05.05.1936
Neðri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

77. mál, síldveiði í Faxaflóa og fyrir suðurströnd landsins

*Finnur Jónsson:

Þessi till. til þál. er á algerðum misskilningi og vanþekkingu byggð; þar sem því er haldið fram, að Faxaflói sé sérstaklega vel fallinn til matjesverkunar, þá kemur þetta, því miður ekki heim við nein þau ummæli, sem ég hefi fengið í hendur, hvorki frá þeim, sem hafa aðstöðu til að þekkja til og rannsaka þetta mál, né heldur frá þeim, sem hafa keypt þessa síld í nokkru landi.

Það vill svo vel til, að síldarútvegsnefnd ákvað í janúarmánuði að senda mann út í því skyni að rannsaka sérstaklega möguleika fyrir sölu og verkun Faxaflóasíldar. Það var Magnús Vagnsson, trúnaðarmaður síldarútvegsnefndar. Hann tók sér ferð á hendur þ. 13. jan. síðastl. og kom til Englands 20. jan. Dvaldi hann í Englandi, Þýzkalandi, Danzig, Póllandi og Svíþjóð, þar til 19. marz, að hann lagði af stað heim á leið. Þessi maður hefir athugað svo gaumgæfilega sem framast er unnt og af þeirri þekkingu, sem hann hefir sem síldveiðimaður og síldarmatsmaður, ég ætla í 20–25 ár. Og hans álit er það, að Faxaflóasíld sé alveg óhæf til matjessöltunar. Þetta álit sitt hefir Magnús byggt á shlj. áliti allra hinna stærstu kaupenda að Faxaflóasíldinni, í Þýzkalandi, Danzig, Póllandi, Danmörku og Svíþjóð, á síðastl. hausti. Ég kemst ekki hjá því að fara nokkru nánar út í þau ummæli, sem þessir stærstu síldarkaupendur hafa um Faxaflóasíldina.

Eftir að Magnús Vagnsson hafði verið í Englandi og kynnt sér mjög rækilega möguleika fyrir sölu Faxaflóasíldar til Englands, fór hann til Þýzkalands og átti fyrst tal við einhvern okkar stærsta síldarkaupanda í Hamborg. Nöfn kaupendanna eru í skýrslu hjá mér. En þar sem mikið af þessum viðtölum voru einkaviðtöl, sé ég mér ekki fært að birta þau í þingi, en mun að sjálfsögðu láta hv. sjútvn. í té þessa skýrslu, ef málinu verður vísað til hennar.

Þessi stærsti kaupandi okkar í Þýzkalandi segir um þessa matjessíld, að menn hafi orðið fyrir vonbrigðum af henni. Um 8. febr., þegar viðtalið fór fram, lágu um 5 þús. tunnur í Hamborg, og myndu allir, sem ættu, tapa meira og minna, eftir birgðum.

Annar stór kaupandi að Faxaflóasíld í Hamborg, sem hafði orðið fyrstur til að kaupa þessa síld í stórum stíl, seldi hana allt hvað af tók, fyrst við góðu verði (52–55 RM.) og losnaði við meiri hl. áður en hinir fengu síldina almennt. En þegar þeir seldu 5 mörkum lægra, þá rigndi kvörtunum um það, að síldin væri misjöfn og mögur. Og hann taldi kvartanirnar á rökum byggðar. En um þær hefði verið þagað, ef ekki hefði orðið áframhaldandi framboð við lægra verði.

Niðurstaðan af þeim tilraunum að reyna að selja þessa síld sem íslenzka matjessíld, var sú, að seljendur fengu mjög sárar kvartanir yfirleitt yfir vörusvikum. Þeir, sem bera yfirleitt nokkurt skyn á þetta mál, vita það, að hrogn og svil í matjessíld eiga að vera mjög lítið þroskuð. En Faxaflóasíldin er einmitt með mjög þroskuð hrogn og svil, er komin að því að hrygna eða hefir nýlega hrygnt og er algerlega ófær til matjessöltunar.

