04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

16. mál, útflutningsgjald

Finnur Jónsson:

Hv. 6. landsk. beindi þeirri spurningu til mín í sinni fyrri ræðu, hvernig stæði á því, sem hann kallaði snúning í meiri hl. sjútvn. Hv. 6. þm. Reykv. hefir svarað því að nokkru og bent á, að hér er ekki um snúning að ræða. Ástæðan fyrir því, að meiri hl. sjútvn. vildi ekki fallast á það á síðasta þingi, að beinatollurinn yrði lækkaður þá, var sú, eins og nál. á. þskj. nr. 609 frá síðasta Alþingi ber með sér að ekki lágu fyrir neinar upplýsingar um það að tollhækkunin hefði orðið til þess tjóns fyrir sjávarútveginn, er réttlætt gæti það að breyta 1. þá þegar og lækka tollinn aftur. Afstaða meiri hl. sjútvn. á síðasta Alþingi er mjög skýrt tekin fram í þeirri rökst. dagskrá, sem samþ. var þá um málið, og við það þarf ekki að bæta.

Hv. 6. landsk. sagði, að ekkert hefði vitnazt í þessu sambandi, síðan á síðasta Alþingi, þessu máli viðkomandi annað en það, að Þjóðverjar hefðu greitt nokkru minna verð fyrir mjölið heldur en á síðasta ári. Síðar í ræðu sinni upplýsti hann það, að það, sem Þjóðverjar greiddu minna fyrir mjölið, næmi um 80 kr. fyrir smálest, þannig að mjölið hefði fallið úr 300 kr. og niður 220 kr. pr. tonn. (JG: Ekki í ár). En hvað hefir gerzt viðvíkjandi beinaverðinu? Það hefir fallið um 50%. Ég veit, að blaut bein hafa í mínu byggðarlagi fallið úr 60 aurum og niður í 30 aura nú í ár fyrir hverja körfu. Ég álít, að þetta séu næg rök fyrir því, að nú beri að afnema þessa hækkun á beinatollinum, sem sett var 1934, til þess að gefa mönnum tækifæri til að geta selt beinin þurrkuð og óunnin til útlanda, ef svo skyldi vera, að fyrir þau fengist meira á þann veg. Beinaverðið er nú orðið svo lágt, að mikil hætta er á því, að menn hætti að hirða og þurrka beinin, eins og nú standa sakir. Og þegar við höfum á milli þess að velja, að beinin verði ekki hirt, og þannig verði alls engan útflutning hægt að skapa, ef tollurinn helzt eins og hann nú er, og hins, að nokkuð meira verði flutt út af þeim þurrkuðum og óunnum, ef tollurinn verður lækkaður, heldur en verið hefir, þá segi ég það fyrir mig, að ég get ekki varið það að halda verndarhendi yfir þessum háa verndartolli, sem lögleiddur var á Alþingi 1934. Ég mótmæli því algerlega, að ég eða meðnm. mínir komum fram í þessu máli sem umboðsmenn útlendinga. Það er mjög fjarri því, að svo sé. En við höfum athugað þetta mál út frá algerlega sanngjörnu sjónarmiði, sjónarmiði ísl. sjómanna, og við höfum því verið umboðsmenn þeirra. Fyrir okkur er þetta mál ekkert trúaratriði. Á meðan ekki var hægt að færa sönnur á, að beinatollurinn væri til skaða, vildum við ekki afnema hann. En þegar það er sýnt, að beinatollurinn veldur sjómönnum og útgerðarmönnum miklu tjóni, þá er ekkert annað réttara en að samþ. þá breyt. á l., sem komið hefir fram. Hirðing á beinum var orðin það mikil, að það má ekki og á ekki að láta þennan verndartoll, sem lagður hefir verið á beinin, verða þess valdandi, að landsmenn hætti að hirða þetta hráefni. En það er það, sem menn hafa um að velja, að afnema tollhækkunina, eða að hætt verði að öðrum kosti að hirða beinin.