08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3299)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Fyrirspyrjandi (Guðbrandur Ísberg):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hans greiðu svör. — Ég hefi nú fengið að vita það, sem ég raunar hafði grun um áður, að norsku samningunum hefir ekki verið sagt upp, og jafnframt, að það muni verða tekið til rækilegrar athugunar, hvort fært þætti að segja þeim upp nú í haust. Ég vil vænta þess, að þetta verði tekið til rækilegrar athugunar og að samningunum verði sagt upp, ef fært þykir. Ég þykist að vísu ekki þurfa að minna aftur á þá hættu, sem ég benti á áðan, að okkur stafaði þjóðréttarlega af þessum samningum. Það er það atriði, sem ég legg mesta áherzlu á. Þó að samningarnir hafi mikla fjárhagslega þýðingu til hins verra fyrir suma hluta Norðurlands, þar á meðal mitt kjördæmi, þá tel ég það minna atriði heldur en hitt, sem ég minntist á áðan.

Hæstv. ráðh. gaf það í skyn, að ég gæti gjarnan talað við minn eiginn flokk um þetta mál, þar sem hann hefði stutt það á þingi. Það er rétt, að meginhluti flokksins greiddi atkv. með samningunum þá, en ég veit ekkert um það, hvort hann mundi telja sig tilbúinn nú til þess að greiða atkv. með því að segja samningunum upp. En ég tel þó, að svo mikið hafi breytzt síðan, bæði að því er snertir það atriði, að Þjóðverjar hafa nú komið fram með mjög nærgöngular kröfur og eins að því er snertir kjötútflutninginn til Noregs, sem hefir mikið minnkað síðan, að þar af leiðandi sé minni ástæða til þess að viðhalda samningunum en samþykkja þá 1933.

Ég vildi fá þetta fram m. a. vegna áskorunar frá mönnum úr mínu kjördæmi, sem hafa vænzt þess allt frá því fyrsta að samningarnir voru gerðir, að þeim yrði sagt upp við fyrsta tækifæri. Að öðru leyti hirði ég ekki um að fjölyrða frekar um þessa fyrirspurn. Ég hefi fengið svar við henni og vil enn undirstrika ósk mína um það, að það verði tyllt á fremsta hlunn með að segja upp samningunum svo fljótt sem unnt er.