04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

21. mál, botnvörpuveiðar

Frsm. (Finnur Jónsson):

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Borgf., að sjútvn. hafi lagt með flutningi þessa frv. neinn dóm á um það, hvort þessar veiðar væru heimilar eða ekki samkv. núgildandi lögum. En n. þótti varlegra að setja þessa heimild í lögin, svo að ekki komi til þess, að nokkur yrði dæmdur fyrir þessar saklausu veiðar, sem landsmönnum geta orðið að miklu gagni. Það er ekki á neins annars færi en hæstaréttar að skera úr því, ef svo færi, að einhver yrði kærður fyrir þessar veiðar, hvort veiðin væri heimil eða óheimil samkv. núgildandi lögum. Á það hefir n. engan dóm lagt með því að koma með þetta frv. Ekki hefir n. heldur á nokkurn hátt lagt dóm á, að þessi veiðiaðferð væri á nokkurn hátt varhugaverð, heldur þvert á móti liggja fyrir allar upplýsingar um það, að þessi veiðiaðferð sé að engu leyti varhugaverð. En vegna þeirra, sem kynnu að vera hræddir við, að þetta veiðitæki spillti fyrir annari veiði, þá taldi n. rétt, að svæðin, sem þessi veiði væri leyfð á, væru tiltekin, og það felst í brtt. n. og frvgr., eins og hún er orðuð, að það sé ráðh., sem á að tiltaka veiðisvæðin.

Eins og ég sagði áðan, er þessi veiði á tilraunastigi, en það er ákaflega sennilegt, að það komi í ljós, að veitt verði á ýmsum stöðum innfjarða, og mjög víða þar, sem engar aðrar veiðar eru stundaðar. Ég skal geta þess, að tilraunaveiði hefir verið rekin við Ísafjarðardjúp á Hestfirði, þar sem engar aðrar veiðar eru stundaðar. Þar með er ekki sagt, að kampalampinn finnist ekki annarsstaðar við landið. Af rannsóknum dr. Bjarna Sæmundssonar á þessum hlutum hefir komið í ljós, að nokkuð mikið af kampalampa er inni á Hvalfirði, og er mér ekki kunnugt um, að nein veiði sé stunduð þar. (PO: Jú, jú). Það er sjálfsagt rétt, fyrst hv. þm. Borgf. upplýsir það, en n. vildi sem sagt fara mjög varlega í þetta, meðan væri verið að gera tilraunir á þessum málum, og eins meðan þeir, sem kynnu að álíta, að órannsökuðu máli, að þetta veiðarfæri spillti fyrir annari veiði, væru að sannfærast um, að svo væri ekki. Taldi n. því rétt að hafa þetta form fyrir þessari undanþágu.