18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

89. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Ég skal ekki fara um þetta mörgum orðum. — Það var aðallega tvennt, sem hv. 3. landsk. hafði við þessa brtt. að athuga; í fyrsta lagi það, að verið væri að snuða sjómenn, eins og hv. þm. orðaði það og virtist mér hann telja þetta illt verk, vegna þess að mennirnir væru aðeins þrír. Ég álít það ekki vera að snuða þrjá menn frekar en t. d. þrjátíu, og sé ég ekki, að það séu rök í málinu, að mennirnir, sem snuðaðir eru, séu of fáir. (PÞ: Ég tók það fram, að þetta næði aðeins til þriggja manna). Mér skildist hv. þm. telja það galla á till.

Í öðru lagi sagði hv. þm., að það stæði til endurskoðun á þessari tilskipun. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, að það komi í bága við samþykkt þessarar till., því að hún er um það, að skora á stj. að breyta tilskipuninni, og ef hún vildi láta breyta þessu aftur, þá hindrar þetta það ekki neitt.

Hv. 3. landsk. vildi halda því fram, að með þessu yrði dregið úr öryggi farþeganna á þeim skipum, sem hér er aðallega um að ræða, á leiðinni milli Reykjavíkur og Borgarness. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir athugað það, að í tilskipuninni gilda þrjú ákvæði; í fyrsta lagi er ákvæði um skip, sem annast siglingar almennt meðfram ströndum landsins, og það ákvæði er allstrangt bæði viðvíkjandi farþegum o. fl. Í öðru lagi er öryggisákvæði sérstaklega fyrir strandferðaskip, sem ekki eru lengur en 10 klst. á siglingu í einn. Þetta öryggisákvæði gerir minni kröfur um öryggi, svo að á milli þeirra ákvæða, sem gilda um þetta, og þeirra, sem mundu gilda, ef tilskipuninni yrði breytt, er miklu minni munur en milli núgildandi öryggisákvæða um skip, sem eru 10 stundir í siglingu í senn, og þeirrar öryggisreglu, sem gildir um farþegaskip almennt. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir athugað þetta.

Hann ræddi nokkuð um hina svokölluðu strandferðauppbót, sem yfirmenn skipanna hafa. Þessi uppbót er aðeins samningsatriði milli þessara félaga og skipanna, og hún byggist á því, að yfirmenn á skipum, sem sigla með ströndum fram, verða fyrir mjög miklu ónæði. Um þetta skip, sem hér um ræðir, er þessu ekki til að dreifa, þar sem ferðir þess eru svo stuttar og reglulegar, að yfirmenn þess verða ekki fyrir neinu teljandi ónæði á þann hátt.

Að lokum vil svo ég taka það fram, að mér er það ekki kappsmál, að þetta mál verði ekki athugað nánar.