04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

21. mál, botnvörpuveiðar

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég get að mestu leyti vísað til grg. frv. og þess er ég sagði við 1. umr.

Reynslan af þessum veiðum er ekki mjög mikil hér við land, en bendir þó til þess, að kampalampinn sé mjög víða, og þá ekki sízt í fjörðum og flóum, þar sem ekki fara aðrar fiskveiðar fram. Ég benti á við 1. umr., að til þessara veiða mætti nota skip, sem til annara veiða kannske ekki reyndust nothæf, þar sem veiðin fer að mestu fram innfjarða.

Hér er um að ræða dýrmæta útflutningsvöru fyrir landsmenn. Það er að vísu ekki mikil reynsla fengin á söluna ennþá, en þó má geta þess, að reynslusending, sem nýlega var send, af kampalampa, sem veiddur var við Ísafjarðardjúp, seldist fyrir kr. 1,50 kg. í Englandi. En norskur og danskur kampalampi seldist á sama markaði talsvert hærra, svo að búast má við, að hér sé um talsvert dýrmæta útflutningsvöru að ræða.

Sjútvn. mælti einróma með því, að frv. væri samþ., þó með dálitlum breytingum, þannig að veiðin verði leyfð á tilteknum svæðum, svo að allrar varúðar verði gætt, og að ekki komi til mála, að þessi veiði á nokkurn hátt geti truflað aðrar fiskveiðar.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, en vænti, að hv. d. vísi frv. til 3. umr. og samþ. brtt. sjútvn.