04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

21. mál, botnvörpuveiðar

*Pétur Ottesen:

Ég sé á þessari aths. frá sjútvn., að hún hefir litið svo á, að þessi veiðiaðferð, sem hefir verið notuð, sé óheimil samkv. lögum um bann gegn botnvörpuveiðum, og að því leyti, sem þessi veiði hafi verið stunduð hingað til, þá hafi bann gegn botnvörpuveiðum verið brotið. Það felst í því, að n. leggur til að veita hér undanþágu með að stunda þessar veiðar, að hennar skilningur á löggjöfinni um þetta er þannig, að þessi veiðiaðferð sé óheimil. Þó að n. leggi til, að þessi veiðiaðferð skuli heimiluð, þá felst í brtt. hennar viðurkenning fyrir því, að hér geti verið um varhugaverða veiðiaðferð að ræða að því er snertir fiskveiðar, því að hún vill setja inn ákvæði um það, að þessi veiði verði þó ekki stunduð nema á tilteknum svæðum. Og mér skildist, eftir því, sem hv. frsm. skýrði þetta, að það væri eingöngu um að ræða svæði, þar sem engar fiskveiðar færu fram, eða ekki væru skilyrði fyrir hendi til þess að stunda aðrar fiskveiðar.

Nú virðist mér, að þetta sé ákaflega óskýrt, hvað meint er með þessu að öðru leyti en því, sem þessi skýring hv. frsm. fól í sér, að þetta skyldi því aðeins leyft, að engar aðrar fiskveiðar fari fram á þessum svæðum, og ekkert er talað um, hver eigi að tiltaka þessi svæði, sem á að leyfa þessar veiðar á. Þess vegna virðist mér að þetta þurfi enn nánari athugunar við hjá hv. n., og að það þurfi að koma fram, hver á að fella úrskurð um, hvar þessar veiðar skuli leyfðar, og ennfremur að taka upp í frvgr. það, sem hv. frsm. sagði, að heimila aðeins þessar veiðar þar, sem engar aðrar fiskveiðar væru stundaðar.

Ég vildi skjóta þessu hér að, ef hv. n. vildi athuga það fyrir 3. umr.