04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

16. mál, útflutningsgjald

*Sigurður Kristjánsson:

Afstaða mín í vetur í þessu máli var svo skýr, að hún hefði átt að vera hverjum meðalgreindum manni, sem með málinu fylgdist, alveg ljós. En annaðhvort hefir hv. 6. landsk. ekki fylgzt með því, sem í málinu gerðist þá, eða þá að einhver undarleg hringrás hefir átt sér stað í hans eigin heila.

Þegar þetta mál lá fyrir þinginu í vetur, voru liðnir aðeins nokkrir mánuðir síðan tollurinn var lagður á. Afstaða mín í þessu máli var því sú, að ég vildi fá einhverja reynslu fyrir því, að þessi tollálagning væri vanhugsuð, áður en ég féllst á það að afnema hana. Því vildi ég láta úrslit málsins bíða fram yfir áramótin, þar sem ég vissi, að frv. um afnám tollsins myndi þá verða flutt aftur. En ég tók það jafnframt alveg skýrt fram, að ég teldi alla útflutningstolla á afurðum sjávarútvegsins óréttmæta, eins og hag hans er nú komið, nema því aðeins, að fullvíst væri, að erlendir kaupendur greiddu í raun og veru tollinn. Þessi skoðun mín stendur alveg óhögguð enn. Þegar fiskimjöl er í háu verði, eru það kaupendur hráefnanna, sem greiða tollinn, en þegar það stendur illa á erlendum markaði, er boðið svo lítið í beinin, bæði af erlendum og innlendum kaupendum, að menn hætta að verka þau, að óbreyttri þeirri tollalöggjöf, sem nú er í gildi.

Það mun vera alveg rétt hjá hv. 6. landsk., að fiskbeinaiðnaðurinn stendur sig ekki vel. En hann má ekki vera svo þröngsýnn að ætla sér að hjálpa þeim atvinnuvegi, þótt hann sé illa staddur, á kostnað annars atvinnuvegar, sjávarútvegsins, sem er enn verr staddur, en miklu fleiri menn hafa þó atvinnu af.

Það er vitanlega ekkert nema fáránleg fjarstæða að skattleggja útflutningsvörur atvinnuvegar, sem allir vita, að ber sig alls ekki fjárhagslega. Þótt ég gengi hinsvegar ekki svo langt í þessu máli sem ég hafði ætlað í fyrstu, að leggja til, að þessi tollur yrði ekki hærri en tollur á saltfiski, var það af því einu, að tollur á síldarmjöli hefir ekki enn verið lækkaður, en ekki af því, að ég telji í raun og veru nokkurn toll réttmætan á sjávarafurðunum eins og hagur sjávarútvegsins er nú.