08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. Snæf. veit það vel, að ég hefi ekki þagað, og fyrir þá sök, að ég hefi ekki þagað, kom fram yfirlýsing frá hinum stjórnarflokknum um, að hann væri því andvígur, að samningnum væri sagt upp. Annars hefði engin ástæða gefizt til þess að sú yfirlýsing kæmi fram.

Ég hefi lýst því yfir, að mín skoðun á samningnum er óbreytt frá því, sem hún var. En það hefir ekkert komið fram, sem bendi til þess, að nokkuð hefði hafzt upp úr því, þótt málinu hefði verið hreyft. Ég verð að telja sterkar líkur fyrir því, að afstaðan hefði orðið sú sama og áður og afleiðingin aðeins sú, að Alþfl. hefði tekið sinn mann úr stjórninni.

Hv. 6. þm. Reykv. var mjög raunamæddur yfir því, að fá nú ekki tækifæri til að greiða atkv. um samninginn. Ég veit, að það er setið á honum í flokknum, en eigi að síður hefði honum átt að vera opin sú leið, ef honum var þetta svo mikið áhugamál sem hann lætur, að bera þá fram till. um, að samningnum yrði sagt upp, og hefði þá getað greitt atkv. (SK: Það er ekki víst; mál eru oft svæfð í n.). Ef heill hugur fylgdi þessum orðum hv. þm., þá efast ég ekki um, að hann hefði borið fram slíka till.

Út af því, sem hann sagði, að ég mundi vera kominn á það stig, að ég skeytti hvorki um skömm né heiður, þykir mér rétt að vekja athygli á því, að hann hefir þar að sjálfsögðu dæmt út frá sjálfum sér. Og ég skal endurtaka það, að ég fagna því að fá ákúrur hjá honum, því mér er annt um heiður minn og mun reyna að haga störfum mínum svo, að ég fái sem mest aðkast frá honum.