10.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3265)

119. mál, lax- og silungsveiði

*Jörundur Brynjólfsson:

Það er tæpast tími til þess að ræða þetta mál eins og ástæða væri til, og skal ég því ekki fara langt út í það.

Ég get tekið undir ummæli hv. þm. Borgf., að það séu litlar líkur til, að löggjöf um þetta efni verði undirbúin á þann hátt, að menn geti unað við. Þess vegna tel ég, að lítið þýði að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um þetta efni meðan félagslegur þroski manna er ekki orðinn meiri en hann er og meiri kunnugleikar á laxveiðum og þeim notum, sem af þessum hlunnindum mættu verða, ef rétt væri með farið. Ég hefi sem sé enga trú á því, að með lagaboði sé hægt að fara að eins og till. gerir ráð fyrir, að flokka árnar og fyrirskipa, hvaða veiðiaðferð eigi að viðhafa í hverri á. Það er vandasamt verk, og vandasamara en svo, að það sé á mannanna færi að ákveða það svo að við verði unað.

Sú löggjöf, sem ríkir í þessu efni, gefur mönnum frjálsræði til þess að mynda með sér félagsskap um veiðiaðferð og meðferð ánna. En eftir þeim litlu tilraunum, sem gerðar hafa verið í þessu efni, virðist þetta ekki hafa gengið greiðlega, og ég hefi ekki heldur þá trú, að með lagaboði lánist þetta. Ég veit til þess, að þetta hefir verið reynt dálítið, en þeir, sem við ósana búa, hafa sett svo þrönga kosti, að illa hefir gengið að koma samþykki á. Eigi að síður verð ég að vona, að sú leið reynist happadrýgst þegar til lengdar lætur og menn öðlast skilning á þessum málum. En það eru ekki líkur til, að hægt sé að skipa þessum málum, svo við verði unað, með lagaboði.

Ég viðurkenni fullkomlega ummæli hv. flm. um það, að ádráttur í bergvatnsánum kunni ekki góðri lukku að stýra, og að það sé misnotkun á þeim veiðivötnum að fara þannig að. En það leiðir af því, hvernig veiðin er stunduð við ósana, að svona er farið með bergvatnsárnar, og það er engin leið að halda því að mönnum, sem búa við bergvatnsárnar, að þeir, sem við ósana búa, eigi að sitja að veiðinni. Það bendir sannarlega ekki á, að þeir, sem við ósana búa, hafi mikinn skilning á þessu, þegar þeir sitja svo að veiðinni, að litið kemst upp eftir ánum.

Hv. fyrri flm. beindi til mín þeirri fyrirspurn eða aths., hvort ég gæti ekki um það borið, hvernig væri ástatt með veiðina í bergvatnsánum seinni part sumars. Mér finnst ekki rétt af hv. þm. að sneiða að frændum sínum í Árnessýslu með slíkum getsökum. Það má vera, að hv. þm. hafi heyrt fleiri gróusögur um þetta en ég. En svo mikið er víst, að engar líkur eru færðar fyrir því, að nokkur hafi stundað veiðina á óleyfilegum tíma. En hitt get ég upplýst, að sumir, sem hafa seilzt til veiðanna í ósunum, hafa hagað sér svo, að mestar líkur eru til, að það sé þeim að kenna, að nú í tvö síðustu sumur hefir nær engin branda komið upp í bergvatnsárnar í Árnessýslu. Þeir hafa lagt mörg hundruð metra langa girðingu eftir ánni og frá henni mörg hundruð metra langa afleggjara. Svo fara þeir með þá veiði, sem þeir fá, sem eftir opinberum skýrslum er ekki mjög mikil, eins og hún væri ranglega fengin eða þjófstolin.

Ég held, að bezta meðferðin á þessari till. væri að vísa henni til ríkisstj., í því skyni, að hún sofni þar svefninum langa, þar til málið verður á sínum tíma tekið upp á annan veg en hér er byrjað á.