18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

89. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Þessi till. er flutt af samgmn. þessarar hv. d. og er þess efnis að skorað verði á ráðuneytið að breyta ákvæðum tilskipunar 20. nóv. 1932 um eftirlit með skipum og bátum. Till. hljóðar um það, að þessum ákvæðum verði breytt á þá leið, að innfjarðasigling skuli teljast innan línu „Gróttu — Þormóðssker“, en samkv. þeirri tilskipun, sem er í gildi, telst aðeins það innfjarðasigling á Faxaflóa, sem er innan línu „Gróttu — Akranes“.

Það er svo, að samgmn. hefir nú fyrir nokkru borizt erindi frá félagi því, sem annast ferðir um Faxaflóa, á milli Reykjavíkur og Borgarness, h/f Skallagrími í Borgarnesi. Þar er þess farið á leit, að þessum ákvæðum sé breytt þannig, að siglingin milli Reykjavíkur og Borgarness teljist innfjarðasigling. Þetta félag telur sig verða, vegna þess að leiðin telst ekki innfjarðasigling, að bera nokkurn kostnað, sem það ekki þyrfti að bera, ef um innfjarðasiglingu væri að ræða, og telur félagið það óeðlilegt.

Samgmn. getur fallizt á það, að þegar athugað er, hvað sumstaðar annarsstaðar er hér við land talið innfjarðasigling, þá sé það rétt, að svo mikill hluti Faxaflóa, sem hér er farið fram á, sé talinn innfjarða. Skal ég í því sambandi vekja athygli á því, að á Breiðafirði er talin innfjarðasigling innan línu Stykkishólmur-Flatey-Lambanes á Barðaströnd. Þegar þetta er athugað, þá verður það ekki talið óeðlilegt, að þessi hluti Faxaflóa — innan línu Gróttu-Þormóðssker — sé talinn innanfjarðar. — Þetta er ekkert stórmál, en samgmn. virðist eðlilegt, að þessi breyt. sé gerð.

Ég skal taka það fram, að þegar n. tók þessa ákvörðun, var hv. þm. Ísaf. ekki viðstaddur.