04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

16. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Ég vil taka undir það með hv. 6. þm. Reykv., að viðhorfið í þessu máli er nokkuð breytt frá því á síðasta þingi, eða í des. s. l. Því að eins og hv. 6. landsk. er kunnugt, kemur megnið af afla okkar á land fyrra hluta ársins, og þá sérstaklega sá afli, sem þessi úrgangur fæst úr. Það var því ekki vitað á síðasta þingi, hversu langt mundi vera hægt að ganga í að taka á þessu ári þennan verndartoll af þessari vöru til þess að hækka verðið til framleiðendanna. En nú er komið í ljós, að það mun eiga að hækka til svo mikilla muna verðið á beinum og hausum, að framleiðendur munu ekki í ár fá nema helming af því verði, sem greitt var fyrir vöruna á síðasta ári, og kom þó til greina nokkur lækkun á verðinu þá strax.

Hv. 6. landsk. var að lesa hér upp úr hagskýrslum um útflutning á fiskimjöli og fiskbeinum og gera samanburð á verði, sem fengizt hefði fyrir þessar vörutegundir. Það er náttúrlega engum blöðum um það að fletta, að það eru fleiri krónur, sem fást fyrir hvert kg. af fiskimjöli heldur en af fiskbeinum óunnum. En hvorki sá hv. þm. né nokkur annar getur haldið því fram, að þetta eingöngu beri að leggja til grundvallar, því að öllum er það kunnugt, að mikill kostnaður leggst á þessa vöru, áður en hún er möluð og komin til útlanda. Og talsvert af þeim kostnaði er ekki vinnulaun, heldur kostnaður, sem krefur erlendrar valútu, svo sem greiðsla fyrir poka til umbúða utan um mjölið og annað slíkt.

Því hefir verið haldið fram, að fiskimjölsiðnaðurinn skapi geysimikla atvinnu í landinu. En þau tíðindi hafa verið að gerast í bænum nú síðustu dagana, sem taka af öll tvímæli í þessu efni og sanna að það eru ekki svo ákaflega margir, sem atvinnu hafa af þessari mölun. Það hefir staðið deila hér í bænum á milli verkamannafélags og beinaframleiðenda um það, hvað margir menn eigi að vinna við þetta á hverri vöku. Og einmitt gegnum þær deilur hefir fengizt úr því skorið, hve margir menn hafa haft atvinnu við fiskimjölsframleiðsluna hér í bænum.

Þá vil ég vekja eftirtekt á því hér, að hv. 6. landsk. sagði, að það yrðu alltaf íslenzku verksmiðjurnar, sem réðu verðinu á þessu hráefni, hvað sem tollinum liði. En ég spyr þá: Hver er þá ástæðan til þess að hafa þennan verðtoll á þessari vöru, ef íslenzku verksmiðjurnar þurfa hans ekki við, til þess að ráða verðinu á hráefninu? Þegar þessi tollhækkun var leidd í lög, sem lagt er til í frv., að afnumin verði aftur, þá var því haldið fram, einmitt af hv. 6. landsk., að tollhækkunin þyrfti að komast á, til þess að íslenzku verksmiðjurnar gætu staðizt samkeppnina við Norðmenn. Nú heldur sami hv. þm. því fram, að tollurinn hafi ekkert að segja hvað verðið snerti.

Þá vill hv. 6. landsk. halda því fram, að það séu ekki framleiðendur beinanna og hausanna, sem greiði tollinn. Ég veit nú ekki, hvernig hann hyggst að sannfæra hv. þm. um það, að það hafi engin áhrif á verð hráefnisins, hvort af því er greiddur 10 kr. tollur pr. smálest, eða tollurinn er 30 kr. af sama vörumagni. Ég býst við, að erfitt muni vera að sannfæra fleiri en mig um, að það hafi engin áhrif, hvor þessi leið er farin í álagningu tollsins.

Ég hygg, að engum heilvita manni geti blandazt hugur um, að hvað sem rétt hefir verið að gera, þegar tollurinn var hækkaður, þá sé nú sú reynsla komin af tollinum, að ekki geti komið til nokkurra mála að láta hann standa lengur eins og hann er. Það má slá því föstu, að ef tollur þessi helzt eins og hann nú er og hráefnið verður í því verði, sem það er nú í í skjóli tollsins, þá verður mikið, sem fellur til af beinum sem ekki verður hirt. Og við það er loku skotið fyrir, að sá gjaldeyrir fáist, sem annars mundi fást fyrir vöruna, ef framleiðendunum væri ekki gert ómögulegt að hirða hráefnið.

Hagur smáútvegsins, sem aðallega leggur þetta efni til, stendur ekki svo föstum fótum nú, að það geti verið réttmætt að leggja á hann þunga skatta til þess að halda uppi nokkrum verksmiðjum, sem af aðstandendum þeirra er haldið fram, að hafi ekki getað borgað sig, og vitað er um, að eru svo skuldum hlaðnar, að þær geta ekki nokkurntíma gengið í samkeppni við aðrar fiskimjölsverksmiðjur á skynsamlegum grundvelli.