31.03.1936
Sameinað þing: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

76. mál, landhelgisgæzla á Faxaflóa og Snæfellsnesi

*Flm. (Pétur Ottesen):

Okkur flm. þessarar þáltill. var það fullkomlega ljóst, þegar við bárum hana fram, að það yrði hvergi nærri fullnægt þeirri þörf, sem er fyrir gæzlu veiðiskipa og landhelgi við Faxaflóa með því að ætla aðeins einum bát að annast hana. En með tilliti til þess, að það er svo víða umhverfis landið þörf á aukinni landhelgisgæzlu, þá vildum við ekki ganga lengra í kröfum okkar en það, að einn varðbátur væri byggður fyrir Faxaflóa, hinsvegar ætlumst við fyrst og fremst til þess, að það verði sá bátur, sem fyrst verður byggður fyrir andvirði Óðins. — Það er náttúrlega alveg rétt, að einn bátur fullnægir ekki þörfinni, en úr því verður að bæta í framtíðinni, og við vonum, að þess verði ekki langt að bíða, að aukið verði við það, sem í þessari till. felst.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að það yrði að vísa þessari till. til n. Ég hafði nú ekki gert neina till. um það, og þar sem hæstv. forsrh. hefir nú lýst því yfir, að fyrsti varðbáturinn yrði byggður til gæzlu við Faxaflóa, og að honum muni verða hagað eftir því, sem við höfum farið fram á, þá fellum við okkur vel við það, og sé ég því ekki ástæðu til að vísa till. til nefndar.

Það hefir komið fram brtt. við þáltill. frá hv. þm. Snæf., þess efnis, að báturinn verði einnig látinn gæta landhelginnar fyrir Snæfellsnesi. En okkar till. felur það í sér, að því er snertir landhelgina við Snæfellsnes að sunnan, og þó að sú gæzla verði látin ná eitthvað lengra meðfram því, þá sé ég ekki ástæðu til að hafa neitt á móti brtt. eða amast við henni.

Ég sé enga þörf á því að breyta orðalagi þáltill., að öðru leyti en því, sem felst í brtt. hv. þm. Snæf., er við flm. getum eftir atvikum fallizt á. Ég vil því vænta þess, að till. okkar geti fengið sem skjótasta afgreiðslu á þinginu, þar sem ekki mun vera þörf á frekari töfum en þeim, að um hana verði hafðar tvær umr. eins og hæstv. forseti hefir ákveðið. Vona ég, að við það megi sitja.