Þá vil ég leyfa mér að vitna í ummæli þriðja stóra kaupandans í Þýzkalandi, sem er mjög armæddur yfir Faxaflóasíldinni og taldi matjessíldinni stafa af henni alvarleg hætta, bæði vegna þess, að innflytjendur myndu vera hræddir við, að ofan á góða Norðurlandsveiði komi Faxasíldin. Kaupmenn mundu verða ragir við að birgja sig upp með dýra matjes vegna hræðslu við ódýra Faxa, sem, þótt hún sé alls ekki matjes, sé þó all nokkru leyti notuð í sama (reyk), og ekki of ólík til þess að óhlutvandir kaupmenn (úti á landi) gerðu ekki tilraunir með að selja hana sem matjes. Faxa er seld sem íslenzk síld. Fólk veit ekki um aðra Íslandssíld en matjes, en lætur glepjast í bili, en það hefir sín áhrif seinna. Helzt vildi hann aldrei sjá Faxa.

Þá er 4. stóri þýzki kaupandinn. Hann hélt því fram, að innflytjendur mundu verða hræddir við Faxa og vilja sjá, hverju fram færi um veiði hennar eða aðgerðir síldarútvegsnefndar viðvíkjandi Faxasíld, áður en þeir þyrðu óhræddir að birgja sig upp með sumarmatjes. Sá sami maður sagði líka, að Faxasíld mundi spilla sölu septembersíldar að norðan.

Þá er 3. kaupandinn. Hann átti óselt talsvert af Faxa, sem hann bjóst við að tapa á.

Þá talaði Magnús Vagnsson einnig við 6. kaupandann, síldarniðursuðuverksmiðju í Þýzkalandi. Kom þá upp úr kafinu, að verksmiðjan hafði reynt að selja Faxa, eins og annar kaupandi, sem hann átti tal við á sama degi, en báðum gekk illa, segir í skýrslunni.

Enn átti Magnús Vagnsson tal við einn af stærstu kaupendum okkar í annari borg Þýzkalands, sem stóð til að gera samninga við um 15 þús. tunnur matjessíldar á síðastl. sumri. Um þetta segir Magnús: Ég gerði margar tilraunir til að vekja áhuga hans á Faxasíld, en það gekk illa. Sagðist vilja reyna með hana, ef hún væri prima feit og sorteruð vandlega, — þá ýmist kverkaða eða rundsaltaða. Sagði þó, að hann hefði ekki trú á mikilli sölu á Faxa nema fyrir sama verð og norsk stórsíld. Þessi kaupandi hafði fengið 200 tunnur af Faxasíld, og bjóst við að eiga 50 tunnur af því lengst eigna sinna. Hún var sorglega mögur og ljót.

Þá er lokið ummælum hinna þýzku kaupenda um Faxaflóasíldina, en það eru held ég allir, sem hafa keypt svo að nokkru hefir numið af íslenzkri matjessíld á undanförnum árum.

Eftir að M. V. hafði dvalið alllengi í Hamborg, fór hann til Danzig og Gdynia og átti þar tal við síldarkaupendur. Sá fyrsti sagði, að Faxasíld hefði hann ekki keypt né séð, en þekkti af afspurn. Taldi hana ekkert erindi eiga til Póllands nema greinilega auðkennda frá matjes, með auknu salti, þó ekki of miklu, sorteraða „fulla“ og fyrir líkt verð og norsk „Sloefull“. Sagði hann, að árleg þörf fyrir „Sloefull“ í Póllandi væri um 10 þús., svo ekki væri eftir miklu að slægjast, enda hættulegt að senda matjessíld til Póllands, eins og síðasta haust, því að hún hefði verið boðin og seld sem matjes þar. En það taldi hann spilla mjög mikið fyrir matjessíldarmarkaðnum.

Um þann mesta stórkaupanda í Danzig, sem Magnús átti tal við, er það að segja, að hann er sammála þeim fyrsta um Faxasíldina. Sá þriðji, sem einnig er einn af stærstu kaupendunum í Danzig, hafði heldur engun áhuga fyrir Faxasíld og áleit, eins og hinn, að hún mundi aðeins spilla fyrir hinni ekta íslenzku matjessíld.

