08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (3297)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Fyrirspyrjandi (Guðbrandur Ísberg):

Ég hefi leyft mér á þskj. 369 að bera fram fyrirspurn til hæstv. utanríkismálaráðh. um það, hvort sagt hafi verið upp viðskiptasamningnum milli Noregs og Íslands frá 17. sept. 1932, og ef svo er ekki, hvort þá megi vænta þess, að svo verði gert á næsta ári.

Þessi samningur, sem var undirskrifaður 17. sept. 1932, var samþ. af þinginu 1933 í apríl. Nú eru því liðin full þrjú ár síðan samningar þessir öðluðust fullt gildi, og það er ekki vitað, að þessum samningum hafi verið sagt upp ennþá, og það er ekki vitað um, hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til þess.

Ég vil benda á, að þegar þessir samningar voru samþ. hér á Alþingi með yfirgnæfandi meiri hl. atkv., hygg ég, að fullyrða megi, að fáir eða engir hv. þm. hafi gert það öðruvísi en með samvizkunnar mótmælum. Þeir töldu það neyðarúrræði, og þess vegna voru samningarnir samþ. á Alþingi, en ekki vegna þess, að þeir væru taldir æskilegir. Þess var ekki heldur að vænta, eins og í pottinn var búið. Ég vil benda á, hvernig þá var ástatt, þegar þessi samningur var samþ., um viðskiptajöfnuðinn milli Íslands og Noregs. Við fluttum þá inn 1/3 meiri vörur heldur en Norðmenn fengu frá okkur, og er þó þar við að athuga, að þær vörur, sem keyptar voru af Norðmönnum, voru keyptar til neyzlu í landinu, en nálega allar vörur, sem Norðmenn keyptu af okkur, að undanteknu kjöti, voru keyptar til þess að selja þær út úr landinu. Í þessum vörum var einnig framleiðsla Norðmanna hér, síldarmjöl og síldarlýsi, sem nam mikilli upphæð. Hér við bætist svo það, að Norðmenn hafa árlega um 3 millj. kr. hagnað af vöruflutningum fyrir Íslendinga. Þetta allt hefði mátt nægja til þess, að Norðmenn hefðu séð sér fært að ívilna í einhverju, sem um munaði, við innflutning á þessari einu neyzluvöru, sem þeir kaupa héðan. En í þess stað hafa þeir sett svo háan toll á kjöt, að það er frágangssök að selja það þangað, og þær einu tilslakanir, sem komu fram af hendi Norðmanna, var nokkur tolllækkun á kjöti, sem fékkst þó með harðneskju. Þóttust Norðmenn gera vel að ívilna á þennan hátt.

Áður en ég fer lengra vil ég undirstrika það, að ég áfellist enga þá menn, er gengu frá samningunum. Ég efast ekki um, að þeir hafi unnið af fullri alúð og komizt eins langt í samningunum eins og yfirleitt var hægt að komast, svo að það út af fyrir sig getur ekki talizt þeim til ámælis, þó að þeir legðu samninginn fyrir í því formi, sem frá honum var gengið, eftir að þeir hafa fullvissað sig um það, að lengra varð ekki komizt. En þegar svo er litið á efni samningsins og það athugað, að hann skapar Norðmönnum mjög mikil fríðindi hér við land, beinlínis í atvinnurekstri, í viðbót við þann hagnað, sem þeir hafa af viðskiptum við okkur, þá er það augljóst, að hér er um nauðungarsamning að ræða frá okkar hendi, og loks þegar hér við bætist, að í samningnum eru ákvæði, sem ganga mjög nærri ýmsum þjóðréttarákvæðum, sem beinlínis snerta sjálfstæði okkar Íslendinga, þá er og var það öllum ljóst, að það var neyðarúrræði að ganga að samningunum, og það, sem á móti kom, voru þessar litlu ívilnanir á tolli. Ég skal ekki segja, hvað þessi ívilnun var mikil, en salan til Noregs mun ekki, þegar umbúðir eru taldar frá, hafa numið meiru en 300–400 þús. kr. á þessu ári.

Það, sem menn gerðu því upp við sig á þinginu 1933, var það, hvort þeir mætu meira þennan 300 þús. kr. útflutning, sem má gera ráð fyrir, að hefði orðið næstum enginn, ef samningarnir hefðu ekki verið gerðir, og það, að leggja Norðmönnum í hendur þau fríðindi, sem gert var með samningnum. En af þeim fríðindum tel ég varða mestu þau þjóðréttarlegu ákvæði, er snerta landhelgi okkar Íslendinga, þ. e. viðdvöl veiðiskipa og athafnir innan landhelginnar, sem almennt eru ekki leyfðar. Ef þetta gilti aðeins fyrir Norðmenn, þá væri um minna að ræða, en ég hefi það fyrir satt, og því hefir verið hreyft opinberlega í blöðum, að önnur þjóð, nefnilega Þjóðverjar, hafi gert svipaðar kröfur og e. t. v. fengið einhverjar af þeim, þannig að þær hafi verið teknar til greina.

Ég skýt því til hæstv. ráðh. að svara því atriði að svo miklu leyti sem hann telur við eiga. Og ég vil í þessu sambandi benda á, að nú munu vera fyrir dyrum viðskiptasamningar við Englendinga, og þá liggur ákaflega nærri að ætla, að einnig þeir muni gera svipaðar kröfur. Þegar svo er komið, þá sjá menn, með hvaða eld er verið að leika sér í þessu efni, því að sjálfstæði okkar, og þá kannske ekki hvað sízt þau ákvæði, er landhelgi okkar varða, ríður okkur á framar öllu að vernda.

Þegar þetta allt er tekið til athugunar, þá mun engan undra, þótt borin sé fram fyrirspurn um það, hvort ekki sé hægt að segja þessum samningi upp. Þess mun öll þjóðin óska, að svo verði gert við fyrstu möguleika.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að í sumar var því opinberlega hreyft í blöðum, og hæstv. atvmrh. hafði þá hreyft því á fundi utanríkismálanefndar, að segja upp þessum samningi. Þau ummæli, ásamt ummælum, sem samtímis komu bæði í Alþýðublaðinu og Nýja dagblaðinu, gáfu sérstakt tilefni til þess að spyrja nánar um það, sem gerzt hefði í málinu.

Ég vænti svo svars hæstv. atvmrh. við þessari fyrirspurn minni, hvort samningnum hafi verið sagt upp nú þegar eða hvort megi vænta þess, að það verði gert á næstunni.