30.03.1936
Sameinað þing: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

62. mál, raforkuveita frá Soginu

Magnús Torfason:

Ég kveð mér ekki hljóðs sökum þess, að ég ætli mér að fara út í þetta mál almennt; ég ætla mér aðeins að fara um það nokkrum orðum frá sjónarmiði Árnesinga. Það er síst, að áhugi fyrir þessu máli hefir aukizt þar austur frá með ári hverju, og það er einnig vitað, eins og fram hefir komið í skjali, sem sent hefir verið hingað til Alþ., að það er mjög ákveðin krafa Árnesinga, að þeir geti sem fyrst notið þessarar Sogsvirkjunar. Og það er sannarlega ástæða til þess. Það getur ekki verið skemmtilegt fyrir Árnesinga að horfa upp á það, að þessi aflgjafi, sem þarna er, veiti krafti sínum til annara héraða og lýsi þar upp og hiti híbýli manna, meðan þeir sjálfir verða að sitja í myrkrinu og kuldanum. Og eins og menn geta nærri, þá hefir ekki dregið úr þessari hugsun síðastl. vetur, í þeim miklu frostum, sem þá gengu yfir land allt. Ég er líka alveg sömu skoðunar og menn þar eystra, að það sé hart og jafnvel gangi hneyksli næst, ef það hérað, sem aflgjafinn er sóttur í, á að fara varhluta af þeim gæðum, sem Sogsvirkjunin veitir út um landið. Og það er því fremur ástæða til þess, að þeir líti svo á, þar sem það virðist samkv. síðasta manntali, að flótti fólksins úr héraðinu sé nú loksins stöðvaður. Það er í fyrsta sinn í fyrra um 15 ár, sem fólkinu hefir fjölgað í Árnessýslu, og eftir því, sem mér er kunnugt um af skýrslum, sem komnar eru til mín fyrir árið 1936, þá heldur sú fjölgun áfram. Þetta er ekki nema eðlilegt. Það hefir verið mikið gert fyrir sýsluna, og menn byggja á því á ýmsan hátt. Yfirleitt er þar mikill áhugi vaknaður og framkvæmdir hafnar til þess að ausa úr þeim mesta nægtabrunni landsins, sem Árnessýsla vitanlega er.

Í umr. um þetta mál hefir eiginlega ekki komið nema tvennt fram, sem ég vildi athuga. Annað er hin svokallaða meðalverðstill. frá hv. 2. þm. N.-M. Ég tel hana afaríhugunarverða, en ég býst við, að það þurfi að athuga hana mjög vel, áður en nokkurt tillit er tekið til hennar. — Hitt atriðið var það hjá hæstv. atvmrh., þar sem hann hafði það á móti till., að ef þessar rannsóknir, áætlanir og tillögur ættu að vera undirbúnar fyrir Alþ. 1937, þá gæti þetta orðið tvíverknaður, því hann byggist ekki við því, að hafizt yrði handa á árinu 1937. Ég get vel skilið hans hugsun hvað þetta snertir, og það því fremur, sem bæði ég og aðrir, sem áhuga hafa haft fyrir þessu máli, hafa litið svo á, að ekki mundi koma til mála, að snert væri á þessum aukalínum fyrr en eftir að aðallínan væri komin á og rafmagnsveitan til Reykjavíkur fullkomlega opnuð, en eins og við vitum, á það fyrst að vera 1937. Ég ætla því að leyfa mér að koma með skrifl. brtt. um það, að í staðinn fyrir 1937 komi 1938. Ég hygg, að með því sé engu sleppt, en hinsvegar orðið við tilmælum hæstv. atvmrh. í þessu efni.

Það hefir komið hér fram till. um að vísa málinu til stj. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hefi fullt traust á stj. hvað þetta snertir og ég tel, að það hefði varla þurft að koma fram slík till. sem þessi. En hinsvegar virðist mér, úr því till. er nú fram komin, að það sé eins og heldur til að draga úr málinu, ef hún er ekki samþ. En ég skal taka það skýrt fram, að í þessu á ekki að felast neitt vantraust til ríkisstj. af minni hálfu, heldur aðeins það, að með þessari till. sé lögð áherzla á málið og því haldið vakandi.