04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

16. mál, útflutningsgjald

*Jónas Guðmundsson:

Varla tekur að tala hér yfir tómum stólum um þetta mál. Þó vildi ég minnast á fáein atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann hefir víst skilið mína ræðu þannig, að ég meinti, að hann væri eitthvað taugaveiklaður og þarfnaðist hælisvistar. Ég vil taka það fram, að það var ekki meining mín, heldur fór ég sæmilega kurteislega fram á, að hann gerði grein fyrir þessum snúningi sínum, sem áreiðanlega er ekki hægt að komast hjá að viðurkenna, að átt hafi sér stað hjá honum, þó að hann hafi reynt að klóra í bakkann og færa nokkur rök fyrir því, hvers vegna hann hafi snúizt. Og rök hans eru þau, að honum hafi um miðjan des. s. l. ekki þótt nægar sannanir fyrir hendi um það, hvernig tollurinn mundi koma til með að verka í framtíðinni. En nú í marzbyrjun segir hann þessar sannanir vera fyrir hendi. Ég verð að leyfa mér að líta á þetta sem harla veigalítil rök. Frá því í des. s. l. og þangað til nú hefir mér vitanlega ekkert gerzt í þessu máli annað en það, að vitneskja hefir fengizt um það, að Þjóðverjar mundu borga minna fyrir þessa vöru heldur en þeir gerðu í fyrra. Og þess vegna finnst mér ennþá meiri ástæða til þess, að sem mest af þessu hráefni haldist inni í landinu til vinnslu og sé ekki flutt út óunnið.

En hv. 6. þm. Reykv. sagði mjög svo eftirtektarverða setningu, sem ég vil undirstrika og bæta ofurlitlu við. Hann sagði, að ef mjölið stæði hátt á erlendum markaði, þá yrðu erlendir kaupendur beinanna greiðendur tollsins. En þetta er bara alveg eins, hvort sem verðið á erlendum markaði er hátt eða lágt. Þeir verða í öllum tilfellum greiðendur tollsins. Það selur enginn framleiðandi vöruna út úr landinu fyrir lægra verð en það, sem hann getur fengið fyrir hana hjá íslenzkum verksmiðjum, að viðbættum tollinum. Þess vegna verða erlendir kaupendur þessarar vöru í öllum kringumstæðum greiðendur tollsins, en ekki hinir íslenzku framleiðendur. Það er viðurkennt af öllum, og það var meira að segja aðalatriðið í hinu merkilega skjali, sem hér var lagt fram í des. s. l. frá Fiskifélaginu, þar sem sagt var, að þá fyrst þegar íslenzku verksmiðjurnar fóru að geta notið sín í þessu efni, fór verðið að hækka. Það er sýnt, að það voru þær, sem hækkuðu verðið, og það verða þær, sem halda verðinu uppi. Það verð, sem þær geta greitt, er það verð, sem allir landsmenn fá fyrir þetta hráefni. Norðmenn og aðrir, sem koma til greina um þessi kaup, þeir fara ekki að gefa frá sér vitið í þessu efni. Þeir fara ekki að borga hærra fyrir vöruna en þeir þurfa. Þeir kannske borga 5 kr. hærra fyrir tonnið heldur en íslenzku verksmiðjurnar, og tollinn að auki, ef þeir endilega vilja fá þessa vöru. En sá mismunur verður aldrei það, sem þjóðhagslega nemur því, sem tapast við það, ef íslenzku verksmiðjurnar hætta að geta unnið úr þessu hráefni og skapað þar með verðmæti til útflutnings. Þetta er svo augljóst mál, að hver meðalgreindur þm. hlýtur að skilja þetta, þegar hann leggur þetta niður fyrir sér. Það er svo barnalegt að ímynda sér, að útlendir kaupendur færu að borga tugum króna hærra verð fyrir tonnið af þessari framleiðsluvöru heldur en íslenzku verksmiðjurnar geta boðið. Og því hærra verð geta íslenzku verksmiðjurnar boðið, því meira vörumagn sem þær fá til að vinna úr. En með þessu frv. er stefnt að því, að þær fái sem minnst af þessari vöru og að af henni tapist sem mest.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði líka það, að iðnaðurinn stæði nú svo illa, að hann gæti búizt við því, að hann stöðvaðist, og að hann vildi ekki skattleggja annan verr stæðan atvinnuveg til þess að halda þessum iðnaði uppi. Þetta er rétt hugsað, ef tollurinn er skattur á útgerðinni. En ég er margbúinn að sýna fram á, að útgerðin er alls ekki skattlögð með þessum tolli. Þeir einu af landsmönnum, sem geta tapað á þessum tolli, eru örfáir milliliðir, sem erlendir menn hafa hér á leigu til þess að kaupa þetta hráefni fyrir sig. Og ef þeir eiga fullt af formælendum hér í hv. d., þá finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn.

