08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (3300)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Pétur Halldórsson:

Ég er hissa á því, hvað hæstv. ráðh. gat svarað þessari fyrirspurn rólega og yfirlætislega, eftir þá fortíð, sem hann og hans flokkur á í þessu máli. Ég man ekki betur heldur en sósíalistar, sem hann er ráðh. fyrir, hafi látið ótvírætt í ljós á sínum tíma, að þessi samningur væri af hendi þeirra, sem að honum stóðu fyrir landsins hönd, svo illa gerður, að það stæði landráðum næst að eiga nokkurn hlut að honum. Og það var þyrlað upp því moldviðri um þessa samninga af hálfu sósíalista, að slíkt er einsdæmi um utanríkismál. — Nú hefir þessi hæstv. ráðh. haft tækifæri til þess að segja þessum samningum upp, en nú lætur hann sem það sé fyrst og fremst á valdi sjálfstæðismanna og að þeir hafi ekki viljað samvinnu við stjórnarflokkana í utanríkismálanefnd nú um tíma, og lét líta svo út, að sjálfstæðismönnum væri þá nær að taka sæti í utanrmn. aftur, ef þeir vildu tala nokkuð um þessi mál.

Ég verð að segja það, að það undraði mig ekkert, þó að það kæmi í ljós, að sósíalistar kingdu þessu eins og svo mörgum öðrum stóryrðum sínum og hefðu vansæmd af strax þegar þeir eiga að hafa aðstöðu til þess að gera breytingar í þá átt, sem þeir vilja vera láta. Það sýnir bara yfirdrepskap og ósanngirni og það, að á bak við orð þeirra er yfirleitt engin sannfæring, þegar þeir ásaka menn fyrir ferlega glæpi, en fella svo ekki samningana niður, þegar þeir fá aðstöðu til þess. Mér finnst, að ekki sé ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. að tala um þetta með þeim gorgeir, sem hann gerði, því vegur hans og flokksmanna hans er mjög lítill í þessu máli. Það er aðeins ein sönnun þess, hver einlægni og sannfæring er á bak við orð þeirra, þegar rætnast er talað af þeirra hálfu.