08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. G.-K. viðurkenndi, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að nokkur þm. hafi leyft sér að segja upp þessum samningi án þess að vita fyrirfram, að það sé í samræmi við meiri hluta þings, og með því er í raun og veru alveg skýrð afstaða mín og míns flokks í þessu máli. Það liggur ekkert fyrir, sem bendir til þess, að möguleikar hafi verið á því að fá samþykki Alþingis fyrir uppsögn samningsins. Það er vitað og var vitað, að einhverjir menn innan Sjálfstfl. voru því fylgjandi, að samningnum væri sagt upp, en ekkert vitað um, að sá hluti flokksins nægði til þess að skapa meiri hl. á Alþingi.

Hv. þm. segir réttilega, að ráðh. gæti leitað eftir vilja Alþingis í þessu máli með því að bera fram till. á þingi um uppsögn samningsins og lagt það við, að hann færi og sliti samvinnunni við hinn flokkinn, ef sú till. yrði felld, og ég skil vel, að frá hans sjónarmiði væri það ákaflega æskilegt, að svo færi, og ég skil vel, að jafnvel þó að einhverjir af hans flokksmönnum umfram þá fáu, sem vitað er um, að eru með uppsögn, hefðu haft tilhneigingu til að vera á móti samningnum, þá mundu þeir að sjálfsögðu hafa horfið frá því, ef þeir á þann hátt hefðu getað komið því til leiðar, að samvinnu stjórnarflokkanna yrði slitið. Það veit hver maður, sem nokkuð fylgist með stjórnmálum.

Hv. þm. fullyrðir, að Framsfl. hefði látið sig, hann hefði ekki gert það að samvinnuslitum, þó að Alþfl. hefði sett það að skilyrði fyrir þátttöku sinni í stj., að samningnum yrði sagt upp. Hann verður að spá þar eins og honum þóknast. Ég veit, að það lá fyrir skýlaus yfirlýsing í þessu efni, sem ég gat ekki og hafði ekki ástæðu til að ætla, að ekki væri fullkomlega slík, að við hana yrði staðið.

Ég get sagt í þessu sambandi, að hv. þm. veit það mætavel, að það er fjöldi 1. í gildi, sem Alþfl. er og hefir frá öndverðu verið andvígur, og l., sem hann hefir lagt mesta kapp á að ekki næðu fram að ganga, en hann hefir ekki getað fengið samvinnu um við þann flokk, sem hann vinnur með, að nema úr gildi og setja önnur á stofn. Svo má auðvitað deila um það í hverju einstöku máli, hversu ríka áherzlu beri á það að leggja.

Út af fullyrðingum þessa hv. þm. og annara hv. þm. um það, að við Íslendingar höfum framselt þjóðarréttindi okkar í hendur þjóð, sem væri margfalt stærri en Norðmenn, þá þykir mér rétt að geta þess, að síldveiðiskip annarar þjóðar hafa fengið sama rétt og Norðmönnum er veittur. En því var strax, þegar norski samningurinn var settur, slegið föstu af þeim mönnum, sem kunnugastir voru þessum málum, að um það þyrfti engan sérsamning að gera. En um þá þjóð, sem hér um ræðir og stundar veiði hér við land, er allt annan veg farið og fríðindi hennar tiltölulega þýðingarlítil samanborið við Norðmenn, vegna þess að þeir hafa allt aðrar tegundir skipa hér við veiðiskap. Norðmenn stunda sína síldveiði svo að segja eingöngu á línuveiðaskipum, tiltölulega smáum, en hin þjóðin stundar ekki veiðarnar á slíkum skipum, heldur með móðurskipum, sem smærri skip fiska til.