verð kwst. frá spennistöð — annaðhvort frá aðallínu eða aukalínu — til hlutaðeigandi svæða, sem gætu orðið misstór, eftir því hvort selt væri frá 20 þús. volta spennu eða frá einstakri línu. Hinsvegar er því ekki að leyna, að ef línan liggur um dreifð býli, — lítil þorp eða sveitir —, þá gæti orðið erfiðleikum bundið að koma þessu við, og þarf þá að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að selja beint til notenda. — Ég hefi aðeins drepið á þetta til þess að sýna, að þetta er eitt af því, sem nauðsynlegt er að athuga.

Að því er snertir till. sjálfa eins og hún liggur fyrir, þá vil ég geta þess, að ég er ekki viss um, að það sé vert að fastákveða það, að þessari rannsókn — eða endurskoðun á áætlun — sé hraðað svo, að fullkomin endurskoðun hafi verið framkvæmd áður en reglulegt Alþingi 1937 kemur saman. Ef þessi áætlun væri fullgerð 1937, t. d. að þessar línur, sem áætlunin væri bundin við, gætu borið sig, og gert væri ráð fyrir, að þær kostuðu um 3 millj. króna, þá væri sú áætlun auðvitað miðuð við, að framkvæmdir færu fram þá þegar eða við óbreyttar aðstæður og óbreytt verð. Nú færi það eftir því, hvort og að hve miklu leyti væri hægt að ráðast í framkvæmdir, hvort þessi áætlun gæti raunverulega staðizt, og ég get sagt það alveg hispurslaust, að ég tel ekki, að útlitið sé þannig, að 1937 verði hægt að hrinda af stað framkvæmdum á því að leggja þær línur, sem kynnu að geta staðið sjálfstæðar. Sé svo farið að reikna út kostnaðinn af þessum línum, en því verði síðan slegið á frest að leggja þær, þá þarf að gera alla reikninga á ný áður en hafizt er handa um framkvæmdir, og má þá heita, að verkið sé unnið fyrir gíg og hafi í för með sér tvöfaldan kostnað. Hinsvegar er það rétt að fá sem nákvæmastar upplýsingar um allt, sem fyrir hendi er um afstöðu svæðanna og annað, sem að verkinu lýtur, og gera svo reikninga og áætlanir samkv. þeim upplýsingum, þegar útlit er á að fært sé að hefja framkvæmdir. — Ég held, ef búið væri að gera allar kostnaðaráætlanir fyrir 1937, þá yrði það til þess, að óhjákvæmilegt væri að gera mikið af þessu undirbúningsstarfi tvisvar, og það mundi vitanlega leiða til mjög aukins kostnaðar.

Ég tel ekki ástæðu til að taka fleira fram um málið að svo stöddu. Eftir atvikum álít ég bezt viðeigandi að vísa málinu til ríkisstj., og hún mun hlutast til um, að þessar rannsóknir verði framkvæmdar, að svo miklu leyti sem ástæða er til, fyrir 1937.