06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

21. mál, botnvörpuveiðar

*Pétur Ottesen:

Eftir upplýsingum, sem hv. frsm. sjútvn., hv. þm. Ísaf., gaf hér við 1. umr. þessa máls, þá hafa, enn sem komið er, þessar veiðar verið eingöngu stundaðar á þeim stöðum, þar sem ekki hefir verið um aðrar veiðar að ræða. Og þar sem svo stendur á, finnst mér skaðlaust að leyfa þessar veiðar. En það hinsvegar, að fara að opna möguleika til þess að nota nót innfjarða, þar sem aðrar fiskiveiðar eru stundaðar, álít ég mjög varhugavert.

En út af því, sem hv. 3. landsk. hélt, að þetta ákvæði í brtt. minni mundi rekast á við það, ef menn vildu veiða rauðmaga og grásleppu, þá skal ég upplýsa það fyrir þeim hv. þm., að þær veiðar er ekki hægt að stunda annarsstaðar en þar, sem er stórgerður þarabotn. En ég ætla, að erfitt muni vera að trolla með þessa kampalampavörpu eftir graðhestaþönglum og þess háttar sjávargróðri, þar sem grásleppan og rauðmaginn halda sig. Svo að þetta rekur sig ákaflega mikið á hjá hv. þm. Hann hefir ekki skyggnzt um öll undirdjúp sjávarins, og ferst þess vegna ekki að vera að tala til mín um vanhugsaðar till. í sambandi við fiskveiðar hér við land.