08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

Thor Thors:

Hæstv. atvmrh. svaraði áðan einni spurningu frá hv. 6. þm. Reykv., þess efnis, hvort hann stæði við þau ummæli, sem hann hefði haft áður um þessa samninga. Nú hlaut hæstv. ráðh. á þeim tíma, sem flokksmenn hans og blöð staðhæfðu, að þetta væri landráðasamningur, að hafa sömu afstöðu, úr því að hann tók ekki sérstöðu. Ég finn ekki, hvort hann hefir sjálfur haft þau orð á þingi, að þetta væri landráðasamningur, en að sjálfsögðu er hann ábyrgur fyrir þessum ummælum. En vilji hæstv. ráðh. draga saman seglin og takmarka ábyrgð sína við það eitt, sem hann hefir sagt sjálfur, þá má minna hann á nokkur þeirra.

Hann segir m. a. á bls. 1427 í Alþt. 1933, B, með leyfi hæstv. forseta: „En af því, sem ég nú hefi sagt“ — þá er hann búinn að telja fram þá ógurlegu galla, sem séu á samningnum — „tel ég það sýnt, að það sé með öllu ógerlegt að samþ. þetta frv. um staðfestingu samningsins. Þinginu er skylt að fella það umsvifalaust“.

Nú hefir þessi hæstv. ráðh. haft tök á að losna við þennan samning. Hann hefir haft tækifæri til þess í nærfellt 2 ár og hefir ekkert gert.

Þá segir hann hér á bls. 1543 (þá er hann að deila við þáv. forsrh., Ásgeir Ásgeirsson, sem hann þá sakaði um að vera landráðamaður, en nú er í hans flokki:

„Og hæstv. ráðh. bætti því við, að samnigar yrðu örðugastir, þegar eigin landsmenn gerðu allt sem erfiðast fyrir með ofsa og mótþróa. Ég játa það ekki, að ég hafi sýnt nokkurn ofsa í þessu máli, en mér þykja þessi ummæli hæstv. ráðh. allskrítin; ég geri ráð fyrir því, að ég hafi leyfi til að skapa mér mína eigin skoðun í þessu máli sem öðrum, og sé svo með þeim eða móti eftir málavöxtum. Og hæstv. forsrh. getur þó ekki ætlazt til þess, að ég sitji þegjandi, bara til þess að létta honum samninga, sem ég er sannfærður um, að verði þjóð okkar til óheilla. Þegar svo stendur á, álít ég það skyldu mína sem þm. að sporna við framgangi málsins eftir mætti. Hæstv. ráðh. hefir því enga ástæðu til þess að gefa mér ofanígjöf fyrir það að vera á móti samningnum, en það hefði verið ámælisvert, hefði ég verið á móti samningnum og þagað.“

Nú hefir þessi hv. fyrrv. þm. Seyðf. verið atvinnu- og utanríkismálaráðherra í nærfellt 2 ár og þagað, þótt hann hafi haft þau völd, að hann hefði getað fengið þessum samningi hrundið. Ég ætla ekki að hafa um þetta sterkari orð heldur en hans eigin. Hann hlýtur að vera ámælisverður.