Út af ræðu hv. 3. landsk. hefi ég eiginlega ekkert að segja. Þar kom ekkert fram nýtt til viðbótar því, sem áður hefir verið rætt, nema hvað hv. þm. sagði, að viðhorfið væri breytt í þessu efni frá því í des. s. l. Og það er rétt að þessu leyti, að verðið hefir lækkað. En það er bara ástæða til þess að láta íslenzku verksmiðjurnar fá ennþá meira að gera. Ég vil leyfa mér að skjóta fram einni spurningu. Hv. 3. landsk., sem er í stj. síldarverksmiðja ríkisins, gerir allt, sem hann getur til þess, að þær fái sem allra mest síldarmagn til að vinna úr. Og það er ekki nóg, að hægt sé að hafa eina stóra og góða síldarmjölsverksmiðju starfandi á Siglufirði, heldur þarf að kaupa verksmiðjur annarsstaðar til þess að geta tekið við sem mestu af síld til vinnslu. Hvernig getur hann nú haldið því fram, hv. þm., í fullu samræmi við sjálfs sín skoðun, að það beri að reyna að koma því hráefni, sem íslenzku fiskimjölsverksmiðjurnar vinna úr, burt úr landinu óunnu? Þarna eru svo svipaðar kringumstæður, að það er blátt áfram hneyksli, að sami maður skuli bera þetta hvorttveggja fram, að sem mest hráefni fáist í síldarverksmiðjurnar, en sem minnst í fiskimjölsverksmiðjurnar. Hv. þm. ætti alveg eins að geta ályktað svo, að því meira hráefni sem fiskimjölsverksmiðjurnar fá, því meiri líkur séu til þess, að þær geti borgað hærra verð fyrir hráefnið. Þetta er svo hliðstætt, að ekki þarf um að fjölyrða. Ef síldarverksmiðjur ríkisins fá 400–500 þús. mál, þá geta þær borgað meira fyrir síldina heldur en ef þær fá aðeins 100 þús. mál, því að í fyrrnefnda tilfellinu dreifist kostnaðurinn við þetta mikla verksmiðjubákn á meira hráefnismagn.

Þá spurði sami hv. þm., hvers vegna ástæða væri til þess að setja þennan verndartoll á og halda honum, fyrst íslenzku verksmiðjurnar réðu verðinu, eins og ég hefði sagt. Og í öðru lagi sagði hv. þm., að þegar tollurinn var settur á árið 1934, þá hafi ég haldið því fram sem ástæðu fyrir því að setja tollinn á, að íslenzku verksmiðjurnar ættu erfitt í samkeppninni við útlendinga.

Þetta er alveg rétt, að íslenzku verksmiðjurnar eiga erfitt í samkeppninni við útlendinga, því að þeir hafa betri aðstöðu til þess að vinna úr þessu hráefni heldur en við. Þess vegna er rétt að láta þá borga hærra fyrir hráefnið en okkur, og það er það, sem gert er með verndartollinum. Þar með er verið að láta erlenda kaupendur borga þann mismun, sem er á kostnaði við að vinna úr þessu hráefni þar ytra og að vinna úr því hér heima.

Það er misskilningur að álíta, að þessi tollur hafi valdið því á nokkurn hátt, að verð þessa hráefnis hefir lækkað. Einasta ástæðan til þess, að svo hefir orðið, er blátt áfram verðfall á fiskimjölinu, því að verðið á því hefir nú á fáum árum fallið úr 300 kr. pr. tonn á erlendum markaði og niður í 190–220 kr. pr. tonn, eins og það er nú.