04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

21. mál, botnvörpuveiðar

Frsm. (Finnur Jónsson):

Það má vel vera, að betur færi að segja „með venjulegri kampalampavörpu á svæðum, sem ráðherra tiltekur“, en n. áleit þess enga þörf, þar sem enginn hefir leyfi til að veita þessa undanþágu nema ráðh. sjálfur.

Ég hefi ekki sagt, að ég ætlaðist til, að þessar veiðar væru eingöngu stundaðar þar, sem engar aðrar veiðar væru stundaðar. (PO: Ég skildi það svo). Ég sagðist ætlast til, að þessar veiðar væru leyfðar þar, sem vissa væri fyrir, að þær spilltu ekki veiði annara nytjafiska. Og ég álít, að það sé svo fylgzt með í því, sem heitir landhelgi og landhelgisveiðar, hér á voru landi, að það sé alveg óhætt að fela þeim ráðh., sem fer með þessi mál á hvaða tíma sem er, og hvaða flokki sem hann kann að tilheyra, að veita þessa undanþágu, því að það verður aldrei liðið, að svona veiðarfæri verði notað í landhelgi til þess að spilla fyrir veiði annara nytjafiska, að hvaða ráðh. sem er hafi ekki aðhald um það.

Ég legg áherzlu á það, að þetta er mikið nauðsynjamál, og getur orðið til þess að útvega mörgum atvinnu og aukið gjaldeyrinn í landinu. Ég legg því áherzlu á, að frv. nái fram að ganga, og endurtek ég það ennþá, að ég er alls ekki viss um, að það væri í rauninni brot á lögunum um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi að nota þetta veiðarfæri, af ástæðum, sem ég hefi þegar tekið fram og ég hirði ekki um að endurtaka.