18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

89. mál, eftirlit með skipum

Páll Þorbjörnsson:

Ég vil segja örfá orð út af því, sem hv. þm. Mýr. sagði, að honum fyndist, að launakjör þessara manna, sem hér um ræðir, ætti að taka fyrir á öðrum vettvangi en þeim, sem gert er ráð fyrir með þessari þáltill. Hv. frsm. málsins upplýsti það hreint og beint í framsöguræðu sinni, að till. kæmi beinlínis fram til þess að losa útgerðina við þann kostnað, sem nú hvílir á henni, og þessi kostnaður er launauppbót þriggja manna á þessu skipi, svo að það er einkennilegt, þegar hv. þm. Mýr. fer að tala um, að það eigi ekki að taka launakjör þessara manna fyrir á þessum grundvelli.

Út af því, að hv. þm. Mýr. hélt því fram, að Laxfoss væri fyrirmyndar fleyta og betri en aðrar fleytur, sem hafa siglt þessa sömu leið, vil ég bara segja það, að skárra væri, ef þetta nýja skip væri ekki eitthvað skárra en það skip, sem var næst á undan í þessum siglingum; en það er samt svo, að það er jafnvel dregið í efa af sumum, að þetta skip sé betra en Suðurlandið var. — Í þessu sambandi vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. Mýr., hvort það sé ekki rétt, að fram hafi farið athugun á skipinu, jafnvel að tilhlutun þess opinbera, og hvort álit þeirra, sem skoðunina frömdu, hafi verið samhljóða áliti hv. þm. sjálfs í þessu efni. Ég hygg, að svo hafi ekki verið.

Mér þætti ekki úr vegi, að þau plögg, sem kunna að vera til um kosti og galla þessa skips, yrðu látin í té þeirri n., sem fær málið til athugunar, til þess að auðveldara sé að skera úr því, hvort heppilegt sé að gefa skipinu heimild til þess að flytja 80 farþegum fleira en núna, án þess að öryggið sé nokkuð aukið.