08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að sér þætti það merkilegt, að ég hefði engin rök fært fyrir því, af hverju Framsfl. væri á móti því, að samningnum væri sagt upp. Út af þessum orðum hv. þm. vil ég benda á það, að þessar umr. hafa ekki verið til þess að tala um efni samningsins, heldur aðeins til þess að tala um meðferð hans, og þess vegna taldi ég ekki ástæðu til að geta sérstaklega um það, hvers vegna Framsfl. er á móti því, að honum sé sagt upp, fremur en hv. 6. þm. Reykv. og aðrir, sem vilja, að samningnum sé sagt upp, hafa fært fram ástæðu fyrir þeirri afstöðu sinni. Ég skal þó segja það almennt, að Framsfl. áleit, að þau hlunnindi, sem samningurinn veitti bændum, væru það mikils virði, að ekki væri til vinnandi að sleppa þeim til þess að fá upp bætta þá galla, sem á samningnum væru. Það var ekki líklegt, að hægt væri á annan hátt að fá bætur fyrir þá, sem hlunnindin misstu, svo að við væri unandi. Þetta var afstaðan í haust, og eru þetta aðalástæðurnar fyrir því, að flokkurinn vildi þá ekki láta segja samningnum upp. Hvernig þetta verður í framtíðinni, er ekki hægt að segja. Það getur vel verið, að hægt verði að breyta samningnum eða segja honum upp, ef þá væri t. d. hægt að bjóða þeim bætur, sem af því biðu tjón. Um það er engu hægt að spá.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta, þar sem hér er eingöngu rædd meðferð samningsins, en ekki efni hans.