08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3298)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil fyrst leyfa mér að benda hv. þm. á, að fyrirspurninni er ekki allskostar réttilega beint til mín, því að við Íslendingar höfum í raun og veru engan utanríkismálaráðherra, eins og hv. þm. er öllum kunnugt um. Það tíðkast í öðrum löndum, að sérstök skrifstofa í ráðuneytinu fari með utanríkismál, en við Íslendingar höfum enga slíka skrifstofu.

Að því er snertir sjálfa fyrirspurnina, þá hygg ég, að hv. þm. spyrji ekki af því, að hann ekki viti um þetta mál, því að það er eflaust öllum vitanlegt, að ef norsku samningunum hefði verið sagt upp, hefði það um leið verið tilkynnt opinberlega. Ég get samt svarað fyrirspurninni á þá leið, að samningunum hefir ekki verið sagt upp, og í öðru lagi að ekki hefir verið tekin ákvörðun um það, hvort þeim verði sagt upp.

Ég skal ekki fara langt út í ástæðurnar til þess, en aðeins geta um það, sem mestu skiptir, að á milli þeirra flokka, sem standa að ríkisstj., hefir ekki náðst samkomulag. En einmitt milli þessara flokka var mjög mikill ágreiningur, þegar samningarnir voru lögteknir. Hinsvegar hafa flokksmenn hv. fyrirspyrjanda kosið það hlutskipti að komast hjá ábyrgðinni á að taka til meðferðar utanríkismál slík sem þessi.

Ef uppsögn samninganna hefði átt að koma að haldi fyrir síldveiðivertíð í sumar, hefði þurft að segja þeim upp fyrir 30. nóv. síðastl. En eins og ég sagði áðan, var þetta ekki gert. Til þess að losna við ákvæði samningsins fyrir síldveiðivertíð 1937 þarf að segja honum upp fyrir 30. nóv. næstk., og fyrir þann tíma mun að sjálfsögðu verða tekin ákvörðun um það.

Ég get að mörgu leyti tekið undir það, sem hv. þm. rakti hér um afgreiðslu norsku samninganna, en ég tel, að um þá megi fyrst og fremst deila við hans eiginn flokk, sem mest studdi að því, að samningarnir voru lögfestir. Og mér vitanlega liggur ekkert fyrir um það, að flokkur hans sem heild hafi breytt afstöðu sinni til þessa máls.

Orð hv. þm. og fyrirspurn gefa mér ekki tilefni til þess að segja fleira, og get ég því látið þetta nægja.