Þá kem ég að Gdynia. Þar keypti einn maður 1–2 þús. tunnur. Var sá sár yfir Faxasíld sinni, hvað hún hafði verið harðsöltuð og vont „kvalitet“. Ég spurði hann, segir M. V., hvort hann hafi átt von á, að hún væri eins og matjessíld. Hann sagðist hafa átt von á, að hún væri linsöltuð og mjúk, en játaði þó, að haust- og vetrarsíld, hvar sem væri, væri stinn og verri síld. Hann sagði, að varan ætti ekki meira hrós skilið en norsk Sloefull. Kvað hann sérstaklega hættulegt að framleiða Faxa ofan á góða matjesveiði, en hafði ekki á móti að fá góða Faxasíld fyrir lægra verð í vondu veiðiári.

Eins og menn heyra á ummælum þessara síldarkaupenda, hefir Magnús Vagnsson gert sér mikið far um að fá kaupendur til að segja sem allra bezt kost og löst á vörunni, — þá menn, sem um tugi ára hafa safnað reynslu í þessu efni.

Enn átti Magnús tal við þann mann, sem mest hefir selt af íslenzkri síld í Póllandi á undanförnum árum. Segir í skýrslu Magnúsar, að álit þessa manns sé í engu frábrugðið né annað en þeirra, sem hann talaði við í Danzig og Gdynia, og því óþarfi að endurtaka það.

Eftir að hafa dvalið nokkurn tíma í Danzig og Gdynia fór Magnús Vagnsson til Kaupmannahafnar og átti tal við þá tvo menn, sem hafa mest haft með sölu íslenzkrar síldar að gera þar á síðastl. ári, og tilfærði þau ummæli, sem í engu fara í bága við þau ummæli annara kaupenda, sem ég hefi getið um. Annar þessara kaupenda sagði um Faxasíldina, að hún mundi liggja eins og mara á kaupendum næstu vertíð, og sagði, að til þess að þeir óhræddir gætu keypt norðansíldina, þyrftu þeir að fá vissu fyrir, að ekki yrði dembt á þá Faxasíld ofan á venjalegan útflutning af norðansíld. Hinn maðurinn kvaðst vera sömu skoðunar og ekki hafa áhuga á því að kaupa Faxaflóasíld.

Þá fór Magnús Vagnsson til Svíþjóðar. Fyrsti síldarkaupmaður, sem hann átti tal við, sagðist ekki telja rétt að senda Faxaflóasíld til Svíþjóðar nú. Annar kaupandi sagðist álíta, að ekki væri rétt að senda Faxaflóasíld til Svíþjóðar, því að hún spillti fyrir, jafnvel þótt hún væri léttsöltuð. Þriðji sagði, að ef fyrningar yrðu, og þá af Faxaflóasíld, leiddi það til þess, að hægt væri að bjóða hana fyrir lægra verð en ella og þar með lækka síldarverðið yfirleitt. Öllum þeim, sem Magnús Vagnsson átti tal við, bar saman um það, að gæði Faxaflóasíldarinnar væru allt önnur og minni en Norðurlandssíldarinnar, sem í mörg ár hefir ein verið seld sem Íslandssíld og er orðlögð fyrir bragð og gæði. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að vitna í norskt bréf um þetta efni. þar sem segir svo, að Faxaflóasíldin muni vera lítt seljanleg, vegna þess hve miklu lélegri hún sé en önnur íslenzk síld, sérstaklega vegna þess hve hún er smá og misjöfn. — Ég get látið þetta nægja, Magnús Vagnsson var á ferðalagi frá því seint í janúar og fram í marz, og reyndi á allan hátt að fá sem óhlutdrægastar upplýsingar um Faxaflóasíldina. Erindi hans var að kynna sér nýja síldarverkun og matsreglur, og loks var honum falið að kynna sér sölumöguleika og verðlag á síld. Eftir upplýsingum hans að dæma tel ég óhætt að fullyrða, að ekki sé hægt að bjóða Faxaflóasíldina sem matjessíld. En þó er ekki þar með loku fyrir það skotið, að Faxaflóasíldin geti orðið útflutningsvara. Magnús Vagnsson kynnti sér í Englandi og Þýzkalandi mjög ýtarlega allt það, sem lítur að meðferð ísaðrar síldar, og hann álítur að Faxaflóasíldin, sem er full með hrogn og svil, geti verið vel fallin til reykingar í Englandi og Þýzkalandi. Því eru mjög miklar líkur til þess, að selja megi Faxaflóasíldina til reykingar í þessi lönd. Skýrsla Magnúsar Vagnssonar er mjög ýtarleg um verðlag síldar í Englandi og Þýzkalandi. Eftir því sem næst verður komizt, er Faxaflóasíldin mjög áþekk hinni norsku „sloefullsíld“, en hún er seld á 15 kr. norskar 110 kg., en nær ekki svipuðu verði og venjuleg Íslandssíld. Það eru því miklar líkur til þess, að Faxaflóasíldin geti orðið útflutningsvara á þann hátt, sem að framan greinir, en allar upplýsingar benda til þess, að stórhættulegt geti verið að senda hana út saltaða á sama tíma og Norðurlandssíldina, og óhlutvandir menn geti með því móti spillt áliti íslenzku síldarinnar yfirleitt og dregið verðið niður.

