20.03.1936
Efri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

67. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Magnús Jónsson):

Á þinginu 1934 var þessi skattaívilnun fyrir h/f Eimskipafélag Íslands framlengd fyrir árin 1935 og 1936. Þar sem engin breyt. hefir orðið á þeim fjárhagslegu ástæðum félagsins, sem urðu þess valdandi, að þessi lög voru sett, þá hefir félagið nú farið fram á, að þessi lög væru framlengd um tvö ár enn, eða fyrir árin 1937 og 1938. Frv. er borið fram af hv. fjhn. Nd., en fjhn. þessarar hv. d. hefir athugað frv. og borið saman við þau lagaákvæði, sem til er vitnað, og leggur fjhn. einróma til, að frv. verði samþ.