30.03.1936
Sameinað þing: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

62. mál, raforkuveita frá Soginu

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Hæstv. atvmrh. tók þessu máli að engu leyti óvingjarnlega, eins og vænta mátti. En nokkuð af því, sem hann sagði í sambandi við það, gefur mér tilefni til frekari umræðu. — Hann átaldi það fyrst og fremst, að ég hafði kallað skýrsluna frá 1931 bráðabirgðaskýrslu. Ég man ekki, hvaða orðum ég nefndi hana, en það er víst, að ég hvorki gerði né vildi nefna hana óvirðulegum nöfnum, því hún er gerð af hinum færustu og beztu mönnum, en það er játað af þeim sjálfum, að hún sé einungis bráðabirgðaskýrsla, og nær gat ég ekki farið en að hafa þeirra eigin játningu um það. Þegar ég leitaði til þessara lærðu manna, hvöttu þeir til ýtarlegri rannsókna og endurskoðunar í viðbót við það, sem fyrir lægi í þessum efnum.

Þegar hæstv. atvmrh. vék að hinum einstöku liðum þáltill., þá sagði hann, að hvað snerti 1. liðinn, um hentugustu raforkuveituleiðir, þá væri þeirri rannsókn að mestu lokið. Ég skal játa það, að samkv. fyrri skýrslum, þá er sú rannsókn lengst komin. Það hafa verið gerðar ýtarlegar mælingar og áætlanir um leiðslustæði og kostnauð og annað þess háttar. En með tilliti til þess, að það breytist nokkuð nú á líðandi árum um íbúatölu og að kannske geta komið fram nýjar skoðanir um það, hvaða leiðir séu heppilegastar, þá er a. m. k. ekki verra að taka þennan lið með í till.

Hæstv. atvmrh. sagði um 2. lið till., um stofn- og rekstrarkostnað raforkuveitunnar, að full ástæða væri til að endurskoða þetta, og erum við því alveg á sama máli um það. En hann sagði, að þetta mætti vel gera án þess að samþ. þessa þáltill., — það mætti eins vísa málinu til stj. En ég verð að segja það, að ég álít það sitt hvora meðferð, að samþ. till. eða vísa þeim til stj. Það, að vísa málum til stj., er nefnilega í meðvitund manna yfirleitt sama og eyðing eða að þeim sé stungið í góðlátlegan svefn. Það er hin venjulega skoðun á þessari þingmeðferð málefna, nema alveg sérstakt gefið tilefni sé fyrir hendi til framgangs málinu, sem brýtur í bág við framkvæmd till. eins og hún liggur fyrir. En sú sérstaka ástæða er ekki nógu rík fyrir hendi hér, þar sem það er m. a. játað af hæstv. atvmrh., að eitt meginatriðið í þessari till. — um stofn- og rekstrarkostnað — þurfi að endurskoðast.

Þá sagði hæstv. atvmrh. það um 3. liðinn, að sér fyndist vanta í hann það, sem mestu skipti, en það væri fyrirkomulag rekstrarins. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að fyrirkomulag rekstrarins er mikils virði, og má sízt vanta, en ég tel ákveðið, að 3. liðurinn lúti einmitt að þessu, þar sem hann segir: „Kostnaðartilhögun að því er snertir stofnun slíkrar rafveitu, rekstur hennar, styrkþörf o. s. frv.“ Ég legg þá merkingu í gr., að þarna sé verið að biðja um undirbúning og rannsókn á því, sem hæstv. ráðh. segir mjög réttilega, að rannsaka þurfi.

Ég ætla þá ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hefi sagt um það álit mitt, og ég álít, að það renni sterkar stoðir undir till., því þó almenn lög um raforkuveitu til almenningsþarfa frá 1932 séu fyrir hendi, þá veit ég ekki, hvort hægt er að treysta því, að það verði gert sérstaklega mikið í krafti þeirrar lagasetningar.