Það er verkefni út af fyrir sig, og það ekki lítið verkefni, að gera Faxaflóasíldina að útflutningsvöru. En það má ekki gera það þannig, að hún stórspilli fyrir markaði annarar dýrmætrar íslenzkrar vöru, Norðurlandssíldarinnar, heldur á með sölu hennar að keppa við norsku „sloefullsíldina“. En þá má ekki halda því áfram að veiða hana aðeins í reknet, eins og gert hefir verið, heldur verður að nota til þess herpinætur og botnvörpur. Hin aðferðin er allt of kostnaðarsöm til þess að við getum tekið þátt í slíkri samkeppni. En verði teknar upp hentugri veiðiaðferðir og vel að því unnið að afla Faxaflóasíldinni þeirra markaða, sem hún á heima á, þykir mér ekki ósennilegt, að við getum orðið Norðmönnum skæðir keppinautar á þessu sviði og jafnvel borið sigur úr býtum. En auk þess sem við ættum að geta keppt við norsku „sloefullsíldina“ með Faxaflóasíldinni, þykir mér líklegt, að hægt sé að fá markað fyrir hana í New-York á vissum tíma hausts, þegar síldin er full með hrogn og svil. Á hverju hausti eru flutt 30–40 þús. smál. af síld frá Newfoundland til New-York, en þetta er vetrarsíld eins og Faxaflóasíldin. Ég hefi beðið Vilhjálm Þór að athuga þetta mál vandlega. Eftir því sem mér hefir virzt, er þessi síld einmitt mjög áþekk Faxaflóasíld. Það eru því miklar líkur til þess, að gera megi Faxaflóasíldina að útflutningsvöru. En það er á annan hátt en hv. þm. G.-K. og hv. þm. Borgf. ætlast til með þáltill., sinni.

Sú rannsókn, sem farið er fram á í brtt. hv. þm. Ak., hefir þegar farið fram. Hún var framkvæmd þegar í janúar. Ég tel rétt, að síldarútvegsnefnd birti árangur þeirrar rannsóknar, en álít þó réttara að bíða með það, þangað til skýrsla Vilhjálms Þórs kemur.

Ég vil að lokum vara hv. þm. við því að samþ. þáltill. þeirra hv. þm. G.-K. og hv. þm. Borgf. Samþykkt hennar, eða það, sem af henni leiddi, gæti hæglega orðið til að skaða útflutningsverzlun okkar um milljónir króna, og við megum sannarlega við minna á þessum hallæristímum.

Hv. þm. G.-K. var að tala um það, að hann hefði í höndum skjallegar sannanir fyrir því, að Faxaflóasíld væri vel fallin til matjesverkunar. En þar sem allar rannsóknir, sem fram hafa farið, benda í gagnstæða átt, verð ég að efast um, að hv. þm. hafi slík gögn í fórum sínum.